fbpx
Fimmtudagur 21.október 2021
EyjanFastir pennar

Að kjósa afnám lýðræðis og mannréttinda

Ritstjórn Eyjunnar
Mánudaginn 5. apríl 2021 22:00

Ráðherrar með hulin vit austur á fjörðum. MYND/VALLI

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Þrátt fyrir afar fá kórónaveirusmit verður þess ekki vart að stjórnvöld hyggist skila borgurunum ýmsum mannréttindum í bráð. Mikill stuðningur við sífellt harðari aðgerðir sýnir mikilvægi borgaralegra réttinda.

Í maímánuði á síðasta ári fékk ég Jón Bjarka Bentsson, aðalhagfræðing Íslandsbanka, til mín í spjall í þáttinn Sögu & samfélag á Hringbraut. Umræðuefnið var efnahagsleg áhrif hinna hörðu sóttvarnaaðgerða sem beitt hafði verið þá um vorið og hvernig efnahagslægðin liti út í samanburði við fyrri kreppur. Tal okkar barst meðal annars að því sem þá var kallað möguleg „síðari bylgja faraldursins“ en Jón Bjarki sagði um það mál: „Ef sýkingar gjósa upp núna þá kunnum við miklu betur að takast á við þær og væntanlega mun líka betur vera hægt að einangra efnahagslegu viðbrögðin við því sem annars veldur minnstum skaða fyrir starfsemina í landinu en gagnast á sama tíma best til að minnka smithættuna – að ég tali nú ekki um að lágmarka dauðsföll.“

Varist framtíðarspámenn

Sjálfur var ég sannfærður um þetta í byrjun sumars í fyrra: Myndi smitum fjölga hratt á nýjan leik yrðu viðbrögðin með öðrum hætti en áður og horft til fleiri þátta en bara læknisfræðilegra. Við Jón Bjarki ræddum efnahagslegu áhrifin en sjálfum hefur mér gjarnan orðið hugsað til þeirra alvarlegu skerðinga á mannréttindum sem aðgerðunum fylgja, en allir sjá (sem vilja sjá) að ítrekað er farið út fyrir meðalhóf í þeim efnum.

Ég segi gjarnan við nemendur mína að taka þurfi öllum framtíðarspám með miklum fyrirvara. Sagan kennir okkur að framtíðarspámenn hafa næstum alltaf rangt fyrir sér og þarna skjátlaðist mér: Viðbrögð yfirvalda við einhverju sem kallað var „önnur bylgja“ og „þriðja bylgja“ einkenndust einmitt ekki af yfirsýn frá fleiri hliðum. Hinar læknisfræðilegu röksemdir urðu allsráðandi og öllu tali um að „fletja út kúrfuna“ var ýtt til hliðar fyrir allsherjarútrýmingu veirunnar.

Sóttvarnalögreglan

Áður en maður vissi af var almenningur skikkaður til að hylja andlit sín á almannafæri og það jafnvel þótt sóttvarnalæknir hefði mánuðum saman haldið því fram að andlitsgrímur veittu falskt öryggi. Og í stað yfirvegaðrar afstöðu almennings hefur mér fundist sem sífellt meiri harka væri hlaupin í stuðningsmenn aðgerða ríkisvaldsins. Sem dæmi um það má nefna þegar ég var staddur ekki fyrir löngu í Áfengisverslun ríkisins í Skeifunni. Ung kona vatt sér inn í búðina án andlitsgrímu. Öryggisvörður sem stóð hinum megin í versluninni æpti þá upp yfir sig, hljóp að konunni með ókvæðisorðum um leið og hann færði hana út með valdi. Af viðbrögðunum að dæma var vörðurinn í þann mund að draga upp skotvopn (og kannski verður það næsta skref í sóttvörnum, svona ekki ósvipað og þegar þungvopnaðir hermenn voru mættir í verðlagseftirlit í Venesúela hér um árið).

Þessi stóraukna harka er órökrétt; eftir því sem fleiri veikir og aldraðir eru bólusettir verður hættan á andláti og alvarlegum veikindum hverfandi. Þar með ætti að gefast tækifæri til að koma ferðaþjónustunni í gang á nýjan leik og dómsmálaráðherra kynnti á dögunum að erlendum ríkisborgunum utan Schengensvæðisins – sem hafa verið bólusettir – yrði heimiluð för til landsins. Þetta skapar tækifæri til endurreisnar stærstu útflutningsgreinarinnar sem verið hefur lömuð undanfarið ár.

Lokunarsinnar fara mikinn

Viðbrögðin við fremur varfærinni ákvörðun dómsmálaráðherra hafa verið í stíl við hina stórauknu hörku sem ég nefndi að framan. Ég renndi af handahófi yfir ummæli lokunarsinna á félagsvefnum Twitter. Einn málsmetandi maður sagði meðal annars við glimrandi undirtektir: „Eru menn ekki að flýta sér aðeins of mikið og taka áhættu?“ Og: „Skil ekki alveg hvaða hagsmunir stjórna þessu.“

Það er eins og mjög stór hluti þjóðarinnar sé ekki meðvitaður um að 25 þúsund manns ganga atvinnulausir, hallarekstur ríkissjóðs og skuldasöfnun er geigvænleg og við höfum horft upp á meiri skerðingu á atvinnu- og ferðafrelsi en nokkru sinni. – Jú, það eru sannarlega miklir hagsmunir undir.

Umræðunni um þessi mál öll er líka um sumt snúið á haus. Á Twitter mátti lesa spurningu í kjölfar yfirlýsingar dómsmálaráðherra: „Eru til rannsóknir sem staðfesta að bólusett fólk sé ólíklegt til að smita?“ Mætti ekki allt eins spyrja hvort til séu rannsóknir sem sýna fram á hið gagnstæða? Sá sem heldur því fram að skerða eigi mannréttindi þarf að færa fram rök fyrir því. Það er ekki þeirra sem vilja vernda mannréttindi að færa rök fyrir því að þau verði ekki tekin af okkur.

Erfitt að endurheimta réttindi

Það er gömul saga og ný að erfitt getur reynst að endurheimta borgaraleg réttindi sem afnumin hafa verið „tímabundið“. Það sást best á dögunum þegar sóttvarnayfirvöld gáfu það út að ekki yrði „hugað að frekari tilslökunum“ á meðan jarðhræringar stæðu yfir á Reykjanesskaga. Ég er líklega ekki einn um að botna hvorki upp né niður í þeim yfirlýsingum. Jarðfræðingur nokkur benti á að við gætum horft upp á eldvirkni á svæðinu næstu 150 árin. Þyrfti þá að viðhalda sóttvarnaaðgerðum allan þann tíma?

Almennur stuðningur við hinar hörðu ríkissóttvarnastefnu hefur leitt í ljós hversu hratt er hægt að afnema hvers kyns mannréttindi – í mikilli sátt við þorra almennings. Óttinn er öflugt stjórntæki. Kannski það öflugasta sem völ er á, sem sést best á því að stjórnmálaflokkar sem hafa alið á ótta við útlendinga hafa í mörgum löndum í kringum okkur risið úr nánast engu fylgi upp í það að verða meðal stærstu flokka á mjög skömmum tíma.

Ein af lexíunum sem draga má af þessu öllu saman er að það kann ekki góðri lukku að stýra að auðvelda breytingar á stjórnarskrá eins og svo mikið hefur verið rætt um á undanförnum árum. Líklega myndi stórum hluta almennings hugnast vel að senda ríkisstjórnina og Alþingi heim um ófyrirsjáanlega framtíð og gera Þórólf Guðnason að einræðisherra. Lýðræðið er brothætt og stuðningur við almenn mannréttindi miklu minni en margur heldur.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

EyjanFastir pennar
28.07.2021

Björn Jón skrifar: Reykjavík vantar samgöngumiðstöð

Björn Jón skrifar: Reykjavík vantar samgöngumiðstöð
Fastir pennarFókus
11.07.2021

Ég held að pabbi sé með Alzheimer á byrjunarstigi og mamma er í afneitun – Hvernig get ég stungið á kýlið?

Ég held að pabbi sé með Alzheimer á byrjunarstigi og mamma er í afneitun – Hvernig get ég stungið á kýlið?
EyjanFastir pennar
24.05.2021

Flokkur sumra stétta

Flokkur sumra stétta
433Fastir pennarSport
21.05.2021

Væri ótrúlega heimskulegt að reka Óskar úr starfi á þessum tímapunkti

Væri ótrúlega heimskulegt að reka Óskar úr starfi á þessum tímapunkti
EyjanFastir pennar
02.05.2021

Vondir embættismenn

Vondir embættismenn
Fastir pennarFókus
02.05.2021

Af hverju „elskum“ við morð?

Af hverju „elskum“ við morð?