„Ef svo skyldi þó fara í lýðræðisþjóðfélagi að lögfræði yrði ofaukið — hvað fæli það í sér? Er það ekki með nokkrum hætti innsta eðli hverrar fræðigreinar að verða óþörf? Hefur ekki lögfræðin unnið sitt verk, þegar tekist hefur að láta mönnum í té svo einfaldar aðferðir við lausn ágreiningsmála, að sérmenntaðra lögfræðinga sé ekki lengur þörf?“
Þannig mælti Sigurður Líndal, lagaprófessor og forseti Bókmenntafélagsins, í inngangi að riti Max Weber, Mennt og máttur, sem út kom í íslenskri þýðingu Helga Skúla Kjartanssonar árið 1978. Sigurður andaðist á dögunum, en hann má teljast einn helsti lögspekingur þjóðarinnar á síðari hluta tuttugustu aldar. Það voru forréttindi að kynnast Sigurði er hann leiðbeindi mér með lokaverkefni í lögfræði. Í löngum samtölum okkar heima í bókaherberginu í Bergstaðastræti lauk Sigurður upp fyrir mér sífellt nýjum heimum í lögfræði og sagnfræði, þeim tveimur fræðigreinum sem hann hafði numið og stundað á langri starfsævi.
Max Weber taldi stétt lögfræðinga hafa haft mikil áhrif á þróun stjórnmála á Vesturlöndum og að leiðir hennar og nútíma lýðræðis hefðu aldrei skilist. Sigurður benti á að í einræðisríkjum væri enginn grundvöllur fyrir slíkri stétt — kæmust slíkir stjórnarhættir á lyki veldi lögfræðinga af sjálfu sér. Þessu hefði hann kynnst í för til Þýska alþýðulýðveldisins á sínum tíma — þar var ekki ástunduð eiginleg lögfræði og leitaði hann því uppi gamla lögspekinga sem starfað höfðu á dögum keisarastjórnarinnar og Weimar-lýðveldisins og þekktu hina gömlu góðu hefð sem alræðisstjórnir nasista og kommúnista höfðu kollvarpað.
Framlag til heimsmenningarinnar
Sigurður Líndal stóð traustum fótum í hinni gamalgrónu evrópsku hefð húmanískra vísinda. Hann hafði gott lag á að setja flókin viðfangsefni fram með einföldum hætti og draga fram aðalatriði máls, gjarnan með sögulegu ívafi. Fyrstu aldir Íslandsbyggðar voru honum hugstæðar og sjálfur taldi hann landnámsmenn einkum hafa verið friðsamt fólk í leit að bættum lífskjörum. Að hans mati hefði landnámið markað tímamót því siglt var yfir Norður-Atlantshaf með ákveðið takmark í huga og ef til vill væru þetta fyrstu skipulögðu úthafssiglingarnar. Þá hefðu menn leitað í norður þegar germanskar þjóðir voru einkum á suðurleið sem væri merkilegt út af fyrir sig. Landnám Íslands hefði að auki verið áfangi á leið norrænna manna til nýja heimsins og íslenskt þjóðfélag geymdi líklega varanlegustu menningarminjar frá víkingaöld.
Í því sambandi hafa fornsögurnar helst verið nefndar en því má velta upp hvort þjóðfélagsskipan og lagakerfi þjóðveldistímans sé nokkuð síðra framlag til heimsmenningarinnar en bókmenntirnar. Sigurður benti gjarnan á að Grágás væri viðurhlutamesta lagasafn germanskra þjóða frá miðöldum og hún væri miklu bóklegri og fræðilegri en flest lög annarra germanskra þjóða frá sama tíma.
Að varðveita friðinn
Sigurður Líndal skýrði skilmerkilega fyrir okkur stúdentum hversu merkileg saga alþingis hins forna var. Sér í lagi væri athyglisvert hversu lengi alþingi var við lýði; það varð miðstöð þjóðfélags sem reis frá grunni og þar birtust með skýrum hætti hugmyndir germanskra manna um þjóðfélagsskipan. Þá væri meira vitað um alþingi en flest önnur miðaldaþing svo saga þess varpaði ljósi á þróun réttar og réttarhugmynda á miðöldum.
Til stofnunar alþingis hefði legið eiginlegur samfélagssáttmáli frjálsra manna og um leið byggt á lagahefð kynslóðanna. Við gerð nýmæla varð að nást samstaða — enda enginn bundinn af öðru en því sem hann samþykkti sjálfur. Lögin hefðu því ekki orðið tæki valdhafa og framfylgt óskorað — lagahugtak þessa tíma hefði þvert á móti falið í sér að vald var takmarkað. Lögin höfðu mótast af reynslu kynslóðanna og voru málamiðlun andstæðra afla. Sigurður taldi einsýnt af sögunni að lögin hefðu á fyrstu öldum Íslandsbyggðar veitt almenningi nokkra vörn gegn ágangi valdamanna og hentað þorra þjóðarinnar bærilega.
Ég hygg að við nútímamenn gætum lært sitthvað af þjóðfélagsskipan þessa tíma — ekki hvað síst um mikilvægi þess að leita samstöðu um niðurstöðu í veigamiklum þjóðfélagsmálum í stað þess að valdamenn ali sífellt á ágreiningi. Hér á landi hafa jafnan setið að völdum ríkisstjórnir með drjúgan þingmeirihluta og völd einstakra ráðherra mikil sem gjarnan fara sínu fram — jafnvel áður en jarðvegurinn er kannaður. Ráðherrar kynna niðurstöður sínar á sama tíma og þeir sem hagsmuna hafa að gæta koma af fjöllum. Nægir að nefna fjölda nýlegra mála, hvort heldur er varðar skyndilega frestun hvalveiða, sameiningu gerólíkra framhaldsskóla eða upptöku loftslagsskatta á kaupskipaútgerðir.
Þrátt fyrir að sú þjóðfélagsskipan sem komið var á nokkru eftir landnám hafi síðar riðlast í allsherjarófriði, sem jafnan er nefndur Sturlungaöld, þá benti Sigurður Líndal gjarnan á að hér á landi ríkti meiri friður en víðast hvar í álfunni á sama tíma. Þar lá til grundvallar merkilegt löggjafarstarf, þróuð stjórnskipun og vel skipulagt réttarkerfi; án þess þó að nokkurt væri framkvæmdarvaldið. Íslendingar eiga sér nefnilega sína eigin fornu laga- og stjórnskipunarhefð sem gjarnan mætti hyggja meira að.