fbpx
Miðvikudagur 17.apríl 2024
Eyjan

Svarthöfði skrifar: Fylgið horfið og þá er horft til Bessastaða

Eyjan
Þriðjudaginn 2. apríl 2024 18:42

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Þeirrar hvimleiðu þróunar hefur orðið vart undanfarin ár að stjórnmálaflokkum hefur fjölgað mjög. Er nú svo komið að þeir flokkar sem náð hafa manni á Alþingi eru fleiri en tölu á festir og sumpart ekki slíkur munur á áhersluatriðum flokkanna að úrslitum ráði í hugum kjósenda. Þetta hefur einnig haft ýmsar hliðarverkanir fyrir fulltrúana sem kosnir hafa verið til setu fyrir sinn flokk en átta sig svo á að þeir eru í skökkum flokki og hafa þá leiðrétt það á kjörtímabilinu. Ýmist með að færa sig á milli flokka eða eru svo ráðvilltir að þeir kjósa að standa utan flokka, svo sem fremur nýleg dæmi eru um.

Forsætisráðherrann, Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri-grænna, virðist hafa fundið leið til að ráða bót á þessu. Hún hefur leynt og ljóst unnið að því að útrýma fylgi eigin flokks og hefur orðið vel ágengt í því þrotlausa starfi. En betur má ef duga skal og nú hefur Svarthöfði fyrir því mistraustar heimildir að hún ætli að reka smiðshöggið á verkið og bjóða sig fram til embættis forseta Íslands. Ekki veitir nú af enda ekki nema á sjötta tug manna í framboði, eins og stendur, og fjölgar dag frá degi.

Svarthöfða finnst forsætisráðherranum vera vorkunn. Jafnvel þótt hún hafi unnið samviskusamlega að því að láta flokk sinn hverfa, kemur að því að hún þurfi annað lifibrauð. Hvað gerir forsætisráðherra og formaður flokks í þeim sporum? Svarthöfði velkist ekki í vafa – forsetaframboð er lausnin – þótt möguleikarnir kunni að vera litlir eru þeir þó til staðar.

Svarthöfði rifjaði upp með sjálfum sér hvernig þessi útrýmingarsala á Vinstri-grænum hefur tekist. Þegar sitjandi stjórn tók við völdum í endann á árinu 2017 kom formaður VG með flokkinn að borðinu og  sautján prósent fylgi. Sjálfstæðisflokkurinn var stærri, en Framsókn minni.

Formaðurinn var þó í stöðu til að krefjast embættis forsætisráðherra – og það sem meira var: Til að Steingrímur J. ætti ekki sæti við ríkisstjórnarborðið var þess krafist að hann yrði dubbaður upp sem forseti þingsins. Það var einnig látið eftir Katrínu.

Þar lék þessi mikli stríðsmaður og pólitíski hrappur friðarins mann. Yfir honum var mikil heiðríkja, rétt eins og hann væri trúarleiðtogi en ekki forseti þingsins.

Mörgum Sjálfstæðismanninum sveið undan þessu. En hvað gerir maður ekki fyrir stólana, bíl og bílstjóra. Og góð starfskjör, ekki síst eftirlaun.

Eins og oft áður kom svo aftur að kosningum. Kosið var haustið 2021 og þá fór fylgi VG niður í tólf prósent og þingmönnum fækkaði niður í átta. Enn var Sjálfstæðisflokkurinn stærstur, Framsókn var nú númer tvö en VG minnst. Það gerði lítið til því Katrín fékk að vera áfram forsætisráðherra og sótti NATO-fundina af fórnfýsi og eljusemi – enda þá nokkur tími liðinn frá því hún gekk Kaflavíkurgöngur með Samtökum hernámsandstæðinga og hrópaði ÍSLAND ÚR NATO – HERINN BURT.

Herinn er enda farinn burt og meira að segja Hjálpræðisherinn er farinn úr miðborginni og Grái herinn á undir högg að sækja.

En pólitískur niðurgangur VG hætti ekki við 12 prósentin í síðustu kosningum. Gallup mælir fylgið mánaðarlega í risastórum skoðanakönnunum. Allt þetta kjörtímabil hefur leið VG legið niður á við. Var fyrr á þessu ári komið niður í rúm fimm prósent og þá átti flokkurinn fyrir þremur þingmönnum,Katrínu og tveimur öðrum.

Fyrir einum mánuði var fylgið komið niður fyrir fimm prósent og þá átti flokkur Katrínar ekki lengur fyrir einum einasta þingmanni. Svarthöfða sýnist að þarna hafi verið vel að verki staðið og hvað gerir maður þá? Maður fer vitanlega í forsetaframboð.

Væntanlega hefur VG-flokkur Katrínar aðeins rétt hlut sinn í marsmánuði enda hefur ríkissjóður verið galopinn og mokað hefur verið peningum í allar áttir. Auðvitað þakka ráðherrar sér það. Þó það nú væri. En nú er kominn nýr mánuður, ríkissjóður tómur og erfitt að kaupa sér fylgi með skattpeningum sem eru ekki til.

Þegar Katrín verður búin að yfirgefa VG til að þjóna persónulegum metnði sínum bíður Vinstri grænna ekkert nema endalokin. Hvað sem um hana má segja er hún alla vega alger yfirburðamanneskja í VG. Án hennar þar er flokkurinn á vonarvöl – pólitískt þrotabú.

Svarthöfði man ekki betur en sambærileg þróun hafi áður orðið varðandi forvera VG, Alþýðubandalagið (sem tók við af Sósíalistaflokknum og Kommúnistaflokknum) og lyppaðist niður eftir formannstíð Ólafs Ragnars Grímssonar – sem einmitt kom sér í annað starf og ætlaði aldrei að fást til að láta af því.

Spyrja má hvort sagan sé að endurtaka sig nú þegar sósíalistaleiðtoginn Katrín Jakobsdóttir er svo gott sem búin að kasta rekunum á flokk sinn sem hún hefur stýrt síðan Steingrímur J. forðaði sér á flótta vorið 2013, en þá var flokkurinn einnig í bráðri útrýmingarhættu.

Sagan hefur þann ávana að fara í hringi.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Eyjan
Fyrir 2 dögum

Jón Gnarr um framboð Katrínar – „Þetta stríðir gegn einhverju sem mér finnst eðlilegt og rétt“

Jón Gnarr um framboð Katrínar – „Þetta stríðir gegn einhverju sem mér finnst eðlilegt og rétt“
Eyjan
Fyrir 2 dögum

Ole Anton Bieltvedt skrifar: ESB er miklu meira en sameiginlegur markaður og evran

Ole Anton Bieltvedt skrifar: ESB er miklu meira en sameiginlegur markaður og evran
Eyjan
Fyrir 5 dögum

Fyrrverandi forstjóri Reita: Hús eru byggð of þétt og of mikill hraði í byggingarframkvæmdum

Fyrrverandi forstjóri Reita: Hús eru byggð of þétt og of mikill hraði í byggingarframkvæmdum
Eyjan
Fyrir 5 dögum

Skipta út bankaráði Landsbankans í heild sinni eftir TM-hneykslið

Skipta út bankaráði Landsbankans í heild sinni eftir TM-hneykslið
Eyjan
Fyrir 5 dögum

Sagan muni dæma þau og tíminn leiða í ljós hvað það muni kosta Reykvíkinga – „Þetta eru daprir tímar“

Sagan muni dæma þau og tíminn leiða í ljós hvað það muni kosta Reykvíkinga – „Þetta eru daprir tímar“
Eyjan
Fyrir 5 dögum

Guðbergur býður sig fram til forseta – Mun minnka við sig ef hann flytur til Bessastaða

Guðbergur býður sig fram til forseta – Mun minnka við sig ef hann flytur til Bessastaða