Í pistli sem birtist í Morgunblaðinu í dag fjallar Sigmar Vilhjálmsson, forstjóri Munnbitans og formaður Atvinnufjelagsins, um nýja kjarasamninga og hvernig sé hægt að koma í veg fyrir að launahækkanir skili sér allar út í hærra verðlagi. Sigmar segir að þó nokkrar leiðir standi til boða en að lausninrnar liggi allar á borði ríkisstjórnarinnar.
„Höfum í huga að með hverjum 1.000 kr. sem laun hækka fær ríkið að lágmarki 314,5 kr. í auknar skatttekjur. Samtals hækka tekjur ríkisins því að lágmarki um 28 milljarða króna við þessar launahækkanir. (Miðað er við að launakostnaður á Íslandi sé um 1.000 milljarðar á ári og laun séu að hækka að meðaltali um 7,4% og miðað er við lægsta skattþrepið í þessum áætluðu tölum ásamt 6,35% tryggingagjaldi.)
Hvað á að gera við þessa 28 milljarða, að lágmarki, sem launþegar og fyrirtæki greiða aukalega til ríkisins?“
Sigmar, sem er oftast kallaður Simmi Vill, segir að leiðrétting á tryggingagjaldi væri góð ráðstöfun sem kæmi til móts við fyrirtækin í landinu og að það myndi sporna gegn frekari verðhækkunum. Hann segir að slíkt myndi gagnast almennu launafólki og um leið styðja fyrirtækin í landinu við að taka við þeim launahækkunum sem liggja fyrir, án þess að hækka verð.
„Miðað við sömu forsendur og að ofan, að launakostnaður á Íslandi sé 1.000 milljónir, gæti ríkið leiðrétt tryggingagjaldið á öll fyrirtæki á Íslandi um 40%, fyrir það fundna fé ríkisins sem felst í nýlegum kjarasamningum. Í stað þess að innheimta 6,35% í tryggingagjald, þá væri það lækkað í 3,75%.
Með þessu er ríkið að skila því fé sem það „óvænt“ fær, að minnsta kosti 28 milljörðum, til baka til fólksins í landinu, enda væri þessi aðgerð til þess fallin að verðhækkanir yrðu ekki eins háar og útlit er fyrir. Slík niðurstaða myndi auka kaupmátt launafólks með þeim launahækkunum sem liggja fyrir.“
Sigmar fullyrðir að lækkun á tryggingagjaldi skipti miklu máli fyrir fyrirtæki með hátt launahlutfall af veltu.
„Til útskýringar, þá er tryggingagjaldið 6,35% sérstakt gjald sem atvinnurekendum ber að greiða af heildarlaunum launamanna sinna. Þannig að fyrirtæki sem eru með marga starfsmenn, hátt launahlutfall og skila ríkinu hlutfallslega mun hærri sköttum en fyrirtæki með lágt launahlutfall finna því meira fyrir ábatanum af þessari aðgerð, sem er réttlátt. Enda eru það þau fyrirtæki sem eru í hvað erfiðastri stöðu í því umhverfi sem nú blasir við.“
Hann segir þessa aðgerð því vera réttláta gagnvart atvinnulífinu og að hún snerti öll heimili í landinu í ljósi þess að verðbólga yrði „minni en útlit er fyrir.“
Að lokum segir Sigmar að nú sé komið að ríkisstjórninni, hún eigi leik í þeirri stöðu sem er uppi í atvinnulífinu. „Það er alveg klárt mál. Kjarasamningar liggja fyrir og leiða til mikillar hækkunar kostnaðar hjá fyrirtækjum og verðhækkanir eru óhjákvæmilegar nema ríkisstjórnin stigi inn,“ segir hann.
„Núna er tíminn til að leiðrétta tryggingagjaldið og um leið sporna gegn enn frekari verðbólgu hér á landi.“