fbpx
Fimmtudagur 25.apríl 2024
Eyjan

Björn Leví segir ekki vitað hvort þingkosningarnar hafi skilað lýðræðislegri niðurstöðu – „Alveg eins hægt að nota skoðanakannanir“

Kristján Kristjánsson
Föstudaginn 26. nóvember 2021 09:00

Björn Leví Gunnarsson þingmaður Pírata.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Alþingi samþykkti í gærkvöldi að staðfesta niðurstöðu þingkosninganna í haust, þar á meðal niðurstöðu síðari talningarinnar í Norðvesturkjördæmi. Þetta mál er umfjöllunarefni í pistli Björns Levís Gunnarssonar, þingmanns Pírata, í grein í Morgunblaðinu í dag en hún ber fyrirsögnina „Giskum á niðurstöður kosninga“.

„Við þurfum öll að svara hvort það sé nóg að treysta því að niðurstöður kosninga séu réttar eða hvort það þurfi að vera hægt að sannreyna að svo sé. Að mínu mati mæla kosningalög og almenn skynsemi fyrir því að niðurstöður kosninganna eigi að vera sannreynanlegar. Það þýðir að kjörgögn séu örugg frá því að kjósandi greiðir atkvæði þangað til niðurstöður kosninga eru staðfestar. Ef það væri nóg að treysta því að niðurstöður kosninga séu réttar væri alveg eins hægt að nota skoðanakannanir í staðinn,“ segir hann í upphafi greinarinnar.

Hann víkur síðan að stjórnarskránni og fyrstu grein hennar sem kveður á um að Ísland sé lýðveldi með þingbundinni stjórn. „Ástæðan fyrir því að við erum lýðveldi er að forseti og þingmenn eru þjóðkjörnir. Lýðræðislegar kosningar eru grundvöllur þess valds sem Alþingi, ríkisstjórn og dómstólar beita. Lýðræðislegar kosningar eru forsenda þess að við fylgjum valdboði löggjafarvalds, framkvæmdavalds og dómsvalds. Án lýðræðislegra kosninga eru skattar ofbeldi, lög marklaus og dómar eru geðþóttaákvarðanir. Þannig voru samfélög fyrri alda, þar sem fólk fór með vald sem var sagt koma frá æðri máttarvöldum. Í dag kemur valdið frá fjöldanum með atkvæðum í lýðræðislegum kosningum,“ segir hann.

Hann segir að mikilvægi lýðræðislegra kosninga í samfélaginu ætti að vera öllum ljóst sem og mikilvægi þess að slíkar kosningar séu hafnar yfir allan vafa.

Hann víkur síðan að skrifum Gunnars G. Schram í Stjórnskipunarrétti þar sem segir: „Sé ljóst að annmarkar við kosningar hafi getað ráðið úrslitum um niðurstöður þeirra skipti almennt engu máli hverjum er um að kenna eða hvort nokkur eigi sök á misfellunum heldur beri þá að ógilda kosninguna.“

Hann víkur þá að spurningunni um hvernig sé hægt að sanna að annmarki hafi getað ráðið úrslitum. Hvort sanna þurfi að orsakatengsl séu á milli galla og áhrifa á úrslit eða hvort sönnunarbyrðin sé öfug? „Þurfum við að sanna að það sé enginn möguleiki á því að gallinn hafi haft áhrif á úrslitin?“ spyr hann og segist sjálfur hallast að því síðarnefnda vegna þess hversu mikilvægar lýðræðislegar kosningar séu.

„Lög og reglur sem við setjum til þess að verja öryggi kosninga snúast um að vilji kjósenda sé hafinn yfir vafa. Við eigum ekki að þurfa að treysta því að úrslit kosninga séu rétt, við eigum að geta sannreynt það,“ segir Björn og víkur því næst að málum Norðvesturkjördæmis: „Staðreyndin er sú að það voru tilkynntar niðurstöður, lokatölur Norðvesturkjördæmis, að morgni sunnudagsins 26. september. Seinna sama dag komu svo nýjar lokatölur eftir að ljóst var að kjörgögn höfðu ekki verið örugglega geymd á milli fyrri lokatalna og seinni. Ekki hefur tekist að sannreyna hvort sá galli hafi orsakað þær breytingar eða ekki og eftir stöndum við með þann kaleik í höndunum að segja við þjóðina, við vitum ekki hvort atkvæðin ykkar skiluðu lýðræðislegri niðurstöðu.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Eyjan
Fyrir 3 dögum

Varaþingmaður Samfylkingarinnar yfirgefur flokkinn – Segir Samfylkinguna hafa sofnað á mannréttindavaktinni

Varaþingmaður Samfylkingarinnar yfirgefur flokkinn – Segir Samfylkinguna hafa sofnað á mannréttindavaktinni
Eyjan
Fyrir 3 dögum

Ólafur Þ. Harðarson: Þurfum mjög hæfan forseta – þarf alls ekki að vera stjórnmálamaður

Ólafur Þ. Harðarson: Þurfum mjög hæfan forseta – þarf alls ekki að vera stjórnmálamaður
Eyjan
Fyrir 4 dögum

Ólafur Þ. Harðarson: Sjálfstæðismenn aðeins einu sinni fengið sinn forseta – sá var fyrrverandi formaður Alþýðubandalagsins

Ólafur Þ. Harðarson: Sjálfstæðismenn aðeins einu sinni fengið sinn forseta – sá var fyrrverandi formaður Alþýðubandalagsins
EyjanFastir pennar
Fyrir 4 dögum

Óttar Guðmundsson skrifar: Óæskilegt lesefni

Óttar Guðmundsson skrifar: Óæskilegt lesefni
Eyjan
Fyrir 6 dögum

800 milljóna halli en þokast í rétta átt

800 milljóna halli en þokast í rétta átt
Eyjan
Fyrir 6 dögum

Þorsteinn Siglaugsson skrifar: Gervigreind og máttur tungumálsins

Þorsteinn Siglaugsson skrifar: Gervigreind og máttur tungumálsins