fbpx
Miðvikudagur 05.október 2022
EyjanFastir pennar

Björn Jón skrifar: Að vera eða ekki vera sósíalisti

Eyjan
Sunnudaginn 21. ágúst 2022 16:14

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Björn Jón Bragason skrifar: 

Hnútukast þeirra Gunnars Smára Egilssonar og Bjarna Benediktssonar varð fréttaefni á dögunum en Bjarni spurði hvort eðlilegt væri að flokkur sem engum manni næði á þing ætti heimtingu á 120 milljónum króna frá skattgreiðendum eins og reyndin er með flokk Gunnars Smára. Kvað Bjarni fjárhæðina einfaldlega of háa og rétt væri að draga úr styrkjum hins opinbera til stjórnmálaflokka. Nær væri að þeir björguðu sér sjálfir.

Þetta var ágætt hjá Bjarna og vonandi mun hann beita sér fyrir lækkun þvingunargreiðslna skattgreiðenda til flokkanna en ríkisvæðing þeirra er líklega einhver mesta meinsemd íslenskra stjórnmála. Það að þeir hafa verið gerðir háðir ríkisvaldinu hefur grafið undan pólitísku starfi, gert flokkana samdauna kerfinu og fjarlægari almenningi og starfslífi í landinu.

Sósíalisminn er víða

Bjarni sló síðan um sig með gamalkunnum frasa og sagði að „vandinn við sósíalista“ væri „að á endanum klára þeir annarra manna fé“. Mikið til í því; í öllum opinberum rekstri er verið að eyða fjármunum annarra og viðbúið að sóun eigi sér stað við þær aðstæður eins og best sést í þeim ríkjum sem lengst hafa gengið í sameignarskipulagi. En Bjarni skýtur föstum skotum að sósíalistum á sama tíma og hann situr í ríkisstjórn undir forsæti þeirra helsta leiðtoga hér á landi. Þetta er allt dálítið vandræðalegt.

En reyndar talar enginn lengur fyrir allsherjar ríkisvæðingu atvinnutækjanna — menn eru minnugir þess að hið opinbera reyndist að mestu ófært um fyrirtækjarekstur, hvort sem það voru bæjarútgerðir eða verksmiðjuiðnaður. Önnur ástæða þess að sósíalistar allra flokka í samtímanum hafa hafnað þjóðnýtingu er sú að þeim hefur lærst af reynslunni að skilvirkara er að láta borgarana reka atvinnutækin sjálfa en hirða þeim mun meira af ágóðanum í formi skatta. Stjórnmálamenn og embættismenn eru líka þar með lausir við það ómak sem fylgir opinberum rekstri atvinnutækja.

Reyndar var hugtakið sósíalisti löngu dottið úr tísku og enginn kallaði sig lengur sósíalista hér þar til nýlega að fáeinir yst á vinstrivængnum tóku að kenna sig við sósíalisma — að amerískri fyrirmynd. Endurnýjun hugtaksins í daglegu máli er því ameríkanisering svo merkilegt sem það hljómar. En hvað eiga menn eiginlega við með hugtakinu sósíalisma? Við því er ekkert einfalt svar. Sósíalismi er safnheiti yfir ótal hugmyndakenningar sem eiga það þó sammerkt að byggja á einhvers konar sameignarskipulagi ellegar mikilli samneyslu. Hugmyndakerfi tengd sósíalismanum mótuðust á 19. öld en aftur í fornöld getum við fundið dæmi um þjóðfélög sem viðhöfðu einhvers konar sameignarskipulag þar sem eignarrétti var hafnað — oftast með hörmulegum afleiðingum.

Friður í samfélaginu

Fyrir fáeinum árum skráði ég endurminningar Guðmundar H. Garðarssonar, alþingismanns og formanns Verslunarmannafélags Reykjavíkur (VR). Á þeim árum sem hann stýrði stéttarfélaginu þágu verkalýðsforingjar jafnan ekki laun fyrir þau félagsstörf. Þegar Guðmundur réð sig til starfa sem fulltrúi hjá Sölumiðstöð hraðfrystihúsanna árið 1960 setti hann það skilyrði að hann fengi tíma aflögu til að sinna formennsku í VR. Elías Þorsteinsson, stjórnarformaður Sölumiðstöðvarinnar, svaraði Guðmundi því til að hann yrði að sjálfsögðu að standa með sínu fólki. Sjálfur væri hann „brenndur á öllum fingrum af átökum við launþega“ en Elías hafði verið í hópi útgerðarmanna sem árið 1932 frömdu húsbrot í Keflavík þar sem Axel Björnsson, formaður Verkalýðsfélags Keflavíkur, var næturgestur. Eftir orðaskipti þar sem hafðar voru uppi hótanir um meiðingar var Axel fluttur með mótorbát til Reykjavíkur og hótað öllu illu ef hann kæmi aftur til Keflavíkur.

Margir voru brenndir af harðvítugum átökum kreppuáranna og á árunum eftir síðari heimsstyrjöld færðust borgaralegu öflin og vinstriöflin nær hvert öðru hvarvetna á Vesturlöndum. Hægrimenn sættust á víðtækan opinberan rekstur og útgjöld til félagsmála á sama tíma og lýðræðislegir vinstrimenn höfnuðu frekari þjóðnýtingu og vildu að nokkru marki treysta á frjálst framtak. Hin skýru skil sem áður voru milli kapítalista og sósíalista eru fyrir löngu orðin ógreinileg og kannski sem betur fer; samfélög Vesturlanda urðu friðsamlegri og velmegun jókst. Við sjáum líka að baráttumál öfgahópa til hægri og vinstri á okkar tímum lúta jafnan ekki að þessum grunnhugmyndum — heldur einhverju allt öðru.

Fyrir nokkrum árum var Angela Merkel, þáverandi Þýskalandskanslari, spurð í blaðaviðtali hvernig hún myndi lýsa þeirri hugmyndafræði sem hún aðhylltist. Eins og sönnum pragmatista sæmir svaraði hún því þannig til að hún væri um sumt íhaldssöm, um annað frjálslynd og um enn annað það sem í Þýskalandi er kallað „christlich-sozial“. Einhverjir kunna að telja þetta svar til merkis um vingulshátt í pólitík en ég er á öðru máli. Þetta er skýrt og heiðarlegt svar; einfaldlega vegna þess að sjónarmið manna á okkar tímum eru almennt samsett úr ólíkum hugmyndakerfum. Það er mikilvægt að menn geri sér grein fyrir þessu en blöndun hugmynda á samt ekki að leiða til þess að allir verði hugsjónalausir framsóknarmenn.

Útþynnt pólitík

Aðalfréttaefni síðustu daga er ófremdarástand í leikskólamálum borgarinnar. Þar stíga borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokks fram og krefjast þess að hið opinbera sinni dagvistun barna. Það að hið opinbera reki leikskóla (notendum nánast án endurgjalds) er sósíalísk hugmynd sem vinstri róttæklingar börðust fyrir á árum áður. Með breyttum þjóðfélagsháttum þar sem báðir foreldrar eru útivinnandi hefur hugmyndin orðið almenn. Við bætast ný viðhorf um að það sé æskilegt fyrir andlegan þroska barna að þau komist á leikskóla og faglega hefur orðið bylting í þessum efnum. Ég held að fáir deili um það. Það breytir því þó ekki að hugmyndin er í grunnin sósíalísk og það voru vinstrimenn sem komu breytingunum til leiðar á sínum tíma. Deilurnar í okkar samtíma milli flokkanna snúast aðeins um útfærsluatriði.

Að því sögðu þá mætti samt gjarnan vera skýrari hugmyndafræðilegur munur á flokkunum í okkar samtíma. Fáum blandast hugur um að pólitíkin er afskaplega útþynnt. Bjarni gagnrýndi fjárausturinn úr ríkissjóði í flokkana. Þeir peningar eru afhentir skilyrðislaust og eins og við sáum í aðdraganda síðustu alþingiskosninga fór stór hluti ríkisstyrksins í framleiðslu og birtingu auglýsingaskrums. Í Þýskalandi er ríkisstyrkur til flokkanna að mestu eyrnamerktur rannsóknarstofnunum sem starfa þeim samhliða. — Menn fá ekki að leika sér að vild með almannafé.

Ef við notum hugtak úr smiðju Bjarna þá er líklega „pólitískur ómöguleiki“ að ætla sér að ná niður ríkisstyrknum eins og sakir standa. Þó yrði til bóta að setja þau skilyrði að styrkinn yrði að nota til að efla félagstarf, fræðiðkun og gefa út lesmál um stefnuna — en hann fari ekki eingöngu í að ráða flokksdindla og kaupa auglýsingaefni. Flokkarnir mættu mjög gjarnan líta meira inn á við og gaumgæfa eigin stefnu (ég er nefnilega ekki viss um að stjórnmálamenn séu upp til hópa vel lesnir í pólitískri hugmyndafræði).

En svo ég komi aftur að sósíalismanum þá hygg ég að flestir þeir sem kenna sig við þá stefnu í okkar samtíma kjósi einmitt að nýta skattkerfið til að taka sem mest til samneyslunnar í stað þess að hirða atvinnutækin af borgurunum. Og ef við lítum aftur til formanns Sjálfstæðisflokksins þá verður seint sagt að hann standi sig í stykkinu þessi misserin sem fjárgæslumaður ríkissjóðs. Á valdatíma hans sem fjármálaráðherra hafa ríkisútgjöld stóraukist. Segja má að útgjaldahliðin sé stjórnlaus og ekki sjáanlegt að undið verði ofan af fjárlagahallanum í bráð. Sér er nú hver sósíalistinn, kynni einhver að segja.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

EyjanFastir pennar
25.07.2022

Björn Jón skrifar – Óþarft að halda landinu öllu í byggð

Björn Jón skrifar – Óþarft að halda landinu öllu í byggð
EyjanFastir pennar
10.07.2022

Björn Jón skrifar: Metnaðarleysi ríkisvaldsins í málefnum íslenskunnar

Björn Jón skrifar: Metnaðarleysi ríkisvaldsins í málefnum íslenskunnar
Aðsendar greinarFastir pennar
08.07.2022

Tryggvi Pétur Brynjarsson skrifar: Geta útlendingar ekki lært íslensku?

Tryggvi Pétur Brynjarsson skrifar: Geta útlendingar ekki lært íslensku?
EyjanFastir pennar
16.06.2022

 Árásin á Þórarinn Tyrfingsson -„Hersingin“

 Árásin á Þórarinn Tyrfingsson -„Hersingin“
EyjanFastir pennar
14.06.2022

„Þú líka Brútus“

„Þú líka Brútus“
EyjanFastir pennar
15.05.2022

Björn Jón skrifar: Stjórnarmynstrið gengur ekki upp

Björn Jón skrifar: Stjórnarmynstrið gengur ekki upp
EyjanFastir pennar
13.05.2022

Framtíð menntunar

Framtíð menntunar