fbpx
Föstudagur 19.apríl 2024
Eyjan

Er leikskólinn þjónustustofnun eða menntastofnun?

Ritstjórn DV
Mánudaginn 20. september 2021 11:38

Berglind Svava Arngrímsdóttir

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Berglind Svava Arngrímsdóttir skrifar:

Frá því að ég hóf störf sem leikskólakennari hefur starfsumhverfi mitt breyst töluvert og hvað mest síðustu 2 árin.

Ég er menntaður leikskólakennari með yfir 10 ára starfsreynslu og hef alltaf haft mikinn metnað og ánægju af starfi mínu, en því miður eru nú starfsaðstæður að breytast til hins verra, og finnst mér og mörgum samstarfsmönnum mínum að lítið sé hlustað á það sem við höfum að segja.

Ég veit ekki alveg hvar ég á að byrja en til að byrja einhverstaðar þá hafa starfsaðstæður hjá starfsfólki leikskóla verið mjög erfiðar í heimsfaraldrinum sem hefur verið yfirvofandi. Oft hefur þurft að hólfaskipta og breyta vinnuaðstæðum með litlum fyrirvara með tilheyrandi auknu álagi.

Síðan í byrjun árs 2020 tóku í gildi lög sem kveða á um að leyfisbréf kennara geti gilt þvert á skólastig. Þá fyrst byrjaði flótti leikskólakennara yfir í grunnskólann. Þar sem margir sækjast í betra starfsumhverfi, þar sem undirbúningstími er virtur, vinnutími skipulagðari og betri tölvukostur ásamt fleiru. Því til viðbótar er vetrarfrí, jólafrí, páskafrí og gott sumarfrí í grunnskólanum, sem hentar vel fyrir fjölskyldufólk sem þarf annars að púsla þessum dögum. Þetta er auðvitað viss kostur sem grunnskólarnir hafa fram yfir leikskólana sem yfirleitt eru opnir á þessum tímum.

Við þessar breytingar á leyfisbréfum kennara voru 298 leikskólakennarar sem færðu sig yfir á grunnskólastigið á móti 97 grunnskólakennurum sem færðu sig yfir á leikskólastigið á síðustu 2.árum. Strax þarna erum við búin að missa 201 leikskólakennara á önnur mið á landsvísu, sem er að mínu mati sorgleg þróun. Sérstaklega í ljósi þess að aldrei hefur verið auðvelt að fullmanna leikskóla svo ég viti til.

Í nýjustu samningum leikskólakennara var síðan reynt að gera starfsumhverfið betra með auknum undirbúningstíma, sem er að mínu mati gott og blessað á meðan aðrir starfsmenn eru ráðnir inn til að koma inn á deildar í þennan tíma, sem er ekki alltaf gert.

Á meðan á þessu stendur kemur síðan umræðan um styttingu vinnuvikunnar inní þetta. Sem var kynnt fyrir okkur sem þróunarverkefni sem hefði gengið svo smurt fyrir sig að það væri nú lítið mál að allir myndu ná að taka fulla styttingu án þess að þjónusta yrða skert eða kæmi niður á börnunum, en á móti þyrftum við að selja kaffitímana okkar og fá í staðinn 36 stunda vinnuviku.

Allir sem hafa starfað á leikskóla vita að það munar um hvern starfsmann inn á deild. Við erum ekki að vinna pappírsvinnu. Við vinnum með börnum sem ekki er hægt að leggja til hliðar eða geyma til næsta dags þegar það er mannekla. Á mínum vinnustað eru oftast ca 4 starfsmenn á hverri deild. Ef allir starfsmenn tækju síðan fulla styttingu eru þetta 16 tímar á viku á hverri deild sem er undirmannað. Það er fyrir utan almenn veikindi og frí og annað, sem hafa verið töluverð, þar sem starfsfólk á inni frí og talsvert hefur verið um veikindi. Að vera 3 kennarar með 24 börn á aldrinum 3-5 ára er ekki auðvelt starf, þótt margir virðist halda það.

Á mínum vinnustað tókum við ákvörðun um að selja ekki kaffitímana okkar og taka lágmarksstyttingu því við settum hagsmuni barnanna í forgang. Það er ekki auðvelt að labba út af deild í sína styttingu vitandi að það vantar fólk.

En bærinn segir að stytting vinnuvikunnar megi alls ekki kosta krónu né skerða þjónustu, auk þess sem þrýstingur er kominn á alla á ná að taka fulla styttingu. Þarna hlýtur bærinn að eiga við þjónustu við foreldra en ekki börnin. Þar sem oft er skert starfssemi vegna manneklu og náum við ekki að halda uppi því starfi sem við viljum með börnunum þegar við erum undirmönnuð dag eftir dag og starfsálag mikið. Samt sem áður eru gerðar auknar kröfur á okkur starfsfólkið að fara eftir skólanámskrá og ná að uppfylla þær kröfur sem settar eru á okkur sem fyrsta skólastigið.

Hafnarfjarðarbær hefur síðustu árin gefið kost á því að þeir starfsmenn sem vilja mennta sig sem leikskólakennarar geti fengið samning við bæinn, sem kemur til móts við þarfir þeirra þegar þeir þurfa að mæta í staðlotur eða sinna vettvangsnámi. Þetta er auðvitað frábært framtak, alls ekki misskilja mig. Hins vegar eru þetta í heildina 36 dagar á ári og 4 klst á viku sem hver nemi á rétt á, en á meðan ætlar bærinn ekki að fá fólk í staðinn til að leysa af. Á mörgum leikskólum hafnarfjarðar eru fleiri en einn nemi, svo á þessum tímum þurfum við enn og aftur að hlaupa hraðar og skerða þjónustu við börnin.

Í nýjustu samningum eiga nú allir starfsmenn 30 daga í sumarfrí sem á að taka á vissu tímabili, sem er auðvitað frábært. Börn á leikskóla eiga síðan að taka 4 vikur samfleytt í frí á þessu tímabili.

Ég vinn hjá Hafnarfjarðarbæ sem tók þá ákvörðun nú í upphafi þessa árs að hafa opið allt sumarið en ekki lokað í 4 vikur eins og hefur verið síðustu ár, þrátt fyrir að meirihluti starfsfólks, eða um 400 manns, leikskóla bæjarins hafi mótmælt harðlega með undirskriftarlista. Auk þess sem leikskólastjórar mótmæltu þessari opnun. Bærinn hlustaði einfaldlega ekki. Aftur þarna misstum við starfsfólk. Fólk með mikla starfsreynslu og metnað fyrir starfi sínu gafst upp og bærinn situr nú eftir með leikskóla sem eru ekki fullmannaðir og starfsfólk sem er mjög margt á síðasta orkudropanum.

Sveitafélög í kringum okkur líkt og Reykjanesbær og fleiri tóku þá ákvörðun að loka leikskólanum í 5 vikur yfir sumartíman til að koma til móts við sitt starfsfólk og hafa þá, líkt og grunnskólinn, upphaf og endi á skólaárinu.

Skilaboðin sem við fáum eru að við þurfum nú bara að hlaupa hraðar. Púsla betur saman og láta þetta ganga upp. Raunin er sú að leikskóli sem er alltaf undirmannaður er ekkert annað en gæsluvöllur.

Staðreyndin er hins vegar þessi. Eftir allt sem á undan er gengið er orkan búin hjá mörgum starfsmönnum. Flestir leikskólar bæjarfélagsins auglýsa endurtekið eftir starfsfólki, en illa gengur að manna leikskólana, og það er borin von að fá menntaða kennara til starfa.

Margir eru að hugsa um að flytja sig yfir í önnur störf því það er ekki hlustað á það sem við erum að segja.

Virðingin fyrir starfsfólki leikskóla bæjarins er orðin mjög lítil og fáum við oft að heyra að það sé nú ekkert mál að manna þessar stöður.

Afhverju er þá ekki hægt að manna þessar stöður?

Afhverju er verið að bíða eftir að spilaborgin hrynji?

Er bærinn betur settur þá? Þegar stór hluti starfsfólk er kominn í veikindaleyfi vegna álags eða farið í önnur störf.

Hvernig ætlar bærinn þá að koma í veg fyrir skerta þjónustu?

Höfundur er leikskólakennari í Hafnarfirði.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt