fbpx
Laugardagur 27.apríl 2024
Eyjan

Ole Anton Bieltvedt skrifar: Rann Inga okkar Sæland til í hálku?

Eyjan
Mánudaginn 29. janúar 2024 09:58

Ole Anton Bieltvedt.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Við í Jarðarvinum og Inga Sæland höfum átt samleið í mörgu, sem lýtur að dýra- og náttúruvernd, enda höfum við litið á hana sem góðan vin og samherja.

Það hefur margkomið fram, að Inga virðist hafa stórt hjarta og mikla tilfinningu fyrir og samúð með dýrum. En, eins og við vitum, standa þau flest varnarlaus gagnvart herra sínum og drottnara, manninum. Ekki gott hlutskipti það. Gott að vera ekki dýr í mannheimi. Þetta skiljum við Inga.

En sumt er óútreiknanlegt, líka Inga Sæland. Er hún þó ekki ein um það. Þegar gott fólk og skynsamt, kemur með mál, sem mér finnst engin glóra í, hálfgerða tjöru, hugsa ég stundum, skyldi viðkomandi, hér Inga, hafa runnið til í hálku og slegist léttilega með höfuðið utan í svellbunka! Rétt svona skammtíma ruglingur.

Ég ætla hér að fjalla aðeins um óbifanlegan vilja Ingu til að koma með vantrauststillögu á Svandísi matvælaráðherra, fyrir að hafa frestað hvalveiðum sl. sumar til 1. september, verndað og varið dýrin frá misþyrmingum og limlestingum, megnið af veiðitímabilinu.

Fyrst, sl. sumar, virtist Inga ánægð með ákvörðun Svandísar, enda gekk hún út á dýravernd, vernd hinna stóru og friðsömu risa úthafanna, langreyðanna. Auðvitað var það verndin, málefnið, sem hér var á dagskrá, það hvernig staðið var að verndinni, hefði í hugum flestra með skýra hugsun og yfirvegaða, verið undiratriðið. Formið á málefninu.

Yfirleitt hefur málefnið höfuð þýðingu, en formið skíra undirþýðingu. M.ö.o. var friðun hvalanna stóra málið, en það, hvernig staðið var að henni, undirmál. Til að skynsamir menn, konur, geti snúið þessu við, gert formið að aðalatriði og sett málefnið á hakann, þarf viðkomandi fyrir mér að fá létt höfuðhögg á svellbunka, eða danglast út í ljósastaur í hríðarmuggu.

Þegar Svandís sýndi atvinnuveganefnd Alþingis eftirlitsmyndband MAST af hvalveiðum 2022, 23. júní 2023, tveimur dögum eftir að hún „bannaði“ hvalveiðar til 1. september, og sýnt var frá tveggja tíma löngu og heiftarlegu dauðastríði langreyðar, sem skjóta þurfti með ekki færri en fjórum sprengiskutlum, í tvo klukkutíma, þar til hörmungunum og kvalræðinu loks linnti, gekk Inga hágrátandi af fundi. Svo heiftarlega fór þetta dýraníð í hana.

Nokkru síðar snerist svo málið við, nú í vetur, held ég, eftir að veturinn hafði haldið innreið sína, og í nýlegu viðtali á Stöð 2 var Inga hin grimmasta og gaf til kynna, að hún myndi ekki una sér friðar, fyrr en hún hefði komið Svandísi frá vegna friðunar. Fréttamaður spurði Ingu þá í sakleysi sínu, hvort hún væri ekki með dýravernd og styddi friðun hvala. Þá kom þetta undarlega, og fyrir mér, glórulausa, svar, að þetta snerist ekki um dýravernd eða friðun hvala. Annars eins grautur. Var hér það sem Svandís taldi lögvarða vernd hvalanna virkilega ekki aðalmálið, og, það, hvernig staðið var að „banni“, hversu snemma eða seint „bannið“ kom, undiratriði.

Vert er hér, að líta aðeins á ástæður síðbúins „banns“ og ábyrgð Kristjáns sjálfs og starfsmannanna, sem hann hafði ráðið til starfa við hvalveiðar og verkun 2023.

Svandís tók við embætti matvælaráðherra í árslok 2021. Vorið 2022 gerði hún ráðstafanir til að fylgzt væri náið með langreyðaveiðum þá um sumarið, en starfsmenn Fiskistofu fylgdust með veiðum í hvalveiðibátunum, og eftirlitsdýralæknir MAST skoðaði alla hvalina, sem veiddust, 148 talsins, í landi.

Þetta voru fagleg og vísindaleg vinnubrögð, og hlýtur grunnskýrsla um veiðarnar – reyndar rosalega ljót skýrsla, þar sem fram kom, að lífið hafði verið murkað úr 41% dýranna, með fólskulegum og skelfilegum hætti – að hafa legið fyrir í 4. ársfjórðungi 2022.

Hvalur hf. lá hins vegar í því, að leita eftir frestun á endanlegum frágangi og útgáfu skýrslunnar þóttist þurfa tíma til að meta hana og gera athugasemdir, þó að efnið hafi legið fyrir og Hvals-mönnum hafi auðvitað verið full kunnugt um hvað gerðist í veiðunum 2022 og hvers væri að vænta frá því að veiðum lauk haustið 2022.

Kristjáni Loftssyni og öllum þeim, sem tengjast hvalveiðum, líka starfsmönnum, mátti því lengi hafa verið ljóst að ekkert öryggi væri til staðar um hvalveiðar 2023.

Á grundvelli gamalkunnrar þrákelkni, sjálfbirgingsháttar og frekju taldi Kristján Loftsson þó að hann myndi fá vilja sínum um áframhaldandi hvalveiðar framgengt, þrátt fyrir, að fyrir lægi, í ítarlegum og faglegum grunngögnum sem hann þekkti full vel, að þær orkuðu stórlega tvímælis.

Síðbúið bann var ekki gott, en annars vegar olli Kristján því sjálfur og hins vegar mátti honum löngu hafa verið ljóst að til þess kynni að koma.

Skyldi Inga ekki þennan bakgrunn og þá eigin ábyrgð sem Hvalur og starfsmenn báru og bera sjálfir á því tjóni, sem síðbúið „bann“ olli!?

Á opnum fundi Verkalýðsfélags Akraness, sem haldinn var 22. júní 2023, en undirritaður sá myndband frá fundinum, sagði Vilhjálmur Birgisson að VG hefði á landsþingi 2015 lýst yfir baráttu gegn hvalveiðum, þannig að „bannið“ hefði svo sem ekki komið á óvart. Sem sagt, þegar það hentaði kom bannið ekki á óvart, en þegar það hentaði ekki kom það algjörlega á óvart og olli gífurlegu tjóni.

Þessa sögu alla virðist Inga ekkert hafa hugleitt eða kynnt sér, heldur vildi hún, nú í janúar 2024, fella Svandísi hvað sem það kostaði fyrir „bannið“. M.ö.o. hún vildi refsa Svandísi og svifta hana embætti fyrir það að hafa verndað og hlíft minnst fjörutíu (41%) langreyðum frá herfilegu kvalræði, níði og limlestingum af verstu gerð, sl. sumar. Af því að „bannið“ kom einhverjum dögum eða vikum „of seint“ mátti nú pína þessi 40 dýr til dauða, murka úr þeim lífið, ekkert mál, hvað þá tár, lengur.

Þegar í ljós kom að Svandís blessunin hafði fengið alvarlegan sjúkdóm, áður en Inga gat fellt hana sýndi hún þó þá stórmennsku að falla frá vantrausti í bili. Flottur leikur og rausnarlegur það. Sú staðreynd, að vantraust á Svandísi kynni að hafa fellt ríkisstjórnina í miðri Grindavíkur krísu og í miðjum klíðum þýðingarmestu kjarasamninga langs tíma, þar sem ljóst var að ríkisstjórnin verði að koma að, skipti Ingu greinilega engu máli. Skítt með slíkt. Það, sem gilti var að refsa Svandísi fyrir að vernda dýrin, sem Inga þykist svo elska af öllu hjarta.

Önnur eins tjara.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Eyjan
Fyrir 4 dögum

Ólafur Þ. Harðarson: Afleiðing forsetaframboðs Katrínar er að Bjarni Ben er orðinn forsætisráðherra

Ólafur Þ. Harðarson: Afleiðing forsetaframboðs Katrínar er að Bjarni Ben er orðinn forsætisráðherra
Eyjan
Fyrir 4 dögum

Ole Anton Bieltvedt skrifar: Þegar þjóðin hafnaði stjórnmálamanni – Endurtekur sagan sig?

Ole Anton Bieltvedt skrifar: Þegar þjóðin hafnaði stjórnmálamanni – Endurtekur sagan sig?
Eyjan
Fyrir 5 dögum

Ólafur Þ. Harðarson: Þurfum mjög hæfan forseta – þarf alls ekki að vera stjórnmálamaður

Ólafur Þ. Harðarson: Þurfum mjög hæfan forseta – þarf alls ekki að vera stjórnmálamaður
Eyjan
Fyrir 5 dögum

Orðið á götunni: Verða Bessastaðir stökkpallur inn á Alþingi?

Orðið á götunni: Verða Bessastaðir stökkpallur inn á Alþingi?
Eyjan
Fyrir 1 viku

Orðið á götunni: Verður spútnikframbjóðandinn himnasending kosninganna?

Orðið á götunni: Verður spútnikframbjóðandinn himnasending kosninganna?
Eyjan
Fyrir 1 viku

Þrír milljarðar í súginn og þögnin ærandi – „Með öllu óskiljanlegt og ríkisstjórn Íslands til ævarandi skammar“

Þrír milljarðar í súginn og þögnin ærandi – „Með öllu óskiljanlegt og ríkisstjórn Íslands til ævarandi skammar“