fbpx
Laugardagur 27.apríl 2024
EyjanFastir pennar

Björn Jón skrifar: Trúin — menningin — móðurmálið  

Eyjan
Sunnudaginn 18. febrúar 2024 14:30

Karl Sigurbjörnsson Mynd: Fréttablaðið

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Dag í senn, eitt andartak í einu, 

eilíf náð þín, faðir, gefur mér. 

Þannig hefst einn kunnasti sálmur Sigurbjörns Einarssonar biskups, sálmur sem valinn var „ástsælasti sálmur þjóðkirkjunnar“ í könnun sem Hörður Áskelsson söngmálastjóri lét gera meðal presta og organista árið 2006. Karl biskup, sonur Sigurbjörns, valdi þessi upphafsorð og gerði að heiti safns með „íhugunum á vegi trúarlífsins“ eins og hann kallaði það, sem út kom árið 2019. Það var í kjölfar útgáfu þessarar bókar sem ég kynntist Karli, við áttum samtal í þætti mínum Sögu & samfélagi á Hringbraut þar sem við ræddum um kristindóminn vítt og breitt, sálmaskáldið góða bar á góma og einnig sú staðreynd — sem lítið fæst rædd í okkar samtíma — að enginn hópur manna í víðri veröld sætir viðlíka ofsóknum og kristnir. 

Í áðurnefndri bók birtist ritningarvers og stutt útlegging fyrir sérhvern dag ársins. Þegar ég heyrði af andláti Karls, hinn 12. febrúar, fletti ég upp í bókinni. Við daginn hafði hann valið tilvitnun úr Kólossubréfi 4.2: Verið stöðug í bæninni, vakið og biðjið með þakkargjörð. Og við þennan dag lét Karl fylgja sögu sem Páll Ísólfsson hafði sagt honum. Frammi fyrir dyrum Dómkirkjunnar hafði dómorganistinn hitt fyrir götusópara og mælt til hans: „Þú ert að gera hreint fyrir dyrum Drottins, góði minn.“ Götusóparinn mun þá hafa svarað: „Já, það er ekki vanþörf á því eins og stendur.“ Eftir stutt samtal gerði Páll sér grein fyrir því að götusóparinn hafði öðlast einlæga trú, og djúpvitur setning götusóparans var sem greipt í huga Páls: „Það er gáfa að elska guð.“ 

Karl lagði út af orðinu gáfu í þessu sambandi sem merkir gjöf, náðargjöf. Trúin væri óumræðileg gæfa og bænin iðkun sem maður tæki sér „eins og tungumálið, menningin. Það á að verða góður vani.“ Trúin ætti sér gleðistundir endurfundanna, upprifjunarinnar. Trú gæti verið „stöðug, föst, verið sterk og mikil“ og hægt væri að „höndla trú og missa trú, festa hana á eitthvað, byggja á trúnni, verða staðfastur í trúnni“. En vart væri hægt að tala um trú án þess að nota orð sem vörðuðu ytri veruleika og vart væri hægt að iðka trú án þess að nota ytri tákn og atferli. Trúin hefði eing orðið efnisleg því Guð varð maður, orðið varð hold: 

„Og nú mætir hann okkur upprisinn í náunganum og í vatni skírnarinnar og brauði og víni altarisins. Sem sagt í tengslum við aðrar manneskjur og lífið og umhverfið. Þar fáum við að þiggja þá gáfu, gjöf að elska Guð.“ 

Karl náði eyrum manna. Hann tók fésbókina í sína þjónustu á seinni árum og flutti þar íhuganir og blessunarorð á degi hverjum sem ég veit að voru mörgum stuðningur, huggun, uppörvun. Honum var umhugað um menninguna, móðurmálið og í pistli á degi íslenskrar tungu fyrir nokkrum árum gerði hann þetta orð — móðurmál — að umtalsefni. Það lýsti samhengi máltökunnar; barnið næmi umfram allt málið af vörum móðurinnar. Ritmálið hefði aftur komið með kristninni og þar með ritlistin. Hún hefði átt sér skjól í ranni kirkju og kristni. Það væri ekki síst því að þakka að við ættum móðurmál  

„ástkært og ylhýrt, síferskt og fagurt rótfest á traustum stofni og djúpum rótum sögu og sagna og samfélags. Það er ástæða til að hafa áhyggjur af framtíð íslenskrar tungu þegar enskan sækir æ meir á og verður sífellt fyrirferðameiri í leikjum og samskiptum hinna ungu. Hér þarf átak í þágu móðurmálsins og kosta öllu til sem unnt er.“ 

Hann gerði að umtalsefni í þessu sambandi að málvöndun væri í huga sumra orðin skammaryrði en hún væri í reynd mikilsvert uppeldisatriði og halda þyrfti 

„góðum textum að börnunum, skerpa lesskilning og málskilning og færni, og þar þurfa heimilin og skólarnir að taka höndum saman. Í tungumálakennslu á árum áður, — dönsku, ensku, þýsku, latínu, frönsku —, var ekki minni áhersla lögð á að þýða yfir á rétt og blæbrigðaríkt íslenskt mál. Ég er þakklátur kennurunum sem lögðu það á sig, jafnvel þótt maður væri þá stundum súr yfir að fá rauð strik í stílana þegar orðanna hljóðan var rétt, en kennaranum fannst orðin ekki nógu vel valin.“ 

Karl var hugsuður, hvert orð af hans vörum var meitlað. Sérhvert samtal okkar var mér dýrmætt. Seinast hafði hann samband við mig laust fyrir áramótin vegna greinar sem ég hafði ritað um bandarísk-sómölsku baráttukonuna Ayaan Hirsi Ali sem nýverið snerist til kristni, en hún hafði fyrir löngu yfirgefið kúgun hins ofstækisfulla islamisma og þar til fyrir skömmu aðhyllst trúleysi. Við vorum sammála um að greinin væri einhver sterkasta varnarræða fyrir kristnina sem fram hefði komið lengi og ástæða til að halda henni á lofti. Inntak greinar Hirsi Ali var að veraldleg meðul dygðu ekki við ógnum samtímans. Á Vesturlöndum yrðu menn að svara þeirri spurningu hvað það væri sem sameinaði þá. Að mati hennar væri eina trúverðuga svarið fólgið í því að treysta á hina gyðinglegu-kristnu menningarhefð. Mesti ávinningur þeirrar hefðar væri líklega samviskufrelsið og málfrelsið sem hefði orðið aflvaki vísinda og skynsemi og dregið úr grimmd, bælt niður hindurvitni og orðið til þess að byggðar voru upp stofnanir sem vernduðu líf borgaranna og tryggðu flestum þeirra farsæld og frelsi. 

Í greininni sagði hún enn fremur að líf án andlegrar huggunar hefði á endanum reynst sér óbærilegt og tortímandi. Svarið sem vestræn siðmenning þarfnaðist væri fólgið í kristinni trú, hún hefði öðlast skilning á því að til væri betri leið til að fást við viðfangsefni mannlegs lífs — vegur sem hvorki íslam né vantrú gat nokkru sinni vísað henni. 

Og hvað okkur Íslendinga áhrærir þá er menningin og tungan samofin kristninni sem allt varð hverju öðru aflgjafi. Karl Sigurbjörnsson kom betur orðum að þessu í ræðu og riti en flestir — ef þá nokkur. Þar er sérhvert orð valið af kostgæfni. Guð blessi minningu Karls Sigurbjörnssonar. 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

EyjanFastir pennar
Fyrir 2 vikum

Sigmundur Ernir skrifar: Tuttugasta öldin, taka tvö

Sigmundur Ernir skrifar: Tuttugasta öldin, taka tvö
EyjanFastir pennar
Fyrir 3 vikum

Óttar Guðmundsson skrifar: Veröld sem var

Óttar Guðmundsson skrifar: Veröld sem var
EyjanFastir pennar
Fyrir 4 vikum

Þorsteinn Pálsson skrifar: Fjörutíu og tvö prósent

Þorsteinn Pálsson skrifar: Fjörutíu og tvö prósent
EyjanFastir pennar
24.03.2024

Björn Jón skrifar: Verðleikar og andverðleikar 

Björn Jón skrifar: Verðleikar og andverðleikar 
EyjanFastir pennar
16.03.2024

Sigmundur Ernir skrifar: Tími öfgaaflanna er aftur runninn upp

Sigmundur Ernir skrifar: Tími öfgaaflanna er aftur runninn upp
EyjanFastir pennar
16.03.2024

Óttar Guðmundsson skrifar: Móðgaða fólkið

Óttar Guðmundsson skrifar: Móðgaða fólkið
EyjanFastir pennar
10.03.2024

Björn Jón skrifar: Laugavegurinn — in memoriam

Björn Jón skrifar: Laugavegurinn — in memoriam
EyjanFastir pennar
09.03.2024

Sigmundur Ernir skrifar: Hvirfilbylur bölmóðsins

Sigmundur Ernir skrifar: Hvirfilbylur bölmóðsins