fbpx
Laugardagur 14.desember 2024
Eyjan

Svartsýn spá í raforkumálum – Orkuskipti munu nást um miðja öldina og raforkuframboð verður breytilegt

Jakob Snævar Ólafsson
Fimmtudaginn 24. ágúst 2023 11:36

Myndin tengist fréttinni ekki beint.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Landsnet hefur sent frá sér spá um þróun eftirspurnar og framboðs á raforku hér á landi árin 2023-2060. Meðal þess sem fram kemur í spánni er að Landsnet telur að stefna íslenskra stjórnvalda um full orkuskipti muni við núverandi aðstæður nást í fyrsta lagi árið 2050, að því gefnu að takmarkanir verði ekki á orkuframboði. Í spánni kemur einnig fram að núgildandi áform um nýjar vantsafls- og jarðvarmavirkjanir dugi ekki ein og sér fyrir orkuskiptum.

Nauðsynlegt verði að nota til viðbótar nýja breytilega orkugjafa svo sem vindorkuver og sólarorkuver. Slíkum orkugjöfum fylgi óhjákvæmilega miklar sveiflur í orkuframleiðslu vegna breytileika vindstyrks og birtuskilyrða. Landsnet spáir því þess vegna að Íslendingar muni þurfa að venjast því að raforkuframboð verði breytilegt hér á landi.

Þessi spá Landsnets rímar nokkuð vel við það sem fram kom hjá Herði Arnarsyni, forstjóra Landsvirkjunar, þegar hann var gestur, fyrir skömmu í hlaðvarpinu Markaðurinn á Eyjunni. Hörður sagði í þættinum að orkuskortur væri yfirvofandi hér á landi vegna andstöðu við nýjar virkjanir.

Í spánni segir að vatnsorkuver muni gegna mikilvægu hlutverki í að tryggja jafnvægi milli notkunar og orkuvinnslu. Þau muni þó ekki duga til að mæta sveiflum og þess vegna muni notendur þurfa að aðlaga notkun að breytilegu framboði en á móti komi ný tækni við orkugeymslu og orkustýringu. Þess vegna sé mikilvægt að til staðar sé virkur og gagnsær viðskiptavettvangur fyrir orku.

Orkuþörf muni tvöfaldast ekki síst vegna orkuskipta

Landsnet spáir því að strax á næstu tíu árum muni fara að bera á orkuskorti sem muni, með aukinni eftirspurn eftir orku, fara vaxandi eftir því sem á tímabilið sem spáin nær yfir líður. Þróun orkuskorts muni fara nokkuð eftir framgangi orkuskipta. Í spánni segir að skortur á umfram raforkuframboði muni ýta undir þessa þróun því án þess séu minni möguleikar á að bregðast við mimunandi aðstæðum á raforkumarkaði. Landsnet segir eðlilegt að hafa umfram framboð á raforkumarkaði til að stuðla að orkuöryggi.

Landsnet segir orkuskipti hér á landi ekki síst snúast um nýja orkugjafa í samgöngum sem hér á landi eru í dag að mestu leyti knúnar jarðefnaeldsneyti. Ódýrasta og hagkvæmasta lausnin í þeim efnum sé notkun svokallaðs rafeldsneytis. Við notkun á því þurfi ekki að gera miklar breytingar á þeim samgöngutækjum sem þegar séu til staðar sem komi sér ekki síst vel í stórum og dýrum tækjum eins og flugvélum og skipum. Sú stefna að skipta út öllu jarðefnaeldsneyti fyrir innlenda endurnýjanlega orkugjafa muni kalla á aukna raforkuframleiðslu. Hversu mikil þörfin verði fari þó eftir hraða orkuskiptanna og tækniþróun rafeldsneytis.

Samkvæmt spánni munu orkuskipti í samgöngum nást árið 2040 fyrir utan millilandaflug og skipasiglingar sem muni klára orkuskiptin árið 2050. Áætlað sé að orkuskipti í þessum flokkum nemi 73 prósent af  heildar orkuskiptum.

Samkvæmt spánni mun raforkunotkun að loknum orkuskiptum árið 2050 hafa tvöfaldast frá árinu 2023 og á það við um bæði heimili og minni fyrirtæki og stórnotendur. Því er spáð að heildar raforkuþörf árið 2050, hér á landi, verði 42,4 terrawattstundir og því aukast um 21,8 terrawattstundir frá því sem nú er. Fram til ársins 2030 muni raforkuþörf hér á landi aukast um tæplega 2 terrawattstundir.

Landsnet segir að rúm 70 prósent af þessari miklu aukningu á orkuþörf fram til ársins 2050 skýrist af orkuskiptum og þá ekki síst þegar kemur að því að skipta út öllu jarðefnaeldsneyti í samgöngum. Hvernig sú þróun nákvæmlega verður muni þó ráðast talvert af tækniþróun og ef t.d. fleiri farartæki geti notað rafhlöður eða vetni en gert er ráð fyrir í spánni muni það létta á orkuþörfinni.

Þörf sögð á aukinni orkuframleiðslu

Vegna þessarar fyrirsjáanlegu aukningar á eftirspurn eftir orku segir Landsnet að til staðar þurfi að vera samsvarandi
orkuvinnsla. Ekki sé til staðar umfram framleiðslugeta í kerfinu þannig að aukinni eftirspurn þurfi að mestu leyti að mæta með nýrri orkuvinnslu. Áform um nýjar vatnsafls- og jarðvarmavirkjanir, sem nú séu í nýtingarflokki rammaáætlunar, ásamt vexti á núverandi virkjunum dugi ekki fyrir orkuskiptum. Til viðbótar við þau áform verði nauðsynlegt að nota nýja endurnýjanlega orkugjafa á borð við vindorku og til lengri tíma sólarorku.

Í spá Landsnets eru teknar með í reikninginn fyrirliggjandi áætlanir um orkuframleiðslu úr jarðvarma- og vantsaflsvirkjunum, auk vindorkuvera.

Í ljósi þessara áætlana á Landsnet von á að í kringum árið 2040 muni fara að skilja mjög á milli eftirspurnar eftir raforku og framboðs raforku. Það ár muni framleiðsla raforku ná hámarki og verða eftir það tæpar 29 terrawattstundir á ári fram til loka þess tímabils sem spá Landsnets tekur til, þ.e. ársins 2060. Landsnet spáir því að orkuþörfin árið 2040 verði 31,5 terrawattstundir og muni vaxa í 47 terrawattstundir árið 2060.

 

 

 

 

 

 

 

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

EyjanFastir pennar
Fyrir 4 dögum

Svarthöfði skrifar: Það sem lesa má í rjómaskálina í eldhúsinu hennar Ingu

Svarthöfði skrifar: Það sem lesa má í rjómaskálina í eldhúsinu hennar Ingu
Eyjan
Fyrir 5 dögum

Orðið á götunni: Mogginn og Sjálfstæðisflokkurinn engjast

Orðið á götunni: Mogginn og Sjálfstæðisflokkurinn engjast