fbpx
Laugardagur 20.apríl 2024
EyjanFastir pennar

Björn Jón skrifar: Út og suður í ársbyrjun

Eyjan
Sunnudaginn 8. janúar 2023 15:31

Þekktasta verk absúrdleikhússins er án efa Beðið eftir Godot eða En attendant Godot eftir Samuel Beckett.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Lífið er leiksvið en stundum líður mér eins og ég sé staddur í leikriti undir sterkum áhrifum absúrdisma. Almenningur varð vitni að hnignandi málkennd þingmanna nýverið þegar fiskimaður varð að orðskrípinu „fiskari“ en í lögum um áhafnir skipa segir nú að „fiskari“ sé hver sá eða sú sem starfar eða er ráðinn eða ráðin til vinnu á fiskiskipi, þ.m.t. þau sem eru ráðin upp á aflahlut. Hafnsögumenn, löggæsluaðilar, aðrir aðilar í fastri þjónustu hins opinbera, starfsmenn í landi sem sinna störfum um borð í fiskiskipum eða eftirlitsmenn með fiskveiðum teljast ekki vera fiskarar.“

Hafnsögumenn fá þó alla vega að vera menn enn um sinn en rökrétt framhald af þessu er að skipta út orðinu þingmaður fyrir „þingara“ og að slökkviliðsmenn verði „slökkvarar“. Ég ræddi þessi mál við roskna kvenréttindakonu á dögunum sem gat ekki orða bundist; hér á árum áður hefði verið barist fyrir því að konur væru líka menn — sem þær sannarlega væru — en nú um stundir fyndist æ fleirum sem kona gæti bara alls ekki verið maður.

Annar þáttur af leikriti fáránleikans fjallaði um stjórnmálamann sem taldi það geta orðið lausn við ófærð á Keflavíkurveginum að leggja járnbrautarlest milli Reykjavíkur og Leifsstöðvar. Viðkomandi stjórnmálamanni var bent á að fannfergi legðist líka á lestarteina. Annars er með hreinum ólíkindum að málsmetandi fólk skuli halda því fram að járnbraut út í flugstöð sé yfir höfuð góð hugmynd. Konráð S. Guðjónsson, efnahagsráðgjafi Samtaka atvinnulífsins, greindi frá því á Twitter að mjög gróflega áætlaður kostnaður við járnbraut til Leifsstöðvar næmi 150 milljörðum króna. Yrði verkefnið fjármagnað á lægstu mögulegu vöxtum ríkisins (6,12%) þyrfti að selja 1,8 milljónir miða á 5000 kr. bara til að greiða vextina. Þá ætti eftir að kaupa vagnana, greiða laun starfsfólks, sinna viðhaldi og borga annan rekstrarkostnað (þar með talið snjómokstur af teinunum).

Vinstri sveifla?

Í ársbyrjun er við hæfi að meta stöðuna í stjórnmálunum heilt yfir. Til þess gafst tækifæri í vikunni sem leið þegar birt var ný könnun Gallups á fylgi flokkanna ef kosið yrði til Alþingis nú. Ríkisstjórnarflokkarnir fengju þá aðeins 30 menn kjörna, en þeir eru nú með öruggan meirihluta, 37 menn (hinir málfræðilega „kynhlutlausu“ myndu kannski segja „manneskjur“).

Fylgi Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar mælist nokkurn veginn jafnt í könnuninni, flokkarnir hlytu 23,8 og 23,6% atkvæða ef kosið yrði nú. Fara þarf allt aftur til ársloka 2010 til að finna könnun sem sýnir viðlíka fylgi Samfylkingar. Nýlegar kannanir Prósents og Maskínu eru á sömu lund og sýna flokkinn með yfir fimmtungsfylgi. Nýkjörinn formaður flokksins ber með sér ferskan andblæ og vekur vonir sósíaldemókrata um endurreisn. Líklega eru áherslur Samfylkingar þó enn of langt til vinstri við stefnu systurflokkanna í nágrannalöndunum til að flokkurinn eigi möguleika á að verða einhvers konar þjóðarflokkur, líkt og þeir flokkar sannarlega eru.

Hin tíðindin af vinstrivængnum er háðuleg útreið Vinstri grænna sem hefur aldrei mælst með minna fylgi í könnunum Gallups. Aðeins 6,8% kváðust myndu greiða flokknum atkvæði sitt yrði kosið nú. Þá heldur fylgi Framsóknarflokks áfram að dala. Flokkurinn hlaut 17,3% í kosningunum en mælist nú með 12,1%. Fylgi Pírata mælist 11,2%, Sósíalista 4,6, Viðreisnar 6,9, Flokks fólksins 6,2 og Miðflokksins 4,6%.

Í pistli sínum í Fréttablaðinu í liðinni viku lagði Þorsteinn Pálsson út af áðurnefndum þremur skoðanakönnunum sem birtar hefðu verið nú um áramótin og sýndu allar „mjög eindregna sveiflu til vinstri“. Hugtökin hægri og vinstri eru að mínu viti afar takmörkuð til að lýsa stjórnmálunum af nokkru gagni en Þorsteinn kýs að flokka Framsóknarflokk, Viðreisn, Sjálfstæðisflokk og Miðflokk hægra megin við miðju og Flokk fólksins, Sósíalistaflokk, Pírata, Samfylkingu og Vinstri græna (eða „græn“) vinstra megin. Lengi mætti deila um þessa flokkun en samkvæmt henni eru flokkarnir „vinstra megin“ með 52 til 55% fylgi nú samanborið við 44% í alþingiskosningunum 2021. Það verði ekki kallað annað en afgerandi sveifla.

Reykjavík skipt í fimm kjördæmi?

Ólafur Þ. Harðarson, prófessor í stjórnmálafræði, gerði að umtalsefni í fréttum ríkissjónvarpsins á dögunum að samkvæmt áðurnefndri könnun Gallups ættu ríkisstjórnarflokkarnir í reynd að fá 29 menn — ekki 30. Þetta kæmi til vegna misvægis atkvæða og þarna væri einum manni „stolið“ frá Viðreisn. Ólafur var harðorður um þetta atriði: „Þetta hefur gerst í fernum síðustu kosningum að það er ekki hægt að jafna milli flokka og það undirtrikar enn frekar að það er algjör nauðsyn á Alþingi að breyta kosningalögunum ekki síðar en strax.“

Sú umræða sem reis í kjölfarið bendir til þess að ólíklega náist samstaða um breytingar á kosningakerfinu í bráð. Ummæli Birgis Ármannssonar, forseta Alþingis, vöktu talsverða athygli en hann telur skynsamlegt að fjölga kjördæmum, til dæmis þannig að það yrðu níu fimm manna kjördæmi, tólf fjögurra manna kjördæmi eða fimmtán þriggja manna kjördæmi. Á móti yrði jöfnunarsætum fjölgað og þau yrðu þá fimmtán til átján.

Yrði síðastnefnda leiðin farin — að fjölga kjördæmum í fimmtán þriggja manna kjördæmi — yrðu kjördæmakjörnir þingmenn 45 talsins. Á kjörskrá í síðustu alþingiskosningum var 254.681 (maður) svo kjósendur í hverju þeirra kjördæma yrðu tæplega 17 þúsund. Á kjörskrá í báðum Reykjavíkurkjördæmum voru samtals 91 þúsund í alþingiskosningunum 2021. Samkvæmt þessu yrði því að skipta Reykjavík upp í að minnsta kosti fimm kjördæmi. Í ljósi byggðaþróunar síðustu áratuga er næsta víst að breyta yrði mjög ört skiptingu kjördæma ef nokkurt jafnræði ætti að viðhaldast í þessum efnum. Birgir bendir réttilega á þann kost kjördæma að viðhalda tengslum kjósenda við þingmenn sína en líklega eru vankantarnir á kerfi svo margra kjördæma of miklir á móti. Kerfi af þessu tagi myndi jafnvel líkjast meira gamla einmennings- og tvímenningskjördæmakerfinu sem var við lýði fram til ársins 1959.

Misvægi mannréttinda

Fyrir Alþingi liggur frumvarp til laga um breytingu á kosningalögum. Fyrsti flutningsmaður er Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, formaður Viðreisnar. Samkvæmt frumvarpinu er gert ráð fyrir því að landskjörstjórn ákvarði eftir hverjar alþingiskosningar hvernig þingsætum skuli skipt milli kjördæma, svo og innbyrðis skiptingu þeirra í kjördæmis- og jöfnunarsæti. Tilgangur frumvarpsins er annars vegar að jafna vægi atkvæða milli kjördæma eins mikið og stjórnarskrá heimilar og hins vegar að tryggja eins og unnt er að samræmi sé með þingmannatölu og atkvæðafylgi hvers þingflokks. Í greinargerð með frumvarpinu segir meðal annars að jafnræði til að hafa pólitísk áhrif með atkvæðirétti sínum sé meðal grundvallarþátta í lýðræðisþjóðfélagi.

Á öllum hinum Norðurlöndunum er líka viðhöfð hlutfallskosning í kjördæmum við kjör þingmanna en hvergi er þó gengið jafn langt í misvægi milli kjördæma og flokka og hér á landi. En þó svo að hin Norðurlöndin notist við kjördæmi til þingkosninga þá er rétt að horfa til þess að Danir eru tæplega sextán sinnum fleiri en við, Norðmenn meira en fjórtán sinnum fleiri og Svíar næstum 28 sinnum fleiri. Við erum örríki í samanburði við þær þjóðir sem eru okkur skyldastar. Og á tímum stóraukinnar alþjóðlegrar samvinnu skiptir æ meira máli að heildarhagsmunir gangi framar sérhagsmunum. Liður í því að ná slíku fram eru að ganga skrefið til fulls og gera landið allt að einu kjördæmi. Allir kysu þá þingmenn af sama landslista. Þetta kynni að draga úr skaðlegum flokkadráttum og auka samheldni landsmanna.

Samhliða væri brýnt að fækka þingmönnum, kannski niður í fjörutíu — já eða bara 36 eins og þeir voru frá setningu stjórnarskrárinnar 1874. Nú er svo komið að stór hluti þingmanna er óþekktur landsmönnum og við blasir að atgervisflótti er úr stjórnmálunum. Hér væri ein leið til að fá hæfara fólk til þingsetu — að gera þingsetu eftirsóknarverðari. Reglan á að vera einn maður — eitt atkvæði og það markmið næst ekki fram að fullu nema gera landið að einu kjördæmi.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Hvalur sprakk í tætlur

Nýlegt

Hvalur sprakk í tætlur
EyjanFastir pennar
Fyrir 2 vikum

Sigmundur Ernir skrifar: Samfélag fjármagnseigenda

Sigmundur Ernir skrifar: Samfélag fjármagnseigenda
EyjanFastir pennar
Fyrir 3 vikum

Óttar Guðmundsson skrifar: Kakalaskáli

Óttar Guðmundsson skrifar: Kakalaskáli
EyjanFastir pennar
Fyrir 4 vikum

Óttar Guðmundsson skrifar: Töfrar amfetamíns

Óttar Guðmundsson skrifar: Töfrar amfetamíns
EyjanFastir pennar
Fyrir 4 vikum

Steinunn Ólína skrifar: Að spara sig í hel

Steinunn Ólína skrifar: Að spara sig í hel
EyjanFastir pennar
14.03.2024

Svarthöfði skrifar: Grunlaust íhaldið treystir samstöðu Samfylkingar og Framsóknar

Svarthöfði skrifar: Grunlaust íhaldið treystir samstöðu Samfylkingar og Framsóknar
EyjanFastir pennar
14.03.2024

Þorsteinn Pálsson skrifar: VG nýtti síðasta sóknarfærið

Þorsteinn Pálsson skrifar: VG nýtti síðasta sóknarfærið
EyjanFastir pennar
07.03.2024

Svarthöfði skrifar: Minningargrein um lifandi mann

Svarthöfði skrifar: Minningargrein um lifandi mann
EyjanFastir pennar
07.03.2024

Þorsteinn Pálsson skrifar: Líkur á eins máls kosningum

Þorsteinn Pálsson skrifar: Líkur á eins máls kosningum