fbpx
Þriðjudagur 30.apríl 2024
Eyjan

Segir stjórnina kolfallna og Katrínu rúna trausti – VG gæti þurrkast út í næstu kosningum

Ritstjórn Eyjunnar
Miðvikudaginn 29. nóvember 2023 14:48

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Útilokað er að hér verði mynduð tveggja flokka stjórn og talsverðar líkur á að flokkur forsætisráðherra þurrkist út af þingi eftir næstu þingkosningar. Samkvæmt nýjustu skoðanakönnun Maskínu, sem unnin var fyrir Vísi og tengda miðla, fengju ríkisstjórnarflokkarnir einungis 23 þingmenn ef kosið væri nú og er stjórnin því rúin trausti og kolfallin. Dagfari á Hringbraut fjallar um stöðuna í pólitíkinni og horfurnar í nýjasta pistli sínum.

Það er Ólafur Arnarson sem skrifar Dagfara og hann bendir á að allt þetta ár hefur fylgi ríkisstjórnarinnar verið á niðurleið. Stjórnin sé rúin trausti, ekki síst Katrín Jakobsdóttir sjálf, en flokkur hennar mælist með sex prósenta fylgi og fengi aðeins fjóra þingmenn kjörna ef úrslit kosninga yrðu í samræmi við könnun Maskínu sem var gerð nú í nóvember. „Vinstri græn fengju minnst fylgi þeirra flokka sem nú eiga fulltrúa á Alþingi. Hvergi á Vesturlöndum gæti það gerst að formaður í minnsta þingflokknum fengi að leiða ríkisstjórn með einungis 6 prósent á bak við sig. Það sýnir uppgjöf og geðleysi samstarfsflokka Vinstri grænna í ríkisstjórninni að þetta skuli vera látið viðgangast ennþá,“ skrifar Ólafur.

Hann rifjar upp að þegar ríkisstjórnarsamstarf Sjálfstæðisflokksins, Framsóknar og Vinstri grænna hófst í árslok 2017 mældist flokkur Katrínar Jakobsdóttur með 17 prósenta fylgi og hafði á bak við sig ellefu þingmenn. Í kosningunum 2021 fór fylgi flokksins niður í 12 prósent og þingmennirnir voru átta sem náðu kjöri. Nú sé fylgi VG komið niður í sex prósent og fjöldi þingmanna fjórir. Flokkurinn hafi glatað tveimur af hverjum þremur kjósendum sínum á þessu tímabili. „Það virðist því ætla að verða Vinstri grænum dýrkeypt að halda formanni sínum við völd í þessari vinstri stjórn. Þegar svo kjördagur rennur upp, hvort sem það verður á næsta eða þar næsta ári, er viðbúið að Vinstri græn fái engan mann kjörinn og þurrkist út af Alþingi Íslendinga. Það yrði þá marktækasti árangurinn af þessu misheppnaða stjórnarsamstarfi!

Samfylkingin er áfram langstærsti flokkurinn eins og verið hefur allt þetta ár samkvæmt könnuninni og fengi 26 prósenta fylgi og 18 menn kjörna. Sjálfstæðisflokkur vermir annað sætið með 17,9 prósenta fylgi og 12 menn kjörna. Tapaði fimm þingmönnum frá núverandi stöðu.

Framsóknarflokkurinn fengi 10,4 prósenta fylgi og sjö menn kjörna en hafði 17,3 prósent í kosningunum 2021. Viðreisn mælist með 10,3 prósent sem gæfi flokknum sex þingsæti í stað fimm í síðustu kosningum. Píratar fengju einnig sex þingmenn kjörna, Miðflokkurinn næði fimm þingmönnum, Flokkur fólksins fjórum, Vinstri græn reka svo lestina af þeim sem nú eiga menn á þingi og fengju fjóra menn kjörna í stað átta þingmanna í kosningunum. Helmingur fylgis og þingmanna Vinstri grænna horfinn frá flokknum það sem af er kjörtímabilinu. Sósíalistaflokkurinn fengi 4,4 prósent sem gæti dugað fyrir einum kjördæmakjörnum þingmanni.

Samkvæmt þessu fengju núverandi stjórnarflokkar einungis 23 menn kjörna og stjórnin þannig kolfallin. Ekki er að sjá að náttúruhamfarirnar við Grindavík hafi aukið fylgi ríkisstjórnarflokkanna eins og oft gerist við slíkar aðstæður þegar ráðherrar eiga greiðan aðgang að fjölmiðlum til að miðla fjármunum úr ríkissjóði til kjósenda og þiggja gjarnan vinsældir að launum. Það virðist ekki hafa gerst núna. Ekki væri unnt að mynda tveggja flokka stjórn Samfylkingar og Sjálfstæðisflokksins sem fengju samtals 30 menn kjörna.“

Ólafur bendir á að „Reykjavíkurmynstur“ þeirra flokka sem mynda meirihluta í borgarstjórn Reykjavíkur (Samfylkingar, Framsóknar, Viðreisnar og Pírata) væri einn kostur sem kæmi til greina við ríkisstjórnarmyndun. „Ef til þess kæmi mætti vænta þess að Kristrún Frostadóttir myndi leiða slíka miðjuríkisstjórn í samstarfi við Framsóknarflokkinn, Viðreisn og Pírata með stuðningi 37 þingmanna ef niðurstaða kosninga yrði í samræmi við skoðanakönnun Maskínu frá í nóvember.“

Dagfara í heild má lesa hér.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

EyjanFastir pennar
Fyrir 2 dögum

Björn Jón skrifar: Forsetaefni íhaldsmanna?

Björn Jón skrifar: Forsetaefni íhaldsmanna?
Eyjan
Fyrir 2 dögum

Snorri Jakobsson: Seðlabankinn eins og hundur sem eltir skottið á sér

Snorri Jakobsson: Seðlabankinn eins og hundur sem eltir skottið á sér
EyjanFastir pennar
Fyrir 3 dögum

Óttar Guðmundsson skrifar: Jarðarfararblús

Óttar Guðmundsson skrifar: Jarðarfararblús
Eyjan
Fyrir 4 dögum

Halla Hrund komin með forystu í nýrri skoðanakönnun – Skýtur Katrínu og Baldri ref fyrir rass

Halla Hrund komin með forystu í nýrri skoðanakönnun – Skýtur Katrínu og Baldri ref fyrir rass
Eyjan
Fyrir 1 viku

Ólafur Þ. Harðarson: Afleiðing forsetaframboðs Katrínar er að Bjarni Ben er orðinn forsætisráðherra

Ólafur Þ. Harðarson: Afleiðing forsetaframboðs Katrínar er að Bjarni Ben er orðinn forsætisráðherra
Eyjan
Fyrir 1 viku

Ole Anton Bieltvedt skrifar: Þegar þjóðin hafnaði stjórnmálamanni – Endurtekur sagan sig?

Ole Anton Bieltvedt skrifar: Þegar þjóðin hafnaði stjórnmálamanni – Endurtekur sagan sig?