fbpx
Sunnudagur 08.desember 2024
Eyjan

Jón Gnarr skrifar: Ég C þig

Eyjan
Mánudaginn 4. nóvember 2024 12:24

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Jón Gnarr skrifar:

„Það er mat dómsins að réttur stefnanda til að bera nafnið Blær sé ríkari en hagsmunir samfélagsins af því að hafna kröfunni.“
– Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 1. febrúar 2013 í máli Stúlku Bjarkardóttur Rúnarsdóttur gegn íslenska ríkinu.

Mér hafa alltaf fundist listabókstafir stjórnmálaflokkanna skemmtilega skrítnir. Þegar ég stofnaði Besta flokkinn á sínum tíma þá hefði kannski verið eðlilegast að velja B, en það var frátekið fyrir Framsóknarflokkinn. Af þeim bókstöfum sem lausir voru valdi ég Æ. Ég gerði það vegna þess að mér finnst Æ-ið svo skemmtilega íslenskt. Mér fannst það líka fanga ágætlega sársaukavein þjóðarinnar eftir Hrunið. Þegar ég gekk til liðs við Viðreisn þá hélt ég í fyrstu að V hlyti að vera listabókstafurinn þeirra en mundi svo skyndilega að það er C. Mér finnst það ekki síður skemmtilegur bókstafur en Æ.

Ég eignaðist mína aðra dóttur 14. febrúar 1992. Hún var skírð í kirkju og fékk nafnið Camilla María Jónsdóttir í höfuðið á ömmu sinni, Camillu Einarsdóttur sem var að vonum mjög ánægð með nafngiftina. Nokkrum dögum seinna fékk ég svo bréf frá Þjóðskrá eða Hagstofu Íslands, þar sem tilkynnt var að nafnið hefði verið fært inn í þjóðskrá. Ég tók hins vegar eftir að það var stafsett með K-i í stað C, þ.e. Kamilla en ekki Camilla, eins og það var ritað í kirkjubók Bústaðakirkju.

Ég hringdi því í Hagstofuna. Kona svaraði, nokkuð þurr á manninn og greinilega langþreytt á kvörtunum. Ég útskýrði fyrir henni að mistök hefðu orðið við skráningu nafnsins. „Augnablik,“ sagði hún stuttaralega og lagði tólið á borðið. Eftir 5–10 mínútur kom hún aftur í símann. „Þetta eru engin mistök. Mannanafnanefnd hefur bannað C í íslenska stafrófinu,“ tilkynnti hún og lagði svo á mig án frekari útskýringa.

Ég vildi ekki gefast upp og fór nokkrum dögum síðar á skrifstofu Hagstofunnar til að kanna möguleika á að hnekkja þessum úrskurði. Þar komst ég að því að Mannanafnanefndin var einráð, tók ekki við kvörtunum og ekki var hægt að kæra ákvörðunina neitt. Ég varð einfaldlega að kyngja þessum súru afskiptum hins opinbera af mínu einkalífi. En þetta var seigur biti og erfitt að kyngja. Ekki léttist brúnin mikið þegar ég sá í Mogganum, ári síðar, frétt um að Mannanafnanefnd hefði aftur leyft stafinn C og hef það fyrir víst að það hafi verið gert til að liðka fyrir manneskju sem tengdist einum nefndarmeðlimi fjölskylduböndum. Svona var nú stjórnsýslan oft hér fyrr á árum.

Ég hef alla ævi átt í stríði við íslensku mannanafnalögin. Fyrir mér eru þetta lög sem standa fyrir lítið og hafa lítið verndargildi nema kannski fyrst og fremst hagsmuni þess fámenna hóps sem starfar við að framfylgja þeim og eða er Dómfræðimenn á því sviði. Lögin setja blátt bann við nýjum ættarnöfnum – þó hefur fjöldi Íslendinga ættarnöfn í dag. Þau bönnuðu mér að taka upp nafnið Gnarr, svo ég breytti því einfaldlega þegar ég bjó í Bandaríkjunum, þar sem ég sótti um nafnabreytingu til að skipta úr Kristinsson í Gnarr. Ég fór fyrir dómara í Houston, Texas, sem samþykkti breytinguna. Þjóðskrá Íslands reyndi að malda í móinn en varð á endanum að kyngja þessu líkt og ég sjálfur forðum daga.

Ég hlakka mikið til að fá alvöru tækifæri til að vinna gegn þessum kjánalegu og óþörfu afskiptum opinberra stofnana af einkalífi okkar. Hvort fólk vill skrifa Ómar með einu R-i eða tveimur eða taka upp nýtt íslenskt ættarnafn ætti að vera frjálst. Með öllum þeim erlendu nöfnum og ættarnöfnum sem nú finnast á Íslandi sé ég ekkert því til fyrirstöðu að einhver gæti heitið Snæugla Herðubreið eða Náttfari Hafalda Hrísey. Það er ekki bara skemmtilegt heldur lífsnauðsynlegur hluti af því að viðhalda tungumáli okkar, sem á undir högg að sækja. Lögin ættu að tryggja almennt velsæmi í nafnavali, og nefndinni mætti hætta starfsemi. Ef fólk vildi nefna sig ömurlegum ónefnum þá mættu vera einhver takmörk. Ef fólk vildi nefna börn sín ónefnum þá er það barnaverndarmál og líklega raunveruleg ástæða til afskipta hins opinbera af einkahögum.

Stór ástæða fyrir banni við íslenskum ættarnöfnum er einokunarhugsun. Ættarnöfn eru vörumerki og margt valdafólk er hrætt við að frelsi í þessum málum leiði til gengisfellingu ættarnafna. Sjálfur er ég óhræddur við það – hlakka bara til. Og nú hef ég líka C-ið með mér!

Höfundur er sjálfstætt starfandi listamaður á Íslandi, fyrrverandi borgarstjóri Reykjavíkur og á lista Viðreisnar í komandi alþingiskosningum

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Eyjan
Fyrir 4 dögum

Birgir segir að Þórður Snær sé réttkjörinn: „Þetta á sér ekki fordæmi svo ég viti til“

Birgir segir að Þórður Snær sé réttkjörinn: „Þetta á sér ekki fordæmi svo ég viti til“
Eyjan
Fyrir 4 dögum

Hvað fór fram á fundi Trudeau og Trump? – Tvær ólíkar útgáfur á sveimi

Hvað fór fram á fundi Trudeau og Trump? – Tvær ólíkar útgáfur á sveimi
Eyjan
Fyrir 1 viku

Gunnar Smári ósáttur við 5% þröskuldinn – Sósíalistar hefðu annars fengið inn tvo þingmenn

Gunnar Smári ósáttur við 5% þröskuldinn – Sósíalistar hefðu annars fengið inn tvo þingmenn
Eyjan
Fyrir 1 viku

Ole Anton Bieltvedt skrifar: Það sem skiptir máli varðandi ESB-aðild

Ole Anton Bieltvedt skrifar: Það sem skiptir máli varðandi ESB-aðild
Eyjan
Fyrir 1 viku

„Ég tók það ráð að bregðast við með brosi og hafa bakið beint, sama á hverju hefur gengið“

„Ég tók það ráð að bregðast við með brosi og hafa bakið beint, sama á hverju hefur gengið“
Eyjan
Fyrir 1 viku

Finnbjörn ómyrkur í máli og varar landsmenn við – Til standi að einkavæða heilbrigðiskerfið og endurtaka kvótafléttuna

Finnbjörn ómyrkur í máli og varar landsmenn við – Til standi að einkavæða heilbrigðiskerfið og endurtaka kvótafléttuna