fbpx
Föstudagur 26.apríl 2024
Eyjan

Lofgjörð sendiherrans um kínverska kommúnistaflokkinn – Gleymdist ekki eitthvað?

Kristján Kristjánsson
Þriðjudaginn 6. júlí 2021 07:50

Jin Zhijian, sendiherra Kína á Íslandi

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Jin Zhijian, sendiherra Kína á Íslandi, skrifar grein í Fréttablaðið í dag undir fyrirsögninni „Kommúnistaflokkur Kína fagnar aldarafmæli“. Óhætt er að segja að hér sé á ferð lofgjörð um kínverska kommúnistaflokkinn og verk hans. Lestur greinarinnar vekur hins vegar upp spurningar um söguskoðun sendiherrans og hvort ekki vanti eitthvað í grein hans. Til dæmis er ekkert minnst á mannréttindabrot, fjöldamorðin á Torgi hins himneska friðar, aðgerðir gegn lýðræðissinnum í Hong Kong, ágengni Kínverja gagnvart nágrannaþjóðum né meðferðinni á minnihlutahópi Úrígúa.

„Þann 1. júlí 2021 varð Kommúnistaflokkur Kína (CPC) 100 ára. Til að öðlast betri skilning á Kína, er nauðsynlegt að öðlast betri skilning á Kommúnistaflokki Kína. Ég vonast til að þessi grein geti hjálpað til við að auka heildstæðan og hlutlausan skilning á Kommúnistaflokki Kína, sem er stærsti ráðandi stjórnmálaflokkur í heimi, með fleiri en 91,9 milljón meðlimi. Kommúnistaflokkur Kína er flokkur sem hefur hag allrar þjóðarinnar í huga og nýtur stuðnings þjóðarinnar allrar,“ segir sendiherrann í upphafi greinar sinnar og bætir við að flokkurinn hafi alltaf starfað fyrir grundvallarhag þjóðarinnar allrar. En síðar í greininni kemst sendiherrann í mótsögn við sjálfan sig þegar hann skrifar: „Ýmsar skoðanakannanir, framkvæmdar af vestrænum rannsóknastofnunum hafa sýnt að kínverska ríkisstjórnin og kommúnistaflokkur Kína njóta stuðnings meira en 90% þjóðarinnar.“ Ef svo er þá eru um 10% þjóðarinnar sem styðja flokkinn ekki en það eru þá um 100 til 140 milljónir manna. Þessar milljónir eiga sér ekki pólitískan samastað því engin andstaða er leyfð við kommúnistaflokkinn og hart er tekið á þeim sem leyfa sér að gagnrýna hann. Ekki er minnst á það í greininni hvaða stjórnmálaflokk þetta fólk styður eða hver réttindi þess til stjórnmálastarfs eru.

Sendiherrann heldur síðan áfram að dásama flokkinn og árangur hans við uppbyggingu Kína. Ekki er hægt að neita því að Kínverjum hefur tekist ágætlega upp á efnahagssviðinu en hvað varðar mannréttindi og samskipti við önnur ríki er árangur Kínverja ekki eins góður en það nefnir sendiherrann ekki í grein sinni.

„Kommúnistaflokkur Kína er flokkur sem heldur sig við sannleikann, býr yfir þrautseigju og hefur náð að þróast og haldast lifandi og opinn. Flokkurinn hefur sterka sýn og grunngildi, og hefur tekist vel að aðlaga marxíska hugmyndafræði að kínverskum veruleika. Þar sem flokkurinn hefur verið opinn fyrir þróun í hugmyndafræðinni, hefur flokknum tekist að þróa hugmyndafræði, viðmið og stefnur með eigin áherslum. Kommúnistaflokkur Kína hefur ötullega unnið að því að læra og nýta sér það sem hefur gengið vel hjá öðrum þjóðum, og viðhaldið þrótti sínum og eigin siðferðisviðmiðum, og er ætíð í fylkingarbrjósti nýrra strauma nútímans. Flokkurinn leggur mikla áherslu á að auka hæfni sína, hefur strangan aga, þéttofið skipulag og skilvirkt gangverk, auk þess að hafa styrk til að leiða, sameina, skipuleggja og framkvæma. Þar að auki tekst flokkurinn ætíð á við eigin vandamál og mistök, og hefur hugrekki til að endurbæta sjálfan sig og hæfni til að leiðrétta eigin mistök. Kommúnistaflokkur Kína hefur stöðugt unnið að umbótum í eigin starfi og hefur staðið gegn spillingu á öllum stigum,“ segir sendiherrann. Ekki nefnir hann einu orði fjöldamorðin á Torgi hins himneska friðar þar sem allt að 10.000 lýðræðissinnar voru myrtir af hernum, málefni Úrígúa þessa dagana en mörg erlend ríki og samtök halda því fram að nú standi í raun yfir þjóðarmorð á þessum minnihlutahópi múslíma. Hann nefnir heldur ekki einu orði þá meðferð sem andstæðingar og gagnrýnendur kommúnistastjórnarinnar hljóta oft, fangelsisdóma og útskúfun.

Frá mótmælum á Torgi hins himneska friðar 04.06.1989. Mynd:Getty

Því næst víkur sendiherrann að utanríkismálum: „Kommúnistaflokkur Kína er flokkur sem talar fyrir friði og framþróun á heimsvísu  Flokkurinn hefur ætíð unnið eftir sjálfstæðri utanríkisstefnu sem byggir á friði, og hefur talað fyrir því að öll ríki séu jafn rétthá, burtséð frá stærð, styrk og ríkidæmi. Þar að auki hefur flokkurinn staðið vörð um frið á jörðu og stöðugleika, alþjóðlegt réttlæti og jafnrétti, og heldur sig við friðsamlega framþróun og hefur aldrei sóst eftir erlendum yfirráðum. Á þeim rúmlega 70 árum sem liðin eru frá stofnun Alþýðulýðveldisins Kína, hefur Kína aldrei hafið stríð eða ásælst svo mikið sem þumlung af erlendu ríki. Kína er eina landið sem hefur það í stjórnarskrá sinni að stuðla að friðsamlegri framþróun. Kína hefur með friðsamlegum samningaviðræðum ákvarðað og markað landamæri við 12 af 14 nágrannalöndum sínum og hefur heitið að leita eftir samkomulagi með samningaviðræðum varðandi yfirstandandi deilur um landsvæði, hafréttindi og hagsmuni,“ segir hann. Ekki nefnir hann málefni Hong Kong eða Tíbet einu orði hér né Taívan. Óhætt er að segja að Kínverjar séu herskáir í garð Taívan þessa dagana og hafa þeir hótað að beita hervaldi til að ná eyjunni undir sín yfirráð. Rétt er að hafa í huga að kommúnistastjórnin heldur því fram að Taívan sé óaðskiljanlegur hluti af Kína en því eru íbúar Taívan ekki sammála og hafa engan áhuga á að lenda undir stjórn kommúnistastjórnarinnar í Kína. Sama á við um Tíbet en íbúar landsins og þeir sem eru í útlegð þaðan eru líklega ekki allir sama sinnis og líta á Kínverja sem hernámsþjóð. Þá hafa Kínverjar farið mikinn í Suður-Kínahafi sem þeir telja sig eiga yfirráðarétt yfir og eru uppi á kant við margar nágrannaþjóðir sínar vegna þessa. Einnig hafa þeir verið ágengir við japönsk yfirráðasvæði sem þeir telja sig eiga tilkall til.

Sendiherrann víkur heldur ekki einu orði að ýmsum aðgerðum Kínverja á utanríkissviðinu varðandi mál sem fara fyrir brjóstið á þeim. Má þar nefna viðbrögð kommúnistastjórnarinnar við því þegar rithöfundurinn og mannréttindasinnin Liu Xiaobo hlaut friðarverðlaun Nóbels 2010. Því fengu Norðmenn að kenna á. Kínverjar fordæmdu Nóbelsverðlaunanefndina, ritskoðuðu fréttir af verðlaununum og bönnuðu stærri viðskipti á milli landanna. Þetta er aðferð sem Kínverjar hafa oft beitt, efnahagsþvinganir gagnvart ríkjum sem segja eða gera eitthvað sem þeim hugnast ekki. Nú síðast eru það Ástralar sem hafa orðið fyrir barðinu á þeim vegna kröfu þeirra um að uppruni kórónuveirunnar verði rannsakaður ofan í kjölinn.

Morgunblaðið birtir í dag grein eftir Chris Pattern, sem var síðasti breski landsstjórinn í Hong Kong, um utanríkismál Kínverja undir fyrirsögninni: „Einstefna Kínverja í utanríkismálum.“  Hann gagnrýnir þar framferði Kínverja á alþjóðavettvangi og segir í niðurlagi greinarinnar: „Heilbrigt samband frjálsra samfélaga við Kína er ekki eitthvað sem Kínverski kommúnistaflokkurinn útdeilir. Það er eitthvað sem Kína þarf að ávinna sér með því að virða þær reglur og venjur sem gilda í alþjóðasamskiptum og viðurkenna fullveldi annarra ríkja í stað þess að tryggja aðeins sitt eigið.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Eyjan
Fyrir 4 dögum

Halla Hrund stóreykur fylgi sitt – Mælist með meira fylgi en Jón Gnarr

Halla Hrund stóreykur fylgi sitt – Mælist með meira fylgi en Jón Gnarr
EyjanFastir pennar
Fyrir 4 dögum

Björn Jón skrifar: Ótrúlegur árangur íslenskra tæknifyrirtækja

Björn Jón skrifar: Ótrúlegur árangur íslenskra tæknifyrirtækja
Eyjan
Fyrir 5 dögum

Framsókn baunar á Samfylkinguna sem undirbýr að taka við stjórnartaumunum

Framsókn baunar á Samfylkinguna sem undirbýr að taka við stjórnartaumunum
Eyjan
Fyrir 5 dögum

Segja tillögu Einars fela í sér „afarkjör“ og hafa verið laumað að

Segja tillögu Einars fela í sér „afarkjör“ og hafa verið laumað að
Eyjan
Fyrir 1 viku

Sigurjón skammar smákóngana í stjórnsýslunni – „Það vita allir í kerfinu af þessari fyrirstöðu en aldrei skal hróflað við Smákónginum“

Sigurjón skammar smákóngana í stjórnsýslunni – „Það vita allir í kerfinu af þessari fyrirstöðu en aldrei skal hróflað við Smákónginum“
Eyjan
Fyrir 1 viku

Lindarhvoll: Leyndarhyggjan enn við lýði – svör berast seint, illa eða ekki

Lindarhvoll: Leyndarhyggjan enn við lýði – svör berast seint, illa eða ekki