fbpx
Fimmtudagur 24.júní 2021
Eyjan

Allt í háaloft milli Hannesar Hólmsteins og Sveins Andra: „Þannig haga sér menn lítilla sanda og sæva; þröngsýnir aftaníossar“

Ritstjórn DV
Sunnudaginn 6. júní 2021 19:13

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Unnendur rætinna rifrilda á samfélagsmiðlum fá yfirleitt mikið fyrir sinn snúð á Facebookarsíðu lögfræðingsins Sveins Andra Sveinssonar. Sveinn Andri olli slíku áhugafólki ekki vonbrigðum þegar hann birti greiningu sína á nýafstöðnu prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík. Sveinn Andri var á árum áður innmúraður Sjálfstæðismaður en yfirgaf svo flokkinn og leitaði að grænni grösum innan Viðreisnar.

Sagði Bjarna Ben búin að vera

Greina mátti ákveðna þórðargleði í greiningu Sveins Andra sem taldi að grasrót Sjálfstæðisflokksins hefði haft betur gegn flokkseigandaklíku Valhallar og Morgunblaðsins og að pólitískir dagar Bjarna Benediktssonar væru taldir. Greining Sveins Andra hljóðaði á þessa leið.

Grasrót Sjálfstæðisflokksins hafði betur gegn flokkseigendaklíkunni í Valhöll og Morgunblaðsvaldinu í nýliðnu prófkjöri. Niðurstaðan er högg fyrir formann flokksins Bjarna Ben sem unnið hefur leynt og ljóst gegn Guðlaugi Þór. Ekki aðeins stóð Guðlaugur af sér þessa atlögu, þar sem ungum og efnilegum stjórnmálamanni, Áslaugu Örnu, var ýtt út á foraðið gegn honum, heldur var hans nánasti samstarfsmaður Diljá Mist Einarsdóttir sigurvegari prófkjörsins.
Eigendur Morgunblaðsins ættu að einbeita sér alfarið að blaðaútgáfu og hætta afskiptum af prófkjörum og Valhöll ætti að huga að breytingum í stjórnunarstöðum. Stjórnmálasól Bjarna Ben er hniginn til viðar. Þetta var pólitísk greining dagsins frá outsider með insider innsýn.

Feginn að vera laus við Svein Andra

Skrif Sveins Andra fara iðulega öfugt ofan í Hannes Hólmsteinn Gissurarson, prófessor í stjórnmálafræði í Háskóla Íslands, og engin undantekning varð á því í þetta skiptið. Hann snerist þegar til varna og hæddist að lögfræðingnum:
Það er alltaf jafnleiðinlegur tónn í því, sem þú skrifar um Sjálfstæðisflokkinn. Hin svokallaða greining þín á úrslitum prófkjörsins, sem tókst hið besta, er út í bláinn og sett saman af illum hug. Ég studdi til dæmis Guðlaug Þór í fyrsta sæti og Áslaugu Örnu í annað sæti og Bjarna Benediktsson sem formann. Er ég þá ekki í grasrótinni? Af hverju hættir þú ekki að skipta þér af Sjálfstæðisflokknum? Við vorum fegin að vera laus við þig og vildum gjarnan, að þú einbeittir þér að því, sem þú hefur vanrækt síðustu árin, og það er að gæta hagsmuna skjólstæðinga þinna.

Lúði, aftaníossi og naðra

 

Sá vægir sem vitið hefur meira er ekki lífspeki sem Sveinn Andri hefur tileinkað sér. Hann gjörsamlega trompaðist og brást við snjókasti prófessorsins með því að setja af stað snjóflóð í hefndarskyni. Í stuttu tilsvari náði hann að kalla Hannes lúða, aftaníossa og nöðru. Geri aðrir betur.

Hannes Hólmsteinn Gissurarson þú ert svo mikill lúði að það hálfa væri nóg. Þér er algerlega fyrirmunað að taka þátt í nokkurri umræðu án þess að skensa viðkomandi. Þannig haga sér menn lítilla sanda og sæva; þröngsýnir aftaníossar. Ég er t.a.m. í vinnunni núna á sunnudegi að sinna verki fyrir skjólstæðing minn. Ólíkt þér þarf ég að vinna fyrir laununum mínum. Ég er ekki svo heppinn að vera áskrifandi að tékka frá skattgreiðendum eins og þú, án nokkurs vinnuframlags; maðurinn sem predikar hvað mest um nauðsyn þess að fara vel með skattpeninga. Greining mín er barasta hárrétt og það er eitthvað sem þér svíður. Ég er ekki í þessu yfirborðshjali eins og þú heldur segi bara hlutina eins og þeir eru. Og gjamm í þér eflir mig bara í því að pósta athugasemdum mínum um málefni Sjálfstæðisflokksins, sem vel að merkja klofnaði á vakt Bjarna Ben og hefur verið í örfylgi síðan. Ég efast ekki um að þú ert feginn að ég fór úr Sjálfstæðisflokknum; sjálfur er ég Guðs lifandi feginn að vera ekki sama flokki og þú, enda þrífst ekkert í sambýli við nöðrur.

Óhætt er að segja að viðbrögðin við þessum stutta stormi í ginglasi af verið dræm. „Sveinn Andri Sveinsson. Þú hefur greinilega ekki sótt kirkju í morgun,“ segir einn vinur lögfræðingsins og öðrum er misboðið. „Strákar, strákar: Eruð þið ekki fullorðnir menn? ..báðir tveir“.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Eyjan
Fyrir 1 viku

Læknar senda Lilju Alfreðs í tímabundið veikindaleyfi

Læknar senda Lilju Alfreðs í tímabundið veikindaleyfi
EyjanFastir pennar
Fyrir 1 viku

„Kerfið ver sig með kjafti og klóm“

„Kerfið ver sig með kjafti og klóm“