fbpx
Föstudagur 30.september 2022
Eyjan

Jóhann skýtur á „gjaldaglaða gjalda-Bjarna“ út af hækkununum

Máni Snær Þorláksson
Föstudaginn 16. september 2022 16:30

Myndin er samsett.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, kynnti ný fjárlög í vikunni og hefur mikið verið rætt um þau á Alþingi í kjölfarið. Minnihlutinn hefur sérstaklega gagnrýnt hækkanir á gjöld og sagt að þær komi til með að lenda verst á þeim tekjulægstu í landinu. Talað hefur verið um að það þurfi að fara aðrar leiðir til að koma meiri pening í ríkissjóð, til dæmis með hækkun skatta á aðra en þau sem hafa lægstar tekjur.

Bjarni svaraði andsvörum stjórnarandstöðunnar í gær og sagði að það væru alltaf að koma nýjar hugmyndir um nýja skatta og aukin útgjöld. „Það er talað til fólks eins og þeirra líf verði betra ef við bara aukum útgjöld ríkissjóðs nógu mikið. Það sé bara ekki nógu miklum fjármunum stýrt í gegnum ríkissjóð,“ sagði hann.

„Það er náttúrlega alið á öfund í garð þeirra sem hafa meira, sem borga hæstu skattana. Fjármagnstekjuskattur fór upp verulega og greiddir voru 16 milljarðar umfram áætlanir í fjármagnstekjuskatt á þessu ári. Það er jákvætt fyrir ríkissjóð að það sé sanngjarnt fjármagnstekjuskattskerfi sem tryggir fjárfestingu sem á endanum skapar arð sem verður skattlagður. Það er bara jákvætt.“

„Gjaldaglaði gjalda-Bjarni“

Jóhann Páll Jóhannsson, þingmaður Samfylkingarinnar, var greinilega ekki sáttur með þessi orð Bjarna í gær en hann tók þau til umræðu í ræðu á Alþingi í dag „Gaslýsing getum við kallað það þegar hæstvirtur fjármálaráðherra kom hérna upp kvartaði og kveinaði undan því að stjórnarandstöðuflokkar vildu hækka skatta,“ sagði Jóhann í dag.

„Þetta gerði fjármálaráðherra daginn eftir að hafa lagt fram fjárlagafrumvarp sem einkennist öðru fremur af gjaldahækkunum, hærri gjöldum á fólkið í landinu, hærri skattbyrði á lágtekju- og millitekjufólk vegna veikingar tekjutilfærslukerfanna. Og í örvæntingu sinni, nokkrum vikum fyrir landsfund Sjálfstæðisfundsins – þar sem hann ætlar að sækjast eftir endurnýjuði umboði í skugga hneykslismáls þar sem faðir hans keypti eignarhlut ríkisins í banka í lokuðu umboði en það er önnur saga – í örvæntingu sinni stígur hann upp í ræðustól hérna á Alþingi og segir: það eruð þið sem ætlið að hækka skattana á almenning, ekki ég heldur þið.“

Jóhann rifjar það þá upp að Katrín Jakobsdóttir hafi verið uppnefnd af svokölluðum tröull á samfélagsmiðlum sem „skattaglaða skatta-Kata“ í aðdraganda kosninganna árin 2016 og 2017. „Íhaldsöflin héldu að Katrín Jakobsdóttir væri ógn við forréttindi hinna ríku og valdamiklu á Íslandi. Tröllunum hefði kannski verið nær að vara við hæstvirtum fjármálaráðherra, kalla hann skattaglaða skatta-Bjarna, gjaldaglaða gjalda-Bjarna, Skattmann, því það er sú mynd sem birtist í þessum fjárlögum,“ sagði Jóhann í ræðunni og fór svo yfir það hvernig ýmis gjöld koma til með að hækka.

„Förum aðeins yfir þetta. Áfengisgjöld, hæstu áfengisgjöld í Evrópu, þau hækka um 7,7 prósent, tóbaksgjöld hækka um 7,7 prósent, kolefnis- og eldisneytisgjöld hækka um 7,7 prósent, bifreiðagjöld hækka um 7,7 prósent, kílómetragjöld hækka um 7,7 prósent. Þetta eru skattar sem lenda þyngst á tekjulægstu hópunum, Bjarni Benediktsson vill kroppa af þeim 5,3 milljarða. Og þetta mun leka beint út í vísitölu neysluverðs, hækka hana um 0,2%, og þannig auðvitað auka á erfiðleika fjölda skuldsettra heimila.“

Þá vekur Jóhann sérstaklega athygli á því að verið er að auka skattheimtu á vistvæna bíla. „Einmitt þegar lágtekjufólk, lágtekjuheimili, sjá fram á að það geti orðið hagkvæmt að eignast rafmagnsbíl eftir því sem rafmagnsbílar verða ódýrari í framleiðslu og olíuverð er búið að hækka upp úr öllu valdi– einmitt þá á að skrúfa fyrir skattaívilnanir gagnvart vistvænum bílum. Fólkið í lægri tekjuendanum fær ekki að vera með,“ sagði hann.

„Það sem er svo sláandi í þessu fjárlagafrumvarpi er að um leið og skrúfað er frá ýmsum gjöldum alveg í botn, skrúfað frá refsisköttum og gjöldum á fólkið í landinu, þá er ekki ráðist í eina einustu aðgerð, ekki einu sinni táknræna aðgerð, til að láta breiðu bökin taka þetta með okkur. Fjármálaráðherra má ekki heyra á slíkt minnst, þá fer hann að tala um öfund.“   

„Alger óþarfi“ að hækka skatta upp úr öllu valdi

Eftir ræðu Jóhanns steig Bjarni upp í pontu og svaraði honum, sagði að málið væri ekki jafn flókið og umræðan bæri með sér. „Aðalatriði málsins er það að sú skattapólitík sem við höfum verið að reka hefur skilað sér best til lágtekju og millitekjufólks,“ sagði Bjarni.

„Hvað gerðist fyrst með því að við afnámum miðþrepið og síðan með meiri háttar skattkerfisbreytingum sem skiluðu lágtekjufólki um 10.000 kr. lægri sköttum á mánuði í síðustu skattkerfisbreytingu. Þannig skattastefnu höfum við talað fyrir og hún hefur skilað sér vel og þetta eru allt mælanlegt. Það er hægt að sjá þetta á kaupmáttaraukningur hjá öllum tekjutíundum, samt koma menn hér upp, ítrekað, og segja að allar okkar breytingar, öll okkar skattapólitík snúist eingöngu um þá sem séu efst í skattstiganum – það er bara einfaldlega rangt. Auðveldast er að sjá þetta með því hvernig skattprósentan hefur þróast hjá efstu tekjutíundinni í tekjuskattskerfinu þar sem við höfum látið allar okkar skattabreytingar fjara út rétt í kringum milljónina.“

Þá segir Bjarni að ár eftir ár hafi kaupmáttur hjá öllum tekjutíundum stóraukist. „Nú glímum við tímabundið við verðbólgu og þá vilja menn nota það sem einhverja sérstaka réttlætingu fyrir því að hækka alla skatta upp úr öllu valdi og ég er bara hingað mættur til að segja ykkur. Það er alger óþarfi,“ sagði hann.

„Ríkissjóður gengur mun betur núna en í fyrra og mun halda áfram að ganga vel. Okkar áherslur eru á hið venjulega heimili. Sagan talar sínu máli. Þar höfum við verið að skila árangri.“

Jóhann fór þá aftur upp í pontu og kom með áskorun fyrir Bjarna. „Ég skora á hæstvirtan fjármálaráðherra, vegna þess að hann talar mikið um skattbyrði og þá þróun sem hefur orðið þar, að ráðast nú í vinnu í fjármálaráðuneytinu, taka upp vefinn tekjusagan.is og bæta þar inn, 20 ár aftur í tímann eða svo, tölum um það hvernig skattbyrði þróaðist á tímabilinu. Ekki bara ráðstöfunartekjur heldur líka skattbyrði. Ég held að það væri fróðlegt að fá þá mynd fram og þá væri auðveldara að meta það hvernig Sjálfstæðisflokknum hefur gengið að  lækka skatta á lágtekju og millitekjufólk.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Eyjan
Fyrir 3 dögum

Segir ásökun Tómasar byggða á misskilningi – „Misskilningi sem þarf að leiðrétta“

Segir ásökun Tómasar byggða á misskilningi – „Misskilningi sem þarf að leiðrétta“
Eyjan
Fyrir 4 dögum

Sakar Þjóðskrá um að hafa gripið fram fyrir hendur byggingarfulltrúa við gerð fasteignamats 2023

Sakar Þjóðskrá um að hafa gripið fram fyrir hendur byggingarfulltrúa við gerð fasteignamats 2023
Eyjan
Fyrir 4 dögum

Lýsir yfir sigri í ítölsku þingkosningunum – Giorgia Meloni væntanlega nýr forsætisráðherra

Lýsir yfir sigri í ítölsku þingkosningunum – Giorgia Meloni væntanlega nýr forsætisráðherra
Eyjan
Fyrir 1 viku

Ásdís segir grein stjórnarandstæðings sé ekki til sóma – „Segja rétt frá í stað þess snúa sannleikanum á hvolf“

Ásdís segir grein stjórnarandstæðings sé ekki til sóma – „Segja rétt frá í stað þess snúa sannleikanum á hvolf“
EyjanFastir pennar
Fyrir 1 viku

Björn Jón skrifar: Fjárlög vinstristjórnar og broguð stjórnmál

Björn Jón skrifar: Fjárlög vinstristjórnar og broguð stjórnmál