fbpx
Laugardagur 27.júlí 2024
EyjanFastir pennar

Björn Jón skrifar: Lærdómurinn af Baugsmálinu

Eyjan
Sunnudaginn 13. nóvember 2022 14:45

Jón Ásgeir Jóhannesson og Tryggvi Jónsson voru ákærðir í Baugsmálinu, ásamt fleirum. Mynd/GVA

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Ísland varð sjálfstætt ríki árið 1918 og fá ef nokkurt ríki heims var jafnveikburða á þeim tíma — og ekki bara í beinum efnahagslegum skilningi. Því fór nefnilega fjarri að hérlent stjórnkerfi og réttarkerfi hefðu náð sama þroska og á hinum Norðurlöndunum. Til að mynda var ákæruvald nátengt hinu pólitíska valdi. Þeir voru þó til — framsýnir lögfræðingar — sem gerðu sér grein fyrir því að bæta yrði úr málum. Þeirra á meðal var Gunnar Thoroddsen sem settist fyrst á Alþingi 1934 og mælti í jómfrúarræðu sinni fyrir stofnun embættis saksóknara ríkisins. Í ræðunni sagði hann meðal annars:

„Það hefir geysimikla þýðingu, í hverra höndum ákæruvaldið er og hvernig með það er farið. Það er hin mesta nauðsyn, að það sé í höndum góðra og réttsýnna manna og að því sé beitt með fullu réttlæti. Í meðferð þess er tvenns að gæta. Annars vegar, að því sé aðeins beitt gegn öllum þeim, sem glæpi hafa drýgt, og hins vegar, að því sé ekki beitt gegn saklausum mönnum. Það getur haft geigvænleg áhrif, ef maður er ákærður fyrir afbrot sem hann er alsaklaus af, jafnvel þótt hann verði sýknaður að lokum. Ákæran ein, með öllum þeim réttarhöldum, vitnaleiðslum, varðhaldi, yfirheyrslum og umtali manna í milli, sem sakamálarannsókn eru samfara, getur gert honum slíkt tjón, bæði andlega og efnalega, að hann bíði þess seint bætur.“

Þegar Gunnar mælti þessi meitluðu orð var þess enn langt að bíða að stofnað yrði óháð embætti saksóknara ríkisins. Það var ekki fyrr en með viðreisnarstjórninni að skriður komst á málið og umrætt embætti var stofnað. Aðskilnaður hins pólitíska valds og ákæruvalds hafði þá um langa hríð verið áhugamál forystumanna Sjálfstæðisflokksins, ekki bara Gunnars heldur líka Bjarna Benediktssonar, Jóhanns Hafstein og fleiri.

Réttarríki eða glæpafélag?

Ákæruvaldi þarf að beita „með fullu réttlæti“ nefndi Gunnar Thoroddsen í ræðunni árið 1934. Ágústínus kirkjufaðir segir á einum stað í De civitate Dei et contra Paganos: „Remota justitia, quia sunt regna nisi magna latrocona?“ Það myndi útleggjast sem svo að án réttlætis séu ríkin varla meira en stórkostleg glæpafélög. Ágústínus lést árið 430 en við sjáum merkingu þessara orða ljóslifandi á okkar tímum. Takist ekki að halda uppi réttlæti er valdið einfaldlega í höndum fámennra klíka sem hafa öll einkenni glæpafélaga, mafíu. Þetta birtist okkur ekki bara í einræðisríkjum heldur líka í mörgum þeirra ríkja sem kenna sig við lýðræði.

Það var merkur áfangi á þroskabraut réttarríkis að skilja ákæruvaldið frá hinu pólitíska valdi árið 1961 en þrátt fyrir það hefur því ekki nærri alltaf verið beitt „með fullu réttlæti“ og tilfæra má ýmis dæmi þar sem farið hefur verið ógætilega með ákæruvald. En eins og hinn kornungi þingmaður nefndi í sal neðri deildar Alþingis árið 1934 er fólginn í því áfellisdómur að þurfa að sæta rannsókn lögreglu að ekki sé minnst á ákæru. Grunur um refsiverðan verknað þarf því að vera vel rökstuddur áður en mál eru tekin til rannsóknar og aldrei má ákæra nema yfirgnæfandi líkur séu á sakfellingu.

Baugsmálið

Efnahagsbrotadeild Ríkislögreglustjóra hélt til inngöngu í skrifstofur Baugs hf. í Reykjavík 28. ágúst 2002 á grundvelli ásakana á hendur forsvarsmönnum félagsins um fjárdrátt. Leitað var dyrum og dyngjum á skrifstofum Baugs og meðal annars komu lögregluþjónar að peningaskáp á skrifstofu Jóns Ásgeirs Jóhannessonar, forstjóra félagsins. Hann reyndist harðlæstur og enginn þar á skrifstofunni hafði hugmynd um hvert leyninúmerið væri. Það var aðeins á vitorði þeirra feðga, Jóns Ásgeirs og Jóhannesar Jónssonar. Jóhannes var staddur norður í landi, en Jón Ásgeir í Lundúnum. Jóhannes kom suður síðar um daginn og gat lokið skápnum upp. Engin skjöl voru í honum, en þar var þó að finna eina forláta kampavínsflösku.

Húsleit og haldlagning lögreglunnar er athyglisverð frá sjónarhóli reglna um meðalhóf. Lögreglu hefði verið í lófa lagið að óska eftir viðkomandi reikningum. Ég ræddi þessi mál við Hrein Loftsson, lögmann og fyrrv. stjórnarformann Baugs, þegar ég vann að ritun bókar sem fjallaði meðal annars um þessi mál; bókar sem fékk nafnið Í liði forsætisráðherrans eða ekki? og út kom fyrir fimm árum. Hreinn sagði efnahagsbrotadeildina hafa gert þau grundvallarmistök að greina ekki á milli debet og kredit. Þrátt fyrir augljóst frumhlaup yfirvalda var ein umfangsmesta sakamálarannsókn Íslandssögunnar rétt að hefjast. Síðan eru liðnir tveir áratugir.

Og áratugir líða

Gestur Jónsson, verjandi Jóns Ásgeirs, áleit að málinu væri lokið snemmsumars 2008 eftir að ákæruvaldið hafði beðið nánast algjört skipbrot fyrir Hæstarétti. Svo að segja ekkert stóð eftir af upprunalegum sakargiftum. Í grein á Vísi á dögunum kvaðst Gestur hreinlega ekki hafa haft

„hugmyndaflug til þess að trúa því að þriðja ákæran í Baugsmálinu yrði gefin út rétt fyrir jólin 2008 og framundan væri 14 ára barátta fyrir dómstólum til viðbótar þeim 6 árum sem skjólstæðingur minn hafði þegar haft réttarstöðu sakbornings. Sú varð samt raunin.“

Hæstiréttur kvað upp þann dóm árið 2013 að Jón Ásgeir Jóhannesson og Tryggvi Jónsson, fyrrv. aðstoðarforstjóri fyrirtækisins, skyldu greiða sektir, fyrrnefndi 62 milljónir, sá síðarnefndi 32. Þá var þeim gert að sæta skilorðsbundinni refsingu. Rúmum fjórum árum síðar komst Mannréttindadómstóll Evrópu að þeirri niðurstöðu að með dómi Hæstaréttar hefði verið brotið á mannréttindum tvímenninganna. Með úrskurði Endurupptökudóms í byrjun þessa árs var hæstaréttardómurinn frá 2013 felldur úr gildi og með nýjum dómi Hæstaréttar á dögunum var hvorki Jóni Ásgeiri né Tryggva gert að greiða sekt eða sæta skilorðsbundinni refsingu. Í ofanálag var allur málskostnaður felldur á ríkissjóð.

Eftir rúmlega tuttugu ára samfelldan málarekstur í þessu „stærsta efnahagsbrotamáli Íslandssögunnar“ stendur ekkert eftir nema einn ákæruliður sem afgreiddur er með skilorðsbundnum dómi. Gestur skrifar í grein á Vísi í liðinni viku:

„Jón Ásgeir fæddist árið 1968 og var því þrítugur við upphaf þessarar sögu. Af reynslu get ég sagt að fátt reynist manni erfiðara í lífinu en að vera borinn sökum um refsivert brot. Að meðferð refsimáls á hendur einstaklingi taki meira en tuttugu ár vona ég að gerist aldrei aftur.“

Alvarlegar brotalamir

Í fyrra kom út bókin Málsvörn Jóns Ásgeirs Jóhannessonar eftir Einar Kárason en þar veltir höfundur upp áleitnum spurningum um þessi mál:

„Í rauninni er óskiljanlegt að einhver tiltekinn þjóðfélagsþegn skuli búa árum og áratugum saman við yfirlýst og ódulið hatur og fjandskap valdamestu ráðamanna í samfélaginu. Og það í réttarríki, lýðræðisþjóðfélagi.“

Baugsmálið er því miður ekki eina dæmið hérlendis þar sem farið hefur verið offari við rannsókn mála og beitingu ákæruvalds. Fjöldi fólks í okkar samfélagi hefur að ófyrirsynju setið á sakamannabekk og margir munu aldrei bíða þess bætur.

Saksóknurum er vitaskuld óheimilt að ákæra menn nema yfirgnæfandi líkur séu á sakfellingu. Þeir hafa það hlutverk að leiða hið sanna og rétta í ljós og gæta jafnt að þeim atriðum sem horfa til sýknu og sektar. Þeim ber aukinheldur að hraða meðferð mála eftir því sem kostur er á. Á þessu hefur því miður alltof oft verið misbrestur eins og ég nefndi að framan.

Að mínu viti er lærdómurinn af Baugsmálinu sá að vanda þarf betur meðferð opinbers valds og afstýra misbeitingu þess. Misbeiting valds á að vera áhyggjuefni alls almennings því meðan hún þrífst veit enginn hvenær spjótin geta beinst að þeim sjálfum.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

EyjanFastir pennar
Fyrir 2 vikum

Svarthöfði skrifar: Stígum skrefið til fulls og afnemum samkeppnina alls staðar – fyrir neytendur

Svarthöfði skrifar: Stígum skrefið til fulls og afnemum samkeppnina alls staðar – fyrir neytendur
EyjanFastir pennar
Fyrir 2 vikum

Björn Jón skrifar: Ríkisútvarpið telst trauðla menningarstofnun

Björn Jón skrifar: Ríkisútvarpið telst trauðla menningarstofnun
EyjanFastir pennar
Fyrir 3 vikum

Svarthöfði skrifar: Pólitískur gereyðingarmáttur Íhaldsins

Svarthöfði skrifar: Pólitískur gereyðingarmáttur Íhaldsins
EyjanFastir pennar
Fyrir 3 vikum

Björn Jón skrifar: Af grásleppu og „hátignarkomplexum“ VG 

Björn Jón skrifar: Af grásleppu og „hátignarkomplexum“ VG 
EyjanFastir pennar
22.06.2024

Sigmundur Ernir skrifar: Það sem helst hann varast vann …

Sigmundur Ernir skrifar: Það sem helst hann varast vann …
EyjanFastir pennar
22.06.2024

Óttar Guðmundsson skrifar: Körfuboltabullið

Óttar Guðmundsson skrifar: Körfuboltabullið
EyjanFastir pennar
16.06.2024

Björn Jón skrifar: Ríkisvaldið hefur seilst alltof langt

Björn Jón skrifar: Ríkisvaldið hefur seilst alltof langt
EyjanFastir pennar
15.06.2024

Sigmundur Ernir skrifar: Það er hægt að breyta um pólitískan kúrs

Sigmundur Ernir skrifar: Það er hægt að breyta um pólitískan kúrs