Föstudaginn 13. október 1307 lét Filippus fríði Frakkakonungur taka hundruð musterisriddara höndum. Þeir voru því næst pyndaðir og látnir játa á sig trúvillu. Í kjölfarið voru allir helstu forystumenn reglunnar brenndir á báli með stórmeistarann í broddi fylkingar. Loks var gengið milli bols á höfuðs og undirmönnum þeirra. Undirrót blóðbaðsins var sú að musterisriddarar voru helstu lánardrottnar Frakkakonungs og konungur orðinn stórskuldugur.
Þetta var síður en svo einsdæmi. Á miðöldum henti það margoft að valdhafar afskrifuðu skuldir með því að koma lánardrottni sínum fyrir kattarnef og raunar langt fram eftir öldum. Slíkt gerræði hélt aftur af framþróun atvinnu- og fjármálalífs og var þar með hemill á myndun borgaralegs samfélags.
Hollendingar fóru allt aðra leið eftir að þeim tókst að brjótast undan veldi Spánarkonungs. Amsterdam óx upp sem alþjóðleg fjármálamiðstöð á 17. öld, þar varð fyrsta kauphöllin (h. beurs líkt og børsen í dönsku) til og ráðamönnum mjög í mun að vinna traust fjármálakerfisins. Lán ríkissjóðsins voru endurgreidd samviskusamlega og snemma komið á fót sjálfstæðu dómskerfi þar sem eignarréttur einstaklinga var varinn. Fyrir vikið varð til öflug stétt borgara og lífskjör urðu óvíða betri.
Í metsölubókinni Sapiens kemst höfundurinn, Yuval Noah Harari, svo að orði um þessa sögu að fjármagn seytli „frá einræðisríkjum sem vernda ekki einkaaðila og eignir þeirra. Það streymir inn í ríki sem standa vörð um löggjöf og eignarrétt.“ Þetta er endurtekið stef fram á okkar daga.
Lánardrottnum hótuð lagasetning
Nýverið kynntu fulltrúar íslenska ríkisins þær hugmyndir sínar að víkja stjórnarskrárvörðum eignarréttindum til hliðar og flytja skuldbindingar ríkissjóðs vegna ÍL-sjóðs (áður Íbúðalánasjóðs) frá skattborgurum til komandi kynslóða aldraðra — sjóðfélaga í lífeyrissjóðum landsins. Tilboði fjármálaráðherra til sjóðanna fylgdi sú hótun að ákvörðun yrði tekin með lagaboði tækjust ekki samningar. Þorsteinn Pálsson, fyrrv. forsætisráðherra, velti því upp í grein í Fréttablaðinu 3. þessa mánaðar að hér gæti beinlínis verið um að ræða nauðung sem er ein af ógildingarheimildum samningalaga. Þorsteinn segir ríkisstjórnina ætla „eldri borgurum að borga brúsann fyrir skattborgara“.
Í lögfræðiáliti sem lögmannsstofan LOGOS vann fyrir lífeyrissjóðina og kynnt var í liðinni viku kemur fram að sjóðunum er beinlínis óheimilt að semja um að gefa eftir gagnvart ríkisvaldinu í þessu efni. En lagasetningin yrði líka skammgóður vermir fyrir ríkissjóð því um leið og greiðslur úr lífeyrissjóðum skertust yrði Tryggingastofnun ríkisins að hækka bætur til ellilífeyrisþega.
Færi ríkisvaldið áðurnefnda leið yrði um að ræða skýlausa takmörkun á mannréttindum sjóðfélaga. Ríkisvaldið gerir sér grein fyrir þessu en hefur rökstutt fyrirhugaða aðgerð með vísan til þess að dómstólar hafi á sínum tíma metið svokölluð neyðarlög frá árinu 2008 stjórnskipulega gild. Samt sem áður afneitar ríkisvaldið því að nokkurt neyðarástand ríki og áðurnefnd „röksemd“ fellur því um sjálfa sig.
Þorsteinn Pálsson benti á það í fréttablaðsgreininni að fyrirhuguð aðgerð „sé reist á þeirri hugsun að víkja megi eignarrétti einstaklinga til hliðar að geðþótta til þess að bæta stöðu ríkissjóðs.“ En Þorsteinn bendir á að ekki nægi að horfa á lögfræðileg rök. Einnig þurfi að meta hin siðferðilegu en aðgerðirnar víki „með afgerandi hætti frá almennum siðferðilegum hugmyndum um réttlæti“. Aldraðir séu færri en skattborgarar og beri því þyngri byrðar hver og einn. Séu skattborgarar látnir bera byrðarnar þá greiði hinir tekjulægri hlutfallslega minna og fyrirtækin beri líka sína bagga.
Hver er trúverðugleiki ríkissjóðs?
Sá vandi sem hér um ræðir hefur legið ljós fyrir lengi. Vilhjálmur Bjarnason, fyrrv. alþingismaður, var meðal frummælenda á fundi Samtaka sparifjáreigenda á Hótel Natura (Loftleiðahótelinu) sl. þriðjudag þar sem einmitt þetta mál var tekið til umræðu. Hann kvaðst fyrst hafa orðið var við vanda Íbúðalánasjóðs (síðar ÍL-sjóðs) árið 2006 en lengi hafi verið reynt að fela raunverulega stöðu sjóðsins. Þorsteinn Pálsson gat þess í áðurnefndri grein að vandinn hafi legið skýr fyrir frá því að skýrsla um stöðu sjóðsins var birt fyrir níu árum og ríkisstjórnir frá þeim tíma að mestu vanrækt „þá afdráttarlausu árlegu lagaskyldu að gera tillögur um að koma jafnvægi á fjárhag ríkisábyrgðarsjóðs“. Þvert á móti hafa verið teknar ákvarðanir sem hafi aukið á vandann vegna ríkisábyrgða.
Þorsteinn Pálsson flutti sömuleiðis tölu á fundinum á Hótel Natura. Hann sagði augljós málaferli yfirvofandi færi ríkisvaldið þá leið sem það boðaði. Aðgerðin ylli óróa og óvissu. Eignarrétturinn væri grundvöllur markaðshagkerfisins og borgaralegrar hugmyndafræði. Valdhafana skorti bersýnilega skilning á þessu atriði, ákvörðunin gengi gegn frjálslyndum borgaralegum hugmyndum og stríddi á móti siðferðishugmyndum sem við reisum samfélag okkar á.
Bolli Héðinsson hagfræðingur var þriðji frummælandinn á fundinum. Hann benti á að það eitt að fjármálaráðherra hefði opinberlega viðrað hugmyndir um að standa ekki við ákvæði skuldabréfanna hefði þegar leitt til óbætanlegs tjóns. Þá myndu lífeyrissjóðir vilja nota ný innleysanleg bréf til erlendra fjárfestinga. Það kynni að hafa í för með sér lægra gengi krónunnar og aukna verðbólgu. Sama hvernig litið sé á málið blasi við að farsælast sé að láta skuldbindinguna standa óbreytta. Rétt er að bæta því við að hér eiga ekki bara hinir almennu lífeyrissjóðir í hlut. Tjónið snertir mun fleiri. Þá er rétt að hafa í huga að ekki sparast almenningi einn eyrir verði leið ríkisstjórnarinnar fyrir valinu. Skuldahlutfall ríkissjóðs mun raunar lækka en siðferði og réttlæti líða fyrir.
Vandinn snertir líka trúverðugleika ríkissjóðs. Valdhafar geta átt allskostar við borgarana. Þegnarnir eru ekki lengur brenndir á báli en löggjafinn getur enn sett lög þess efnis að hann skuldi ekki lengur fjármuni — eða alltént breytt kjörum sér í vil eftir á. Við slíkar aðstæður er eins gott að hafa á að skipa sjálfstæðum og óvilhöllum dómstólum. Málið vekur þó engu að síður upp spurningar um mörk löggjafarvalds en hversu vel ætli þingheimur sé upplýstur um grundvöll borgaralegs samfélags? Ég hef áður velt því upp hér í þessum pistlum að verulega skorti á skilning ráðamanna á ýmsum grunngildum frjálslynds lýðræðisþjóðfélags. Hér er á ferðinni enn eitt málið þar sem reynir á hvort við Íslendingar ætlum að vera hlutgengir meðal annarra vestrænna þjóða og virða almenn mannréttindi. Sagan kennir okkur með afgerandi hætti hvað er farsælast í þessu efni.