fbpx
Fimmtudagur 08.desember 2022
EyjanFastir pennar

Björn Jón skrifar: Fram og aftur um söguna

Eyjan
Sunnudaginn 23. október 2022 17:45

Forsíða Daily Mail í ársbyrjun 1973

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

 

Sá er siður í Bandaríkjum Ameríku að forseti sver embættiseið við athöfn sem fram fer hinn 20. janúar undir berum himni austanmegin við þinghúsið í Washingtonborg. Vetrarkuldar geta orðið miklir á þessum slóðum en hér áður fyrr fór innsetningarathöfnin fram 4. mars. Það var einmitt þann dag 1841 sem William Henry Harrisson var settur inn í embætti forseta, orðinn 68 ára að aldri. Þrátt fyrir rigningu og kulda neitaði Harrison að klæðast regnfrakka og þá var ræða hans óvenju löng. Fyrir bragðið fékk hann lungnabólgu og lést mánuði síðar — eftir 31 dag í embætti. Enginn Bandaríkjaforseti hefur setið svo skamma hríð á forsetastóli.

Sambærilegt met forsætisráðherra Breta átti George Canning sem lét af embætti eftir aðeins 119 daga valdasetu. Orsökin var heilablóðfall og hann andaðist skömmu síðar. Þetta var árið 1827. Met Cannings sló Elizabeth Truss sem skilaði umboðinu til Karls III konungs í vikunni sem leið eftir aðeins 44 daga í Downingstræti 10. Fáeinum dögum fyrr hafði Truss skipað Jeremy Hunt nýjan fjármálaráðherra. Hann er sonur Sir Nicholas Hunt sem var skipherra á freigátunni HMS Palliser sem veitti togaranum Milwood skjól sem staðinn hafði verið að ólöglegum veiðum suður af landinu í apríl 1963. Þá voru enn þrjú ár í að sonurinn Jeremy fæddist. Hinum æsilega eltingaleik er lýst af mikilli nákvæmni í nýútkominni bók Guðna Th. Jóhannessonar Stund milli stríða. Sögu landhelgismálsins, 1961–1971. Og úr því að ég nefni landhelgismálið þá var þess minnst 1. september sl. að hálf öld var frá því að íslensk stjórnvöld færðu fiskveiðilögsöguna út í 50 sjómílur.

 

Margs að minnast — eða ekki minnast

Þau eru fleiri merkisafmælin um þessar mundir. Hér var því spáð í byrjun árs að aldarafmæli sérstakrar gengisskráningar íslenskrar krónu í júní á þessu ári yrði ekki fagnað og það kom auðvitað á daginn enda hafði enginn óskað sér að til yrði séríslensk mynt. Breyting á skráningu gengis íslenskrar krónu gagnvart þeirri dönsku í júní 1922 var nauðvörn hagkerfis á heljarþröm. Öðru merkisafmæli verður heldur ekki fagnað í janúar á næsta ári, en þá verður liðin hálf öld frá inngöngu Breta í Efnahagsbandalagið. Vandræðagangurinn sem fylgt hefur í kjölfar atkvæðagreiðslunnar 2016 er slíkur að meira að segja mestu þjóðernisöfgamönnum í Póllandi og á Ítalíu kemur ekki lengur til hugar að yfirgefa Evrópusambandið. Snautleg endalok Truss á valdastóli eru að einhverju leyti til marks um erfiðleikana sem fylgt hafa í kjölfar útgöngunnar. Það verður þó að bíða sagnfræðinga framtíðarinnar að greina alla þræði frá atkvæðagreiðslunni.

Og talandi um sagnfræðina þá birtu tveir amerískir fræðimenn, Jane McHugh og Philip A. Mackowiak, rannsóknarniðurstöður sínar fyrir átta árum sem leiddu í ljós að það var víst ekki ofkælingin á innsetningardaginn sem leiddi til andláts Harrisons heldur var það skólpmengað neysluvatn í Hvíta húsinu sem varð til þess að forsetinn sýktist af garnaveiki sem varð honum að aldurtila. Þannig varpa fræðimenn stöðugt nýju ljósi á liðna atburði og sýn okkar á sögulega framvindu breytist.

Mikil gróska er í hérlendum sagnfræðirannsóknum eins og sjá mátti á glæsilegu Söguþingi sl. vor. Ég nefndi að framan stórvirki Guðna forseta um sögu landhelgismálsins á árunum 1961–1971. Mig langar líka að nefna annað nýútkomið sagnfræðirit sem ég las á dögunum, Sögu Keflavíkur 1949–1994, eftir Árna Daníel Júlíusson, einn okkar kunnasta sagnfræðing. En svo ég víki enn og aftur að afmælum þá voru í gær, 22. október, liðin sextíu ár frá því að Bandaríkjamenn settu hafnbann á Kúbu til að hindra að sovésk skip fengju fluttar þangað kjarnorkuflaugar og annan útbúnað. Næstu daga rambaði heimurinn á barmi kjarnorkustyrjaldar.

Sitthvað leiddu sagnfræðingar í ljós síðar, þar á meðal að Bandaríkjamenn höfðu varpað djúpsprengjum á sovéskan kafbát við hafnbannslínuna til að þvinga hann upp á yfirborðið. Skipstjóri kafbátsins hafði skipun um að skjóta ef ráðist yrði á bátinn sem búinn var kjarnorkutundurskeytum. Hann varð að ráðfæra sig fyrst við tvo aðra yfirmenn og til allrar mildi fyrir mannkynið tók annar foringjanna ekki í mál að kjarnorkuvopnum yrði beitt.

Árni Daníel segir í bók sinni um sögu Keflavíkur frá viðbrögðum íslenskra stjórnvalda við Kúbudeilunni en í kjölfar hennar var komið á fót Almannavörnum. Til að stýra þeirri stofnun var ráðinn ungur doktor í kjarnorkuverkfræði, Ágúst Valfells. Hann hófst þegar handa við ritun skýrslu að beiðni Bjarna Benediktssonar dómsmálaráðherra sem fékk heitið „Um áhrif nútímahernaðar á Íslendinga“. Skýrslan var leynileg en var lekið til fjölmiðla. Niðurstöðurnar hlutu að vekja óhug en gera mætti ráð fyrir því að í kjarnorkustyrjöld yrði varnarstöðin á Keflavíkurflugvelli fyrir eldflaugaárás með kjarnorkusprengjum. Í kjölfarið gæti svo farið að allt að 60–70% landsmanna létu lífið enda ofviða að verjast geislun frá úrfalli.

 

Mesta ógn mannkyns

Andstæðingar Varnarliðsins og veru Íslands í Atlantshafsbandalaginu notfærðu sér skýrsluna óspart í áróðri sínum; Ísland væri skotmark í styrjöld vegna varnarstöðvarinnar. Morgunblaðið benti á móti á að dvöl Varnarliðsins hefði ekki úrslitaáhrif á það hvort Sovétmenn vörpuðu sprengju á Íslandi í kjarnorkustríði. Lega landsins réði mestu um slíka ákvörðun Sovétmanna. Varnir bægðu hættunni frá og væru þær ekki til staðar yrði sovéskum dátum greið leið til hernáms.

Loftvarnarflaturnar eru fyrir löngu þagnaðar, engin sprengjuskýli til taks og á heimasíðu Almannavarna má hvergi finna leiðbeiningar um hvernig eigi að bregðast við kjarnorkuárás. Joe Biden Bandaríkjaforseti varaði þó við því á dögunum að hættan á notkun kjarnorkuvopna vegna Úkraínustríðsins væri orðin meiri en var í Kúbudeilunni. Og forstjóri bandarísku leyniþjónustunnar, William J. Burns, hefur komist svo að orði að frekari áföll og hugsanleg örvænting geti orðið til þess að Rússar beiti skammdrægum kjarnorkuvopnum í Úkraínu. Hilmar Þór Hilmarsson prófessor gerði þessi mál að umtalsefni í grein á Stundinni sl. vor en síðan þá hafa stríðsátökin stigmagnast. Hilmar Þór gat þess meðal annars að alls óvíst sé hver viðbrögð Bandaríkjanna og bandamanna þeirra í Atlantshafsbandalaginu yrðu og hvort stórstyrjöld brytist út en eins og allir vita þá verður enginn sigurvegari í allsherjarkjarnorkustríði.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

EyjanFastir pennar
11.09.2022

Björn Jón skrifar: Skammt stórra högga á milli

Björn Jón skrifar: Skammt stórra högga á milli
EyjanFastir pennar
04.09.2022

Björn Jón skrifar: Fjórum ráðherrum ofaukið

Björn Jón skrifar: Fjórum ráðherrum ofaukið
EyjanFastir pennar
28.08.2022

Björn Jón skrifar: Tilræðið við Rushdie og óttinn við að tjá sig

Björn Jón skrifar: Tilræðið við Rushdie og óttinn við að tjá sig
EyjanFastir pennar
27.08.2022
Hjálpum Ara!
EyjanFastir pennar
14.08.2022

Björn Jón skrifar: Frá Maraþonsvöllum til Taívan

Björn Jón skrifar: Frá Maraþonsvöllum til Taívan
EyjanFastir pennar
08.08.2022

Óbærileg spenna á Ólympíumótinu

Óbærileg spenna á Ólympíumótinu
EyjanFastir pennar
18.07.2022

Björn Jón skrifar: Fjörmeiri rökræðu, takk!

Björn Jón skrifar: Fjörmeiri rökræðu, takk!
Fastir pennarFókus
14.07.2022

Poppsálin: Er BDSM kynhneigð?

Poppsálin: Er BDSM kynhneigð?
Fastir pennarFókus
23.06.2022

Var Charles Manson útsjónarsamur költ leiðtogi eða bara örlítið sjarmerandi óþokki?

Var Charles Manson útsjónarsamur költ leiðtogi eða bara örlítið sjarmerandi óþokki?
Fastir pennarFókus
20.06.2022

Poppsálin: Gerir ástarsorgin okkur klikkuð?

Poppsálin: Gerir ástarsorgin okkur klikkuð?