Svona hefst leiðari Fréttablaðsins í dag en hann ritar Kolbrún Bergþórsdóttir og ber hann yfirskriftina „Vanstilling“.
Hún segir því næst að það blasi við að í Íslandsbankamálinu hafi sumu verið klúðrað en það jafngildi ekki siðleysi, spillingu og svikum við þjóðina, þótt margir haldi því fram. „Það hentar stjórnarandstöðunni til dæmis afskaplega vel að nota sem sterkust orð um söluna og sá fræjum tortryggni meðal almennings,“ segir hún.
Því næst víkur hún að mótmælunum á Austurvelli: „Í mótmælum á Austurvelli sjást margir þeir sem höfðu sig hvað mest í frammi í skrílslátum á þessum sama stað eftir bankahrun. Það hvarflar jafnvel að manni að þetta fólk sakni tímans þegar það gat æpt sem hæst og barið í potta og pönnur og sé nú að reyna að endurskapa hann. Þótt slatti af fólki sé á Austurvelli þá eru mótmælin nú ekki verulega fjölmenn. Það hljóta að vera umtalsverð vonbrigði fyrir æsingafólkið.“
Hún segir síðan að flestir þeirra pistlahöfunda sem hafa látið þyngstu orðin vegna málsins falla séu yfirlýstir andstæðingar Sjálfstæðisflokksins. Þeir kalli ágæta ríkisstjórn, undir forystu framúrskarandi forsætisráðherra, öllum illum nöfnum. „Þar eru sem sagt á ferð „the usual suspects“,“ segir hún.
Í lokin segir hún að bæði sé sjálfsagt og eðlilegt að farið sé ofan í saumana á sölunni á Íslandsbanka en þeir sem það geri verði að búa yfir yfirvegun og megi ekki lifa í stöðugri vanstillingu.