fbpx
Mánudagur 15.apríl 2024
EyjanFastir pennar

Analísering á skáksvindli heimsmeistarans

Björn Þorfinnsson
Fimmtudaginn 22. september 2022 19:00

Niemann, Carlsen og greinarhöfundur

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Ég hef lifað og hrærst í skák á fjórða áratug. Hef því upplifað ýmislegt í þeim efnum en aldrei hélt ég að sá dagur myndi renna upp að umræða um skák væri komin á bólakaf í óæðri endann. Hvað þá að það yrði umfjöllunarefni stærstu fjölmiðla heims. Þrátt fyrir að rassinn sé ákaflega mikilvægur líkamshluti í skákinni, það er jú talsvert setið við þessa iðju, þá hefur rassinn og leiðslan sem frá honum liggur sjaldan komið til tals á mínu ferli.

Ég man þó eftir eftir atviki á Íslandsmóti skákfélaga fyrir ansi mörgum árum síðan en þá brjálaðist einn keppandinn út af ákvörðun skákdómara í deilumáli og sagði honum að hoppa upp í rassgatið á sér. Það er svo sem gömul saga og ný að menn hvetji hvorn annan til rassahopps en það sem gerði þetta atriði ógleymanlegt var að hvatningin var af einhverjum ástæðum þrítekin.

„Hoppaðu upp í rassgatið á þér, í rassgatið á þér, í rassgatið á þér,“ öskraði viðkomandi í heilagri bræði og gerði það þar með að verkum að frasinn mun lifa með minni kynslóð skákmanna um ókomna tíð. Ef menn eru hvattir til þess að hoppa upp í rassgatið á sér í skákinni þá er ekki gert einu sinni heldur þrisvar.

Analíseringar á hótelherbergi

Um aldamótin var svo ég staddur á skákmóti í Frakklandi ásamt Braga litla bróður. Bragi bróðir var á sínum táningsárum nokkuð velheppnað eintak þó krumlur tímans hafi síðan farið um hann óvægnum höndum. Til marks um það varð Bragi í öðru sæti í kosningu á myndarlegasta karlkyns keppanda Heimsmeistaramót undir 20 ára í Aþenu í Grikklandi. Tíu kvenkyns keppendur kusu og er þetta líklega ein stærsta stund í lífi bróður míns.

En hvað um það. Á mótinu í Frakklandi tefldi Bragi við belgískan alþjóðlegan meistara og pakkaði honum saman í góðri skák. Eftir skákina var Belginn hinn vinalegasti, stakk upp á ýmsum möguleikum þar sem hann hann hefði getað varist betur og kom síðan með óvænt tilboð:

Would you like to come to my hotel room and analyze the game?“

Áherslan á fyrri part orðsins sem vísaði í skákrannsóknir gerði það að verkum að engum duldist hvað í boði var. Er þetta einhver rosalegasta pikk-öpp lína sem ég hef heyrt af á ferlinum en reyndar er ekki mikið um pikk-öpp línur í skákinni, ef ég á að vera alveg hreinskilinn.

Sagan falska um víbrandi unaðskúlurnar

Að öðru leyti hafa rassar og hvað þá endaþarmar ekki verið mikið til umræðu í skákinni en nú hefur það breyst á einni nóttu. Stærstu fjölmiðlar heims hafa greint frá því að bandaríski stórmeistarinn Hans Niemann hafi mögulega svindlað gegn heimsmeistaranum Magnúsi Carlsen með því að troða fjarstýrðum unaðskúlum upp í endaþarminn á sér og fengið þannig skilaboð um bestu leikina.

Þetta er náttúrulega óborganlega fyndin saga og ég hef fullan skilning á því að hún hafi farið á flug. Ég ætla þó að vera svo leiðinlegur að benda á  að ekkert er í henni hæft né er kenningin tekin alvarlega í skáksamfélaginu. Þá er það rangt að Niemann hafi nokkru sinni verið spurður út í kynlífstækjakenninguna.

Kenningin er sprottin frá kanadíska stórmeistaranum Eric Hansen sem er afar vinsæll „skákstreymari“. Hann sum sé talar um skák, teflir á netinu og lýsir fyrir fylgjendum sínum hvað sé að gerast á skákborðinu. Í einni útsendingunni grínaðist hann með endaþarmskúlurnar og einn fylgjandi hans henti brandaranum á Twitter. Af öllum mönnum rakst Elon Musk, ríkasti maður heims, síðan á umrætt tíst, endurbirti það á sinni síðu og þar með fór sagan á flug og varð ekki stöðvuð.

Musk talar ekki bara verðmæti fyrirtækja og rafmynta niður í rassgat heldur blessaða skáklistina líka.

Elon Musk hefur ýmislegt á samviskunni Mynd/Getty Images

En hvað í ósköpunum er að gerast?

Undanfarið árið hefur hinn 19 ára gamli  Niemann verið á hraðferð upp heimslistann í skák. Hann hefur sjálfur viðurkennt að hafa svindlað í netskákum þegar hann var 12 og 16 ára gamall en ljóst er að sterkustu skákmenn heims eru tortryggnir í hans garð.

Dagana 15-21. ágúst fór fram ógnarsterkt skákmót í Miami í Bandaríkjunum þar sem Carlsen og Niemann voru á meðal þátttakenda. Allt virðist hafa leikið í lyndi í mótinu og meðal annars var tekið upp ýmiskonar auglýsingaefni þar sem Carlsen og Niemann voru meðal annars myndaðir við að tefla á ströndinni.

Carlsen og Niemann mættust í mótinu en allir keppendur tefldu fjögurra skáka einvígi innbyrðis. Niemann pakkaði Carlsen saman í fyrstu skákinni en Norðmaðurinn vann svo næstu þrjár skákir og þar með einvígið. Carlsen bar svo sigur úr býtum í sjálfu mótinu og Niemann, þrátt fyrir einstaka spretti varð neðstur af átta keppendum og vann ekki einvígi. Ekkert benti til þess að nein vandræði væru handan við hornið.

Carlsen og Niemann á ströndinni í Miami þegar allt lék í lyndi

Lætin byrjuðu síðan á Sinquefield-stórmótinu sem fram fór í St. Louis í Bandaríkjunum 1-13. september, aðeins tæpum tveimur vikum síðar. Niemann átti ekki að vera meðal keppenda en þegar rúmenski stórmeistarinn Richard Rapport forfallaðist ákváðu skipuleggjendur mótsins að bjóða bandaríska ungstirninu.

Hvað gerðist milli Miami og St. Louis?

En eitthvað hafði gerst í millitíðinni. Mögulega hafði Carlsen fengið nýjar upplýsingar um vafasama hegðun Niemann eða hvað. Það telur að minnsta kosti fyrrverandi áskorandi Norðmannsins um heimsmeistaratitilinn, bandaríski stórmeistarinn Fabiano Caruana, í nýlegu hlaðvarpi. Þar sagði Caruana, sem er einn helsti keppinautur Carlsen, að heimsmeistarinn væri að fórna sér fyrir það sem hann tryði á  – að taka þyrfti afar hart á svindlurum í skák, sama hvort það sé á netinu eða í raunheimi.

Caruana taldi sig vita að Carlsen hafi verið óánægður með þá ákvörðun að Niemann yrði með í mótinu og því hafi þegar verið kominn titringur í hann þegar þeir mættust svo í þriðju umferð. Niemann hafði teflt frábærlega fram að því í mótinu og vann síðan sannfærandi sigur á Carlsen sem brást við með því að hætta í mótinu daginn eftir og í kjölfarið sprakk út umræða um meint svindl Niemanns.

Sú ákvörðun vakti gríðarlega athygli. Augu heimsins beindust að Niemann sem þá var efstur í mótinu, sérstaklega eftir tilfinningaríkt viðtal þar sem hann tjáði sig um ásakanirnar. Hann tefldi ágætlega í næstu tveimur skákum en fór síðan að gefa eftir og endaði í 6. sæti mótsins af 9 keppendum.

Engar sannanir eru fyrir hendi um að Niemann hafi svindlað í hefðbundnum mótum né í þessari tilteknu skák gegn Carlsen. Hann tefldi afar vel en ekki fullkomna skák. Einn færasti sérfræðingur heimsins í skáksvindli, prófessorinn Ken Regan, hefur rannsakað allar skákir Niemann undanfarin ár og komist að þeirri niðurstöðu að ekkert bendi til þess að Bandaríkjamaðurinn hafi haft rangt við. Gagnrýnendur hafa svarað því á þá leið að rannsóknir Regan séu góðar til að klófesta svindlara sem herma alla leiki eftir tölvunni en ef Niemann sé að hafa rangt við þá sæki hann sér aðstoð á völdum og mikilvægum augnablikum í skákum en treysti svo á eigin hæfileika við úrvinnslu skákanna. Slíka svindlara er afar erfitt að klófesta.

Lærifaðirinn svindlaði líka

Nú stendur yfir Julius Baer ofurmótið sem teflt er á skákþjóninum Chess24 eða nánar tiltekið 18-25. september. Þrátt fyrir að keppendur tefla heiman frá sér eru miklar öryggiskröfur. Skákmennirnir verða að vera í mynd á meðan mótinu stendur auk þess sem að myndavélar og hljóðnemar, sem aðeins skákstjórar hafa aðgang að, taka upp allt umhverfi skákmannanna í herberginu sem þeir tefla í.

Fyrir löngu lá fyrir að Niemann og Carlsen yrðu báðir meðal þátttakenda í mótinu og því var mikil eftirvænting fyrir skák þeirra í sjöttu umferð mótsins. Viðureignin varð snubbótt og endaði með því að Carlsen lék einn leik, gafst upp og slökkti á myndavélinni sinni.

Málið sprakk út öðru sinni og helstu fjölmiðlar gerðu dramanu góð skil. En Carlsen, sem virðist á köflum varla mannlegur, lét það ekki hafa nein áhrif á sig og valtaði yfir flesta aðra keppendur og vann sigur í undanrásum mótsins. Niemann stóð sig einnig bærilega og náði einnig sæti í úrslitum þess. Nú býður skákheimur í ofvæni eftir því að Carlsen mæti Niemann mögulega í útsláttareinvígi þar sem allt er undir og hvernig heimsmeistarinn myndi bregðast við því.

Carlsen hefur ekki tjáð sig að neinu ráði um málið síðan það sprakk út en opnaði sig lítillega um það í gær. Sagðist hann ekki geta tjáð sig um ásakanir um svindl, fólkið yrði að draga sínar eigin ályktanir og það hefði það sannarlega gert. Hann henti þó í dulbúna pillu. „Ég verð að segja að mér finnst mikið til taflmennsku Niemann koma og ég held að lærifaðir hans, Maxim Dlugy, sé að standa sig frábærlega,“ sagði Carlsen.

Dlugy, sem er bandarískur stórmeistari, var fyrir nokkrum árum settur í ævilangt bann á stærsta skákþjóni heims, Chess.com, fyrir að svindla í netmóti þar sem að peningaverðlaun voru í boði. Skýrari verða ekki skilaboðin ekki.

Á þessari stundu er því skáksamfélagið enn í uppnámi og fátt er um svör. Áhugafólk skiptist í fylkingar milli Carlsen og Niemann. Sumir eru sannfærðir um að Bandaríkjamaðurinn sé svindlari á meðan aðrir telja að hegðun heimsmeistarans sé til skammar og hann sé að rústa skákferli 19 ára drengs án haldbærra sannanna.

Sjálfur sveiflast ég á milli stríðandi fylkinga og hef ekki enn ákveðið hvor þeirra megi hoppa upp í rassgatið á sér, í rassgatið á sér, í rassgatið á sér.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

EyjanFastir pennar
Fyrir 3 vikum

Björn Jón skrifar: Verðleikar og andverðleikar 

Björn Jón skrifar: Verðleikar og andverðleikar 
EyjanFastir pennar
Fyrir 3 vikum

Steingerður Steinarsdóttir skrifar: Örlæti andans

Steingerður Steinarsdóttir skrifar: Örlæti andans
EyjanFastir pennar
Fyrir 3 vikum

Svarthöfði skrifar: Hjartað slær með bankastjóranum og krónunni – fullveldið sjálft að veði

Svarthöfði skrifar: Hjartað slær með bankastjóranum og krónunni – fullveldið sjálft að veði
EyjanFastir pennar
Fyrir 4 vikum

Sigmundur Ernir skrifar: Tími öfgaaflanna er aftur runninn upp

Sigmundur Ernir skrifar: Tími öfgaaflanna er aftur runninn upp
EyjanFastir pennar
09.03.2024

Sigmundur Ernir skrifar: Hvirfilbylur bölmóðsins

Sigmundur Ernir skrifar: Hvirfilbylur bölmóðsins
EyjanFastir pennar
09.03.2024

Óttar Guðmundsson skrifar: Pólitísk ólund

Óttar Guðmundsson skrifar: Pólitísk ólund
EyjanFastir pennar
02.03.2024

Sigmundur Ernir skrifar: Þegar afturhaldið andar ofan í hálsmálið

Sigmundur Ernir skrifar: Þegar afturhaldið andar ofan í hálsmálið
EyjanFastir pennar
02.03.2024

Óttar Guðmundsson skrifar: Breiðfjörð og Megas

Óttar Guðmundsson skrifar: Breiðfjörð og Megas