Stefán Pálsson, sagnfræðingur og varaborgarfulltrúi VG, er lítt hrifnn af háðsádeilugrein sem Atli Bollason birti á Vísir.is fyrir skömmu. Atli sakar Katrínu Jakobsdóttur forstætisráðherra um þjónkun við stórfyrirtæki, bruðl í ráðuneytakostnaði og aðgerðaleysi í húsnæðismálum:
„Takk fyrir að hafa staðið vörð um fyrirtækin okkar í heimsfaraldrinum. Fyrir að hafa styrkt, um hundruð milljóna, aðila í ferðaþjónustu á borð við Icelandair og Bláa lónið sem höfðu sýnt ráðdeild og ekki greitt eigendum sínum nema um ellefu milljarða í arð árin áður en kófið skall á.“
„Takk fyrir að hafa búið svo um hnútana að fiskeldisfyrirtækin þurfi ekkert að borga fyrir afnot sín af landi og sjó, ekki nema í allra mesta lagi til að standa undir kostnaði ríkisins af eftirliti. Takk fyrir að hlusta ekki á náttúruverndarsamtök og þeirra svörtu spár um áhrif eldisins á umhverfið og lífríkið undanfarin ár. Það var auðvitað miklu betra að bíða þar til þær raungerðust.“
„Takk fyrir að hafa fjölgað ráðuneytunum. Breytingarnar munu kosta um tvo milljarða á þessu kjörtímabili en það er vissulegra skemmtilegra á fundum ef fleiri eiga sæti við ríkisstjórnarborðið.“
„Takk fyrir aðgerðaleysið í húsnæðismálum. Það muna koma sér vel í ljósi atburðanna í Grindavík. Takk fyrir að setja ekki á leiguþak. Takk fyrir að undirrita húsnæðissáttmála en karpa svo við borgina um hvar megi og eigi að byggja svo það komist örugglega ekkert af stað. Takk fyrir að hlífa öðrum sveitarfélögum við uppbyggingu.“
„Takk fyrir að halda fjármagnstekjuskattinum lágum en virðisaukaskattinum háum. Takk fyrir lágar bætur en há gjöld í heilbrigðis- og menntakerfinu. Takk fyrir að leyfa efstu tíundinni að auðgast æ meir ár frá ári meðan venjulegt fólk neyðist til að spara við sig í mat og mörg okkar horfa upp á vanskil í gölnu vaxtaumhverfi.“
„Takk fyrir að standa við bakið á Bjarna í bankasölumálinu. Takk fyrir að sýna okkur að vanhæfir ráðherrar þurfa bara að skipta um sæti við sessunaut sinn til að teljast hafa axlað ábyrgð. Setur mjög gott fordæmi.“
Stefán segir þessi skrif Atla vera uppfull af rangfærslum og setji hann raunar með þeim Norðurlandamet án atrennu í rangfærslum. Hann gerir athugasemdir við nær allar ávirðingar Atla en segist efast um að þær hafi mikil áhrif á heimsmynd hans. Eru því ábendingar hans fremur ætlaðar skarpari lesendum Vísis, að sögn Stefáns. Leiðréttingar Stefáns á meintum rangfærslum Atla eru eftirfarandi:
„Íslensk stjórnvöld tryggðu það að viðsnúningur eftir heimsfaraldur sem lamaði íslenskt atvinnulíf með tilheyrandi afleiðingum fyrir fólkið í landinu varð snarpur. Ísland er eitt af örfáum löndum þar sem kaupmáttur almennings var varðveittur í gegnum heimsfaraldur.
Íslensk stjórnvöld hafa ítrekað kallað eftir vopnahléi á Gaza, hvatt til þess að framganga ísraelskra stjórnvalda sé rannsökuð og veitt fé til þeirra rannsókna. Ísland er í hópi stærstu stuðningsaðila mannúðaraðstoðar á Gaza.
Það var bæjarstjórnin í Reykjanesbæ sem seldi hlut sinn í HS Orku – en það breytir því ekki að fyrirtækið sinnir almannaþjónustuhlutverki fyrir 30 þúsund manns. Líklega myndi greinarhöfundur óska þess helst að fyrirtækið færi undir hraun svo að hægt sé að virkja fyrir rafmagni og finna heitt vatn annars staðar með tilheyrandi samfélagslegum kostnaði.
Valdheimildir lögreglu hafa ekki verið auknar undanfarin ár.
Lögum og reglum um skatta hefur verið breytt á undanförnum árum til að tryggja réttlátar skattgreiðslur stóriðjunnar. Fiskeldisgjöld munu hækka nú um áramótin og búið að kynna miklar breytingar á eftirliti með fiskeldi. Auðlindin okkar er grundvöllur stefnumótunar um fiskveiðistjórnunarkerfið þar sem margir hafa tekið þátt – kannski ekki greinarhöfundur en margir aðrir.
Kolefnishlutleysi var lögfest á Alþingi 2021. Ísland er eitt af fáum ríkjum sem hefur gert það. Sama ár voru sett lög um hringrásarhagkerfi sem gerir það að verkum að núna erum við loksins farin að endurvinna lífræna úrganginn okkar alls staðar en ekki bara í sumum sveitarfélögum. Ísland er í öðru sæti í heimi þegar kemur rafbílavæðingu. Og vissulega finnst mér gott að það hafi dregið úr einnota plasti en greinilega sakna einhverjir plastpokanna sinna svo mikið að þeir taka ekki eftir neinu öðru sem gert er.
Ástæðan fyrir því að meirihluti Alþingis ákvað að skipta fæðingarorlofi jafnt milli beggja foreldra og hafa sex vikur framseljanlegar var að meirihluti Alþingis styður jafnréttismarkmið fæðingarorlofskerfisins og vill tryggja jafna þátttöku foreldra í uppeldi barna sinna og á vinnumarkaði. Og þar er forsætisráðherra vissulega fremst í flokki enda umhugað um jafnrétti kynjanna.
Núverandi forsætisráðherra hefur lagt raunverulega vinnu í að skapa sátt um breytingar á stjórnarskrá og lagt fram framsæknar breytingatillögur í þá veru ólíkt flestum öðrum þingmönnum.
Upphafi hvalveiðitímabils var frestað enda ekki hægt að bregðast ekki við áliti fagráðs um dýravelferð.
Fjárframlög til heilbrigðiskerfisins hafa verið stóraukin í tíð þessarar ríkisstjórnar. Meðal annars hefur heilsugæslan verið stórefld, dregið úr gjöldum á sjúklinga í heilbrigðiskerfinu og loksins ráðist í byggingu nýs Landspítala sem engin ríkisstjórn hafði treyst sér í fram að því.
Um þriðjungur nýrra íbúða hefur verið byggður með framlögum ríkisins á undanförnum árum sem er eðlisbreyting á íslenskum húsnæðismarki og til marks um stórauknar félagslegar áherslur í kerfinu. Það hefur verið mörkuð stefna í húsnæðismálum í fyrsta sinn en því miður hefur verið skortur á byggingarhæfum lóðum sem er umhugsunarefni fyrir sveitarfélögin.
Fjármagnstekjuskattur hefur verið hækkaður og gjöld í heilbrigðiskerfinu lækkuð með markvissum skrefum allt frá því að núverandi ríkisstjórn tók við.
Á Íslandi er tekið á móti hlutfallslega fleiri umsækjendum um alþjóðlega vernd en annars staðar á Norðurlöndum.“