fbpx
Sunnudagur 15.desember 2024
EyjanFastir pennar

Björn Jón skrifar: Engin kona í færeysku landsstjórninni en það stendur allt til bóta

Eyjan
Sunnudaginn 4. desember 2022 16:00

Aðeins karlar eiga sæti í færeysku landsstjórninni Mynd/foroyalandsstyri.fo

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Heiti þessa dálks hefur frá upphafi verið „Á þingpöllum“ en orðið þingpallur hefur allavega frá því um miðja síðustu öld verið notað yfir áhorfendapallinn í Alþingishúsinu við Kirkjustræti. Það hús var tekið í notkun 1881 en eins og flestum er kunnugt kom „endurreist“ Alþingi saman á sal Lærða skólans frá árinu 1845. Mér hefur löngum þótt sérstakt að líta svo á að löggjafarsamkundan hér sé stofnuð 930 þegar fyrir liggur að ráðgjafarþingið sem Kristján VIII lét koma á fót var allt önnur stofnun en hið forna alþingi nokkurn tímann var.

Færeyingar rekja sögu sinnar löggjafarsamkundu, Lögþingsins, líka langt aftur og segja það upprunalega stofnað um árið 825. Það þing var aflagt 1816 en „endurreist“ sem ráðgefandi árið 1852. Með heimastjórn í Færeyjum var Lögþinginu fengið löggjafarvald. Hvernig sem á það er litið þá liggur alla vega fyrir að Alþingi er ekki „elsta þing í heimi“.

Allt um það. Nú á fimmtudaginn kemur verður kosið til Lögþingsins í Færeyjum en það var 9. nóvember sl. sem Bárður á Steig lögmaður tilkynnti að þing skyldi rofið. Ástæða þess að kosið er nú var að Miðflokkurinn dró sig úr stjórnarsamstarfinu í kjölfar þess að Bárður lögmaður rak fulltrúa flokksins, Jenis av Rana, úr stjórninni en hann hafði gegnt embætti utanríkis- og menntamálaráðherra. Ástæða brottrekstursins var andstaða Jenis við aukin réttindi samkynhneigðra foreldra.

Pólitíkin er um margt ólík hér og í Færeyjum. Á Lögþinginu eiga 33 þingmenn sæti en þar af eru aðeins átta konur. Ekkert þing Norðurlanda hefur jafnlágt hlutfall kvenna. Þá situr engin kona í landsstjórninni. Ásla Leila Birgirsdóttir Johansen, frambjóðandi Þjóðveldisflokksins, segir í samtali við danska ríkisútvarpið að jafnréttismálin séu þó að þokast í rétta átt. Mörgum Færeyingum blöskri að engin kona eigi sæti í landsstjórninni og hún því uppnefnd „Mandsstyret“ og „Slipsestyret“. (Þá má nefna að í fjárveitinganefnd Lögþingsins situr aðeins ein kona en sjö karlar).

Stjórnmálin þarfnast fólks af báðum kynjum

Danmarks Radio ræddi þessi mál í vikunni sem leið við Hallberu West, dósent í stjórnmálafræði við Fróðskaparsetur Færeyja. Hún sagði kynjahlutföllin verða stöðugt jafnari meðal vinstriflokkanna en konur séu mun sjaldséðari á framboðslistum annarra flokka, til dæmis Miðflokksins, en kjósendur hans velji varla konur (í lögþingskosningum eru hvort tveggja kjörnir flokkar og einstaklingar). Þá vísar hún til könnunar sem Gallup gerði árið 2017 sem sýndi að karlar kysu karla en konur veldu nokkuð jafnt frambjóðendur af báðum kynjum.

Eyðdís Hartmann Niclasen, frambjóðandi Sambandsflokksins, harmar að svo hafi farið á endanum að eina konan yfirgaf landsstjórnina og segir í samtali við Danmarks Radio: „Det var kedeligt for os og for vores stolthed. Er vi så langt tilbage at vi kun har mænd i landsstyret?“ Verði flokkur hennar áfram í stjórn má þó telja líkur á að hún hljóti sæti við borðið.

Bæði þessi þingmannsefni, Niclasen og Johansen, kveðjast verða fyrir leiðindaathugasemdum í kosningabaráttunni (d. trælse kommentarer). Sú síðarnefnda segist gjarnan vera spurð: „Hvem skal så passe dine børn?“ og „Ej, har du tid til det?“ Og Niclasen segir marga líta á konur sem uppfyllingarefni á framboðslistum og undrist jafnvel að þær taki til máls. Hún svari slíku fullum hálsi, hún sé fimmtug og „for gammel til det pjat“!

„Skulu vit nú fóðra russisku krígsmaskinuni?“

Nú rétt í aðdraganda kosninganna gerðu Færeyingar samning við Rússa um gagnkvæmar veiðiheimildir innan fiskveiðilögsögu hvors um sig. Evrópusambandið hefur gagnrýnt samninginn harðlega en nokkuð almenn samstaða er um málið meðal færeyskra ráðamanna. Suni á Dalbø, frambjóðandi Sjálfstýriflokksins, er á öðru máli. Í grein sem birtist í Dimmalætting í liðinni viku gagnrýndi hann harðlega hina flokkana fyrir að standa ekki með öðrum vestrænum þjóðum í refsiaðgerðum gegn Rússum. Suni skrifar: „Skulu vit nú fóðra russisku krígsmaskinuni og venda Ukraina og vesturheiminum bakið? Hvar er hin miskunnsami samáriubúgvin í føroyingum?“ og bætir við að „vit føroyingar, hava sameint okkum við krígsharra, sum bumbar sakleys úr húsi og heimi“.

Ef við grípum niður í fleiri greinar á Dimmalætting þá ritar Kristianna Winther Poulsen úr Jafnaðarflokknum um aðlögun innflytjenda en „væl yvir 2000 fólk úr øllum heiminum hava gjørt Føroyar til sítt nýggja heimland, og vit skulu taka væl ímóti teimum,“ skrifar Poulsen. Hún segir kennslu í færeysku lykilatriði í þessu sambandi og þar verði vinnuveitendur að koma til móts við starfsfólk sitt af erlendum uppruna. Brýnt málefni sem er betur fer er líka komið til umræðu hér á landi.

Þau eru fleiri lík viðfangsefnin í færeyskum stjórnmálum og íslenskum. Mona Breckmann Wescott, þingmannsefni Fólkaflokksins, vill að öldruðum verði gert kleift að vinna meira, kjósi þeir svo, „uttan at verða skattliga revsað“. Hún segir atvinnuþáttöku í Færeyjum þá mestu í Evrópu, 90% fólks á aldrinum 18 til 67 ára sé starfandi en hlutfallið sé talsvert lægra á hinum Norðurlöndunum, eða 80–84%. Þó sé Ísland undanskilið og standi Færeyjum nær en á Íslandi „har 88% av vaksnum luttaka á arbeiðsmarknaðinum“. Wescott segir aukna atvinnuþátttöku aldraðra myndu bæta „krops- og sinnisheilsuna hjá eldri fólki“. Gríðarleg verðmæti séu fólgin í þekkingu og reynslu aldraðra sem þurfi að nýta eða „gráa gulli“ eins og hún nefnir það.

Sannarlega hægt að taka undir þau orð og þrátt fyrir að sitthvað sé frábrugðið í stjórnmálum þessara grannþjóða hygg ég að enn fleira sameini þær.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

EyjanFastir pennar
Fyrir 2 vikum

Þorsteinn Pálsson skrifar: Frá jöðrunum inn á miðjuna

Þorsteinn Pálsson skrifar: Frá jöðrunum inn á miðjuna
EyjanFastir pennar
Fyrir 2 vikum

Davíð Þór Björgvinsson skrifar: Treystum kjósendum

Davíð Þór Björgvinsson skrifar: Treystum kjósendum
EyjanFastir pennar
Fyrir 3 vikum

Þorsteinn Pálsson skrifar: Sér íslenskir skattar og yndi stjórnlyndra flokka

Þorsteinn Pálsson skrifar: Sér íslenskir skattar og yndi stjórnlyndra flokka
EyjanFastir pennar
Fyrir 3 vikum

Ágúst Borgþór skrifar: Er hægt að létta þessari martröð af þjóðinni?

Ágúst Borgþór skrifar: Er hægt að létta þessari martröð af þjóðinni?
EyjanFastir pennar
09.11.2024

Óttar Guðmundsson skrifar: Sérfræðingar í málefnum Bandaríkjanna

Óttar Guðmundsson skrifar: Sérfræðingar í málefnum Bandaríkjanna
EyjanFastir pennar
08.11.2024

Steinunn Ólína skrifar: Hvernig getum við skilið heiminn?

Steinunn Ólína skrifar: Hvernig getum við skilið heiminn?
EyjanFastir pennar
30.10.2024

Ágúst Borgþór skrifar: Að dæma konu fyrir sjálfsvörn

Ágúst Borgþór skrifar: Að dæma konu fyrir sjálfsvörn
EyjanFastir pennar
28.10.2024

Svarthöfði skrifar: Hvað myndi fólk segja ef Kristrún væri karl og Dagur kona?

Svarthöfði skrifar: Hvað myndi fólk segja ef Kristrún væri karl og Dagur kona?