Miðnefnd Samtaka hernaðarandstæðinga hafa sent frá sér ályktun þar sem skorað er á ríkisstjórn Íslands að lýsa andstöðu sinni við notkun klasasprengja í stríðinu í Úkraínu.
„Það er gjörsamlega siðlaust athæfi að banna klasasprengjur í eigin landi og líta samtímis framhjá eða taka þátt í beitingu þeirra í öðrum löndum. Alþjóðasáttmálar á borð við klasasprengju- og jarðsprengjubönn Sameinuðu þjóðanna eru meðal mikilvægustu afvopnunarsáttmála sem í gildi eru. Því miður hafa risaveldin á undanförnum misserum jafnt og þétt grafið undan alþjóðlegum samningum á sviði afvopnunar og afleiðingarnar í stríðinu sem nú geisar. Það verður að stöðva stigmögnun stríðsins í Úkraínu strax og hefja vinnu við að ná friðsamlegri lausn,“ segir í ályktuninni.
Bandaríkjamenn hafa tekið þá umdeildu ákvörðun að senda klasasprengjur til Úkraínuhers til að beita í stríðinu gegn innrásarliði Rússa. Ákvörðunin hefur verið harðlega gagnrýnd af mannréttindarsamtökum og jafnvel hafa samherjar forsetans fordæmt ákvörðunina.
Engin bandalagsþjóða NATO, þar á meðal Ísland, hefur mótmælt þessari ákvörðun Bandaríkjamanna. Jens Stoltenberg, framkvæmdastjóri NATO hefur sagt bandalagið ekki taka neina afstöðu til klasasprengja.