Söngkonan og laganeminn Iva Marín Adrichem grendi frá því í viðtali við Frosta Logason í þættinum Spjallið á að hún hafi orðið fyrir margvíslegri kúgun og ofbeldi vegna skoðana sinna og hafi meðal annars verið klippt út úr auglýsingu sem gerð var fyrir Ferðamálastofu um aðgengi fatlaðra að ferðamannastöðum, en Iva er blind.
Hafi ástæðan fyrir því verið skoðanir Ivu á trans fólki og því hafi myndböndunum verið kippt úr umferð þar sem Ferðamálastofa vilji ekki að verkefni þeirra dragist inn í umræðu um réttindabaráttu trans fólks.
Nú hefur málið ratað inn á Alþingi en Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, þingmaður Miðflokksins, spurði í pontu í dag undir liðnum störf þingsins hvort að ríkisstjórninni finnist það forsvaranlegt að stjórnvald á Íslandi, sem Ferðamálastofa er, geti ákveðið að setja einhvern á svartan lista vegna skoðana sinna.
„Herra forseti. Ég sé að ráðherrarnir eru allir hlaupnir út. Ég hefði gjarnan viljað tala við þá en þeir hafa auðvitað takmarkaðan áhuga á störfum þingsins. En það sem ég vildi gera að umtalsefni undir þeim lið í dag er ung kona sem heitir Iva Marín Adrichem, ung söngkona og laganemi. Hún er blind og af þeirri ástæðu var hún ráðin til að leika í auglýsingu Ferðamálastofu um gott aðgengi í ferðaþjónustu. Myndbandið fór í sýningu síðastliðið haust en nú hefur hún verið klippt út úr þessu myndbandi og á víst að ráða nýjan leikara í hlutverkið vegna meintra skoðana Ivu Marínar, skoðana sem hún kannast ekki við og segir að hafi verið hermdar upp á sig án þess að hún gangist við þeim.“
Sigmundur bendir á að samkvæmt svörum Ferðamálastofu hafi Iva unnið sér það til sakar að vera meðlimur í „einhverjum samtökum“. Um er að ræða samtökin LGB-teymið sem hefur verið sakað um að beita sér gegn réttindum trans fólks og séu samtökin tilraun til þess að flytja inn orðræðu til landsins sem sé fordómafull í garð trans einstaklinga, en LGB stendur fyrir lesbíur, homma og tvíkynhneigða, en hinsegin samfélagið notast að jafnaði við lengri skammstöfun, LGBT+ eða enn lengra LGBTQIA+, þar sem T stendur fyrir trans fólk. Hafa samtök kallað sig LGB víðar í heiminum gagngert í þeim tilgangi að útiloka þá sem tilheyra trans samfélaginu.
Sigmundur telur þó að það eigi ekki að vera hlutverk stjórnvalds á borð við Ferðamálastofu að útiloka fólk vegna þess hvers konar samtökum það tilheyrir.
„Svarið frá Ferðamálastofu mun vera að hún hafi verið staðin að því að hafa verið meðlimur í einhverjum samtökum sem berjast eða börðust fyrir réttindum samkynhneigðra og tvíkynhneigðra en hafi að mati þessa stjórnvalds ekki rétta skoðun á öðrum málum.
Í tíð McCarthy–ismanns svokallaða í Bandaríkjunum voru leikarar og aðrir sem komu að gerð kvikmynda og sjónvarpsefnis spurðir: Ert þú eða hefur þú einhvern tímann verið meðlimur í kommúnistaflokknum? Þeir sem voru grunaðir um slíkt voru settir á svartan lista, bannað að taka þátt í gerð kvikmynda eða sjónvarpsefnis. Þó var þá um að ræða hættulegustu hreyfingu kalda stríðsins.
En hér er spurningin sem stendur frammi fyrir okkur: Viljum við að á Íslandi geti ákveðið stjórnvald ákveðið að spyrja hvort einhver hafi verið meðlimur í samtökum, sem í þessu tilviki, að mér skilst, snerist um réttindi samkynhneigðra, og ef sú er raunin, þá megi setja viðkomandi á svartan lista, herra forseti?
Iva Marín spyr: Hver er afstaða meiri hlutans? Ég vil vita afstöðu meiri hlutans og ég spyr þingið: Hver er afstaða meiri hlutans hér til þess?“