fbpx
Föstudagur 24.september 2021
Eyjan

Magnús beindi spjótum sínum að Svandísi í Silfrinu – „Þetta er held ég helsta meinsemd íslenskra stjórnmála“

Máni Snær Þorláksson
Sunnudaginn 12. september 2021 13:00

Samsett mynd - Skjáskot: RÚV

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Kosningarnar nálgast óðfluga og stilltu því flestir stjórnmálaspekúlantar landsins á Silfrið á RÚV í morgun til að fylgjast með umræðunum. Í þætti dagsins voru Svandís Svavarsdóttir frá Vinstri grænum, Guðmundur Franklín Jónsson frá Frjálslynda lýðræðisflokknum, Ásmundur Einar Daðason frá Framsóknarflokki, Magnús Davíð Norðdahl frá Pírötum, Fjóla Hrund Björnsdóttir frá Miðflokki, og Ásthildur Lóa Þórsdóttir frá Flokki fólksins.

Undirbúningurinn fyrir þessar kosningar hefur verið frábrugðinn fyrri kosningaundirbúningum að því leyti til að það er ekki neitt eitt aðalmál sem er helst í umræðunni. Farið hefur því verið út um hvippinn og hvappinn í kosningaþáttum að undanförnu og var engin undantekning gerð á því í Silfrinu í dag.

Nokkur atriði voru þau í brennidepli og má þar helst nefna heilbrigðiskerfið, spillingu, skattamál, flóttamannamál og umhverfismál. Athygli vakti að Magnús beitti spjótum sínum nokkrum sinnum að Svandísi Svavarsdóttur og flokki hennar, Vinstri grænum, í þættinum. Var það þá helst gert vegna stjórnarsamstarfsins og bágri stöðu innan heilbrigðiskerfisins.

Beitti spjótunum að Svandísi og VG

Þegar umræðan um stöðuna innan heilbrigðiskerfisins stóð sem hæst í þættinum benti Svandís á að það mætti ekki tala heilbrigðiskerfið hér svona mikið niður. „Heilbrigðiskerfið okkar hefur sýnt styrkleika sína í Covid. Við megum ekki tala eins og íslenska heilbrigðiskerfið sé vont, lélegt og götótt kerfi,“ sagði Svandís. „Líka vegna þess að við erum að tala um starfsfólkið okkar, að við séum ekki að tala þetta fólk niður,“ bætti hún svo við og fleiri frambjóðendur tóku undir með því.

Magnús vildi þó ekki leyfa Svandísi að breyta umræðunni á þennan hátt. „Við hjá Pírötum viljum að verk gangi orðum framar og það er vissulega mikilvægt að hrósa okkar góða starfsfólki eins og allir hér vilja gera. En það eru hins vegar verkin sem tala. Þetta starfsfólk talar um það að starfsskilyrði sín eru ekki nógu góð og við því þarf að bregðast,“ sagði hann og tók svo upp næsta vopn í vopnabúrinu, stjórnarsamstarfið, en hann talaði um það í sambandi við spillinguna sem rætt hafði verið um fyrr í þættinum.

„Varðandi spillingarmálin í þessu samhengi, að verk gangi orðum framar, þá auðvitað er VG í stjórn með Sjálfstæðisflokknum. Það er búið að leggja niður embætti Skattrannsóknarstjóra, til dæmis, það er verið að minnka eftirlitið þar sem það helst ætti að vera. Þessu þarf að breyta, verk þurfa að ganga orðum framar í stjórnmálum. Það á við um VG eins og aðra flokka.“

Ásmundur kemur Svandísi til hjálpar

Síðar í þættinum var rætt um skattamál og hinn umtalaða stóreignarstatt. „Varðandi skattkerfið sem slíkt þá viljum við skattleggja þá sem breiðust hafa bökin. Við erum hlynntir stóreignarskatti, eins og hefur nú verið til umræðu. En þetta ber allt að sama brunni finnst mér, það fer ekki saman hljóð og mynd,“ segir Magnús þegar umræðan berst þangað.

Fyrr í þættinum hafði Svandís talað um að nýta skattkerfið, ekki bara sem tekjuöflunartæki heldur einnig sem leið til að jafna kjör. Magnús tekur upp þann þráð og svarar honum. „Nú talar VG um það að það þurfi að nýta skattkerfið til að búa til meiri jöfnuð en á sama tíma vilja þau ekki taka upp stóreignarskatt. Þetta er held ég helsta meinsemd íslenskra stjórnmála, að verk og orð fara ekki saman. Við getum auðveldlega nýtt skattkerfið til þess að auka hér jöfnuð, það þarf bara að gera það.“

Svandís svarar Magnúsi þá fullum hálsi. „Ég heyri að Magnús hefur lesið Morgunblaðið sem er ákveðið afl í íslenskum stjórnmálum og hefur ákveðnar skoðanir og ákveðinn vilja til að láta hluti gerast í pólitík. Þannig þegar Morgunblaðið hefur eftir Katrínu Jakobsdóttur þá mæli ég með því að hlusta á Katrínu Jakobsdóttur frekar heldur en það sem Morgunblaðið segir að hún hafi sagt,“ segir hún og heldur svo áfram.

„Við höfum talað fyrir þrepaskiptum fjármagnstekjuskatti og að það sé næsta skref. Við höfum ekki slegið stóreignarskatt út af borðinu, við höfum bara sagt að það væri eitthvað sem væri líka partur af þessari heildarmynd. En þrepaskiptur fjármagnstekjuskattur væri raunhæf leið sem við viljum fara. Þannig ég bið um það svona almennt að Katrín tali fyrir sig en Morgunblaðið kannski síður fyrir hana.“

Magnús svarar þá Katrínu og segir að verkin þurfi að tala. „Það skiptir minnsta máli hvað hver segir hvar og á hvaða vettvangi, það sem skiptir mestu máli er hvað fólk gerir. Nú hafiði setið í stjórn í fjögur ár, ekki satt? Stóreignarskatti hefur ekki verið komið á, þið hafið ekki ráðist í breytingar til þess að nýta skattkerfið til þess að auka hér jöfnuð.“

Svandís bendir þá á að ríkisstjórnin hafi komið með þrepaskipt tekjuskattskerfi. Ásmundur kemur þá Svandísi til hjálpar og útskýrir nánar hvað ríkisstjórnin gerði. „Það var hluti af lífskjarasamningum að koma sérstöku þrepi inn í tekjuskattskerfið til þess að létta sérstaklega á tekjulægri hópum. En það er alveg rétt að það var ekki sett hátekjuskattsþrep en það er ekki rétt þegar menn tala um að það hafi ekki verið aukin þrepaskipting í íslensku skattkerfi á kjörtímabilinu.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

EyjanFastir pennar
Fyrir 4 dögum

Forneskjulegar hugmyndir í kosningabaráttu

Forneskjulegar hugmyndir í kosningabaráttu
Eyjan
Fyrir 4 dögum

Titringur milli Miðflokks og Framsóknar – Guðna ofbýður árás Tómasar á sig

Titringur milli Miðflokks og Framsóknar – Guðna ofbýður árás Tómasar á sig