fbpx
Sunnudagur 28.apríl 2024
Eyjan

Óvæntar vendingar í kosningasvikamáli Trump

Eyjan
Fimmtudaginn 1. febrúar 2024 07:00

Donald Trump. Mynd/Getty

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Fyrir nokkrum mánuðum var ekki annað að sjá en málarekstur Fani Willis, ríkissaksóknara í Georgíu, gegn Donald Trump fyrir að hafa reynt að hafa rangt við í forsetakosningunum í ríkinu árið 2020 gengi vel. Margir hinna 18 meðákærðu gerðu samkomulag við saksóknarann um að bera vitni gegn forsetanum fyrrverandi. Það er yfirleitt vísbending um að málið geti orðið mjög alvarlegt fyrir hinn ákærða.

En þá byrjuðu ásakanir að líta dagsins ljós um að Willis og aðalsaksóknarinn í málinu, sem hún tilnefndi, ættu í ástarsambandi. Í kjölfarið hafa fjölmiðlar og stjórnmálamenn sótt að Willis sem er sögð hafa blandað einkalífi sínu saman við vinnu sína.

Fyrstu ásakanirnar um samband Willis við saksóknarann, sem heitir Nathan Wade, voru settar fram í 127 blaðsíðna greinargerð Michael Roman, sem er ákærður í málinu, gerði. Í greinargerðinni sakar hann Willis um að hafa gert „ábatasama samninga við unnusta sinn“ Nathan Wade og fyrir að hafa notað opinbert fé til að borga rómantískar ferðir til Miami, Karíbahafsins og Napa Valley í Kaliforníu. Hann leggur engar beinar sannanir fram fyrir þessu í greinargerðinni. En það kemur fram að Willis og Wade hafi sést „náin saman“ á mörgum stöðum í Atlanta í Georgíu og að vitni, sem starfa hjá saksóknaraembættinu, hafi staðfest að þau eigi í ástarsambandi.

Greiðslukortaupplýsingar úr skilnaðarmáli Wade sýna að hann keypti flugmiða til Miami og San Francisco fyrir sig og Willis. Miðarnir voru greiddir með hluta þeirra rúmlega 650.000 dollara sem hann hefur fengið fram að þessu fyrir vinnu sína við málið gegn Trump.

En það sem vekur kannski mesta athygli er að Willis útnefndi Wade sem saksóknara í málinu þann 1. nóvember 2021. Hann var þá algjörlega óþekktur innan bandarísku lögmannastéttarinnar. Hann hafði fram að því starfað sem lögmaður og aðstoðardómari í úthverfum Atlanta og hafði þar tekist á við mál er varða umferðarlagabrot og einföld afbrot. Margir velta því fyrir sér hvort það hafi verið vinargreiði sem réði því að Willis útnefndi hann til að annast málareksturinn.

Það ýtir svo enn frekar undir ýmsar vangaveltur að Wade fór fram á skilnað frá eiginkonu sinni, sem hann hafði verið kvæntur í 24 ár, daginn eftir að hann var útnefndur saksóknari í málinu.

Hann gerði nýlega sátt í skilnaðarmáli sínu en það gerir að verkum að hann kemst hjá því að bera vitni í því og þar með sleppur hann hugsanlega við að skýra frá sambandi sínu við Willis.

En það þýðir ekki að málinu sé lokið því Repúblikanar á þingi Georgíu hafa sett rannsóknarnefnd á laggirnar sem á að rannsaka málið ofan í kjölinn. Nefndin hefur ekki neinar valdheimildir yfir ríkissaksóknaranum en hún getur samt sem áður kallað vitni til yfirheyrslu.

Willis og Wade hafa ekki viljað tjá sig um málið fram að þessu en dómarinn, í málinu gegn Trump, hefur krafist greinargerðar frá þeim um málið fyrir vikulok. Hvað gerist eftir það, er óvíst.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Eyjan
Fyrir 6 dögum

Segir kjósendur bera ábyrgð á þeim stjórnmálamönnum sem þeir kjósa

Segir kjósendur bera ábyrgð á þeim stjórnmálamönnum sem þeir kjósa
Eyjan
Fyrir 6 dögum

Ólafur Þ. Harðarson: Afleiðing forsetaframboðs Katrínar er að Bjarni Ben er orðinn forsætisráðherra

Ólafur Þ. Harðarson: Afleiðing forsetaframboðs Katrínar er að Bjarni Ben er orðinn forsætisráðherra
Eyjan
Fyrir 1 viku

Orðið á götunni: Verða Bessastaðir stökkpallur inn á Alþingi?

Orðið á götunni: Verða Bessastaðir stökkpallur inn á Alþingi?
Eyjan
Fyrir 1 viku

Framsókn baunar á Samfylkinguna sem undirbýr að taka við stjórnartaumunum

Framsókn baunar á Samfylkinguna sem undirbýr að taka við stjórnartaumunum