fbpx
Föstudagur 26.apríl 2024
Eyjan

Kristrún og Lilja tókust á um pólitíska leiki – „Eru engin prinsipp?“

Eyjan
Miðvikudaginn 16. nóvember 2022 16:01

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Kristrún Frostadóttir, formaður Samfylkingarinnar, og Lilja Alfreðsdóttir menningar- og viðskiptaráðherra, tókust á að Alþingi í dag um skýrslu ríkisendurskoðunar í óundirbúnum fyrirspurnatíma.  Þar var tekist á um pólitíska leiki og Icesave kom upp í umræðunni.

Kristrún sagði í ræðu sinni að skýrslan væri sláandi og væri „einn stór áfellisdómur yfir verklagi Bankasýslunnar og yfir verklagi fjármálaráðherra.“

Skýrslan sýni að fjármálaráðherra, Bjarna Benediktssyni, hafi mistekist að tryggja gagnsæi, hæsta verð og jafnræði við söluna. Eins hafi Bjarni veitt Alþingi misvísandi upplýsingar og tekið gífurlega stóra ákvörðun um „tugmilljarða hagsmuni skattgreiðenda með bundið fyrir augun – án þess að afla fullnægjandi gagna og leggja mat á þau.“

„En það sem veldur mér mestum vonbrigðum í umræðunni um þessa skýrslu er sá pólitíski leikur sem stjórnarliðar eru að spila. Enn einu sinni. Þetta er allt einhver pólitískur spunaleikur fyrir þeim.

Þau eru sigri hrósandi yfir því að Ríkisendurskoðandi noti ekki orðið lögbrot í skýrslunni, þótt það hafi aldrei verið hlutverk Ríkisendurskoðanda að leika dómara og kveða úr um sekt eða sýknu. 

Virðulegi forseti. Getum við ekki reynt að hefja þessa umræðu á aðeins hærra plan? Það er einfaldlega alltof mikið í húfi.

Þjóðin er orðin þreytt á pólitískum leikjum.“

En eitt málið, aftur sami maðurinn

Fólkið á Íslandi hugsi nú: „Æj enn eitt málið. Aftur sami maðurinn. Ekkert breytist.“ Kristrún segir að áframhaldandi skortur á trausti almennings gagnvart stjórnmálum sé á ábyrgð ríkisstjórnarinnar.

„Ríkisstjórnin hefur alið á uppgjöf. Og ég er hrædd um að fólk sé orðið ansi dofið fyrir þessu prinsippleysi. Í skjóli þessa doða stjórnar ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur. Væntingarnar til þeirra eru engar þegar kemur að málum sem þessum.

Ég spyr því menningar- og viðskiptaráðherra: Eru engin prinsipp? Snýst þetta allt um persónur og ráðherrastóla og pólitíska leiki — fremur en traust til þeirra embætta og stofnana sem hér eru undir?“

Þetta er ekki pólitískur leikur

Lilja greip þá til svara og þakkaði Kristrúnu hennar innlegg í umræðuna. Og til að svara spurningu hennar um prinsipp og pólitíska leiki sagði Lilja:

„Þá vil ég upplýsa þingmanninn um það að það er svo sannarlega ekki pólitískur leikur að koma með 600 milljarða inn í ríkissjóð á sínum tíma í formi stöðugleikaframlaga. Það er ekki pólitískur leikur að setja á fjármagnshöft til að tryggja hagsmuni Íslands. Það er ekki pólitískur leikur að segja nei við Icesave. Það sem við höfum verið að gera á síðustu átta árum er að tryggja hagsmuni Íslands, númer eitt, tvö og þrjú. Eitt af því sem gerist í þeirri vegferð, og þegar stöðugleikaframlögin komu inn, þá fengum við Íslandsbanka þar inn. Og nú er búið að selja að jafnvirði yfir 100 milljarða og koma því í verð. Og hvað erum við að gera við þessa fjármuni? Jú, við erum að styðja við heilbrigðiskerfið, við erum að styðja við menntakerfið og menninguna. Þetta er ekki pólitískur leikur.“

Og fyrst Kristrún væri að spyrja um þetta og tala um prinsipp fullyrðir Lilja að ef það hefði ekki verið fyrri Framsókn, Sjálfstæðisflokkinn og Vinstri Græn hefði ekkert af þessu tekist.

Um hvað erum við að tala hérna?

Kristrún steig þá aftur í pontu og sagðist ekki vita betur en að það væri einmitt pólitískur leikur að draga Icesave inn í umræðuna um sölu á Íslandsbanka.

„Um hvað erum við að tala hérna? Af hverju getum við ekki rætt um verklagið í þessu ferli?

Það er öll þjóðin að fylgjast með hvernig þið bregðist við verklaginu í þessu ferli og þið farið að ræða um Icesave í þessu samhengi. Skiptir engu máli hvernig hlutirnir eru gerðir? Það er það sem þjóðin vill vita.

Ráðherra sagði í viðtali í dag að þeir sem báru ábyrgð á þessari framkvæmd séu ekki að fara að bera ábyrgð á næstu framkvæmd. Um leið sagði hún í fjölmiðlum í gær að fjármálaráðherra hefði þegar axlað ábyrgð á bankasöluklúðrinu með því að óska eftir umræddri skýrslu. Hún viðurkennir þannig að ábyrgðin liggi hjá honum.

Ég spyr menningar- og viðskiptaráðherra: Treystir hún fjármálaráðherra eftir allt sem á undan er gengið til að bera ábyrgð á frekari sölu á Íslandsbanka?“

Já ég treysti fjármálaráðherra til að fara í frekari sölu

Lilja svaraði þá aftur fyrir sig og sagði að þarna hefði hún verið að ræða stjórnmál og fyrir hvað „við stöndum í stjórnmálum“.

„Erum við tilbúin til þess að verja íslenska hagsmuni í raun og veru? Sama á hverju gengur. Fyrir það stendur t.d. minn flokkur og hefur gert allan tímann — staðið í lappirnar gegn því að það sé verið að veikja landið okkar. Í aðdraganda hrunsins og í hruninu voru fjölmargir stjórnmálaflokkar sem voru ekki tilbúnir til að gera það. Þeir voru ekki tilbúnir til að segja: Heyrðu, þetta Icesave — þetta er ekki reikningur þjóðarinnar.“

Þessi umræða skipti máli því hún sýni fyrir hvað ríkisstjórnin stendur.

„Og svarið: Já, ég treysti fjármálaráðherra til að fara í frekari sölu. Ég vil ítreka þó eitt — að við eigum eftir að fá niðurstöðu Fjármálaeftirlitsins endanlega til að fá heildarmynd af því hvernig salan tókst til.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Eyjan
Fyrir 4 dögum

Ólafur Þ. Harðarson: Afleiðing forsetaframboðs Katrínar er að Bjarni Ben er orðinn forsætisráðherra

Ólafur Þ. Harðarson: Afleiðing forsetaframboðs Katrínar er að Bjarni Ben er orðinn forsætisráðherra
Eyjan
Fyrir 4 dögum

Ole Anton Bieltvedt skrifar: Þegar þjóðin hafnaði stjórnmálamanni – Endurtekur sagan sig?

Ole Anton Bieltvedt skrifar: Þegar þjóðin hafnaði stjórnmálamanni – Endurtekur sagan sig?
Eyjan
Fyrir 5 dögum

Ólafur Þ. Harðarson: Þurfum mjög hæfan forseta – þarf alls ekki að vera stjórnmálamaður

Ólafur Þ. Harðarson: Þurfum mjög hæfan forseta – þarf alls ekki að vera stjórnmálamaður
Eyjan
Fyrir 5 dögum

Orðið á götunni: Verða Bessastaðir stökkpallur inn á Alþingi?

Orðið á götunni: Verða Bessastaðir stökkpallur inn á Alþingi?
Eyjan
Fyrir 1 viku

Orðið á götunni: Verður spútnikframbjóðandinn himnasending kosninganna?

Orðið á götunni: Verður spútnikframbjóðandinn himnasending kosninganna?
Eyjan
Fyrir 1 viku

Þrír milljarðar í súginn og þögnin ærandi – „Með öllu óskiljanlegt og ríkisstjórn Íslands til ævarandi skammar“

Þrír milljarðar í súginn og þögnin ærandi – „Með öllu óskiljanlegt og ríkisstjórn Íslands til ævarandi skammar“