Kosningateymi Höllu Hrundar Logadóttur hefur beðið kvikmyndagerðarmann afsökunar á mistökum sem urðu til þess að myndefni hans var notað í kynningarefni framboðsins án þess að tilskilið leyfi væri fyrir hendi. Um mannleg mistök sé að ræða þar sem gleymdist að haka í sérstakan reit fyrir leyfi í myndabanka. Þetta kemur fram í frétt Vísis þar sem jafnframt má finna kvittun sem staðfestir að framboðið hafi vissulega haft áskrift að téðum myndabanka.
Það var í gær sem mbl.is birti frétt um að myndefni kvikmyndagerðarmannsins Bjarka Jóhannsson hafi verið notað í kynningarmyndbandi Höllu sem var sýnd á RÚV. Bjarki vakti athygli á því að hann hafi ekki fengið greitt fyrir notkun myndefnisins og það væri notað í leyfisleysi. Á síðasta ári hafi Orkustofnun notað myndefnið með fullu leyfi og borgað fyrir, en það þýði ekki að Höllu sé frjálst að nota myndefnið eins og henni sýnist í persónulegu forsetaframboði sínu. Halla Hrund er orkumálastjóri og er sem stendur í launalausu leyfi.
Framboð Höllu svaraði fréttinni og vísaði til þess að myndefnið komi frá alþjóðlegum myndabanka og samkvæmt skilmálum myndabankans, Envato Elements, má nota myndefni þaðan í sjónvarpi.
Bjarki benti á að hann hafi engar kvittanir fengið frá kosningateymi Höllu og skoraði á framboðið að framvísa slíku, ef leyfi hafi sannanlega verið fyrir hendi. Nú hefur þessi kvittun verið lögð fram sem sýnir að framboðið greiddi í apríl fyrir áskrift að myndabankanum. Hins vegar er Bjarki beðinn afsökunar á því að fyrir mannleg mistök hafi klippara í heiminu láðst að haka í sérstakan reit fyrir leyfi. Þetta hefur nú verið leiðrétt og nýtt leyfi sótt. Bjarki var beðinn innilegrar afsökunar á mistökunum.