fbpx
Föstudagur 26.september 2025
EyjanFastir pennar

Svarthöfði skrifar: Hjartað slær með bankastjóranum og krónunni – fullveldið sjálft að veði

Svarthöfði
Mánudaginn 18. mars 2024 15:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Svarthöfði er áhugamaður mikill um heilbrigðan, öflugan og sjálfbæran fjármálageira hér á landinu bláa. Fjármálageirinn, já, bankar og tryggingafélög, sem skilar eigendum sínum sómasamlegum arði er brjóstvörn sjálfstæðis, gunnfáni fullvalda þjóðar.

Bankastjóri Arion banka var í hlaðvarpinu Chess after Dark á dögunum og fjallaði m.a. um íslensku krónuna, sem margir telja myllustein um háls heimila og atvinnulífs í landinu, og tína til hve vextir eru miklu hærri hér á landi en annars staðar, já, og vaxtamunurinn.

Svarthöfði hefur það fyrir satt að íslenski bankar séu einhverjir þeir arðbærustu í Evrópu og sem áhugamaður um öflugan fjármálageira hlýtur hann að fagna því. Bankastjórinn blés á úrtöluraddir sem vilja krónuna burt. Gefum henni smá tíma, sagði bankastjórinn og hugsaði vísast til milljarðanna 26 sem bankinn hagnaðist um á síðasta ári. Þegar sá hagnaður er lagður saman við hagnað Íslandsbanka (25 milljarðar) og Landsbankans (33 milljarðar) er stórbankahagnaður ársins litlir 84 milljarðar, og það eftir hinn illræmda bankaskatt.

Um Svarthöfða fer notaleg tilfinning þegar hann sér svona tölur. Þá veit hann að sjálfstæði og fullveldi þjóðarinnar er ekki ógnað. Sjálfu lýðræðinu borgið, enda er bankastarfsemi grunnatvinnugrein eyríkisins hér í norðurhöfum, alla vega hvað varðar arðsemi. Einungis sjávarútvegurinn skilar meiri arði til eigenda sinna en bankarnir. Sá er munurinn á útgerðinni og bönkunum að útgerðin sækir arðinn til útlanda en bankarnir eru algerlega sjálfbærir og sækja hverja krónu í greipar heimila og fyrirtækja Á Íslandi. Sýnir það raunar gríðarlega sterka stöðu kerfisins hér að það skuli hafa fært okkur svo sjálfbæra eilífðarvél sem malar gull dag og nótt án þess að þurfa að selja nokkurn skapaðan hlut til útlanda.

Svarthöfði las einhvers staðar að kostnaður þjóðarbúsins við að nota krónuna sé 300 milljarðar á ári. Gjöf en ekki gjald, segir hann, dugi það til þess að bankarnir geti skilað eigendum sínum sómasamlegum arði og áfram verið stolt þjóðarinnar.

Einhverjir kvarta undan því að krónan sé of dýru verði keypt og einn fylgifiska hennar sé að erlendir bankar vilji ekki koma til Íslands til að veita hinum íslensku samkeppni. Krónan ku líka koma í veg fyrir samkeppni á tryggingamarkað. Hvaða máli skiptir það? segir Svarthöfði og hefur fullan skilning á mikilvægi þess að halda hér í krónuna og passa upp á bankana okkar. Hjarta hans slær með bankastjóra Arion banka og öðrum bankastjórnendum hér á landi, sem skila gríðarlegum skatttekjum til ríkisins af launum sínum.

Hvað ef hingað koma erlendir bankar og bjóða lán á lægri vöxtum en þeir íslensku? Hvernig á þá að borga íslenskum bankastjórum og bankaráðsformönnum mannsæmandi laun? Hvernig eiga þá íslensku bankarnir að skila eigendum sínum sómasamlegum arði? Hvernig á þá að verja fullveldi Íslands? Hefur fólk ekkert hugsað út í það? Svarthöfði bara spyr.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

EyjanFastir pennar
Fyrir 2 vikum

Nína Richter skrifar: Ég er leiðinlegri en betur lesin

Nína Richter skrifar: Ég er leiðinlegri en betur lesin
EyjanFastir pennar
Fyrir 2 vikum

Þorsteinn Pálsson skrifar: Ólík viðbrögð við hatri

Þorsteinn Pálsson skrifar: Ólík viðbrögð við hatri
EyjanFastir pennar
Fyrir 3 vikum

Svarthöfði skrifar: Blásið til sóknar fyrir alla – ekki bara Range Rover, Benz og Porsche liðið heldur alla

Svarthöfði skrifar: Blásið til sóknar fyrir alla – ekki bara Range Rover, Benz og Porsche liðið heldur alla
EyjanFastir pennar
Fyrir 3 vikum

Nína Richter skrifar: Popúlismi er tæki og við erum fólk

Nína Richter skrifar: Popúlismi er tæki og við erum fólk
EyjanFastir pennar
Fyrir 3 vikum

Ágúst Borgþór skrifar: Að anda ofan í hálsmál sakborninga

Ágúst Borgþór skrifar: Að anda ofan í hálsmál sakborninga
EyjanFastir pennar
Fyrir 3 vikum

Óttar Guðmundsson skrifar: Velkominn herra skattstjóri!

Óttar Guðmundsson skrifar: Velkominn herra skattstjóri!
EyjanFastir pennar
Fyrir 4 vikum

Svarthöfði skrifar: Sjálfstæðisflokkurinn á aðeins einn kost í stöðunni

Svarthöfði skrifar: Sjálfstæðisflokkurinn á aðeins einn kost í stöðunni
EyjanFastir pennar
24.08.2025

Björn Jón skrifar: Sukkið vestur á Melum

Björn Jón skrifar: Sukkið vestur á Melum
EyjanFastir pennar
24.08.2025

Svarthöfði skrifar: Rétt mál, herre gud!

Svarthöfði skrifar: Rétt mál, herre gud!