Orðið á götunni er að aldrei þessu vant ríki friður og sátt um uppstillingu á framboðslista Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík eftir að tillaga stjórnar varðar, fulltrúaráðs flokksins í Reykjavík um uppstillingu í stað prófkjörs var samþykkt með stuðningi Guðlaugs Þórs Þórðarsonar og Áslaugar Örnu Sigurbjörnsdóttur, en þau tvö hafa leitt lista í sitt hvoru Reykjavíkurkjördæminu og háðu m.a. mikinn slag í prófkjöri fyrir síðustu kosningar og hafði Guðlaugur þá betur.
Reykjavík hefur um langt skeið verið vandræðakjördæmi fyrir Sjálfstæðisflokkinn þar sem hart hefur verið barist innbyrðis og ýmis flokksbrot sjáanleg, eins og glögglega má merkja á þríklofnum borgarstjórnarflokki sjálfstæðismanna.
Orðið á götunni er að staðan sé ekki jafn glæsileg í öðrum kjördæmum. Í Kraganum, kjördæmi Bjarna Benediktssonar, er nú háður blóðugur slagur um annað og þriðja sætið á lista. Fyrir eru í þessum sætum Jón Gunnarsson og Bryndís Haraldsdóttir en Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, varaformaður flokksins, hefur lýst því yfir að hún vilji 2. sætið en Jón ætlar ekki að gefa það eftir. Svo hefur Rósa Guðbjartsdóttir lýst því yfir að hún vilji 3. sætið og væntanlega er staða Bryndísar veik.
Orðið á götunni er að ætlunin sé að bera fram uppstilltan lista til samþykktar á fundi kjördæmisráðs flokksins á sunnudaginn. Í þeim slag sem fram undan er megi hins vegar búast við því að ekki verði eining um þá uppstillingu. Því gæti farið svo að kjördæmisráðið verði að láta kjósa um hvert sæti á listanum á fundinum sjálfum og allt gæti gerst í slíkri kosningu.
Þórdís Kolbrún var áður oddviti Sjálfstæðisflokksins í Norðvesturkjördæmi. Hinn þingmaður flokksins í kjördæminu, Teitur Björn Einarsson, hefur lýst því yfir að hann vilji fyrsta sæti listans. Það hefur Ólafur Adolfsson, lyfsali á Akranesi og fyrrverandi knattspyrnukappi, einnig gert. Orðið á götunni er að Ólafur standi mun sterkar að vígi en Teitur Björn, hann njóti vinsælda, ekki síst á Akranesi, en Teitur Björn hafi ekki náð að tengja almennilega við flokksmenn.
Í Norðausturkjördæmi verður slagur um fyrsta sætið hjá flokknum. Þar er fyrir Njáll Trausti Friðbertsson frá Akureyri, sem nú er formaður fjárlaganefndar Alþingis. Jens Garðar Helgason frá Eskifirði, fyrrverandi formaður Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi, hefur lýst yfir framboði. Sjálfstæðismenn á Akureyri hafa löngum verið sterkir í kjördæminu en orðið á götunni er að Njáll Trausti hafi fengið marga í sínum heimabæ upp á móti sér og þyki tilþrifalítill þingmaður. Jens Garðar hefur löngum verið talin vonarstjarna innan flokksins og hann er talinn hafa stuðning Samherja, endar starfar hann í fyrirtæki sem er tengt Samherja. Kunnugir segja að Njáll Trausti gæti fallið lengra niður listann en í 2. sæti fari svo að hann lúti í gras fyrir Jens Garðari.
Í Suðurkjördæmi virðist ríkja eining um að Guðrún Hafsteinsdóttir vermi efsta sætið og Vilhjálmur Árnason verði í því næsta. Orðið á götunni er hins vegar að það stefni í mikinn slag um þriðja sætið. Þar er fyrir Ásmundur Friðriksson sem vill vera áfram en Birgir Þórarinsson, liðhlaupi úr Miðflokknum, vill líka komast í það sæti. Þá vill Ingveldur Anna Sigurðardóttir, sem síðast var í 5. sæti á lista flokksins, líka komast í þriðja sætið.
Orðið á götunni er að það stefni í mikil átök um sæti á lista Sjálfstæðisflokksins í öllum kjördæmum nema Reykjavíkurkjördæmunum tveimur og fullvíst sé að einhverjir muni ganga sárir af velli