fbpx
Fimmtudagur 27.janúar 2022
Eyjan

Ingi og yfirkjörstjórnin bíta frá sér – Sjáðu ósamræmið milli greinargerðar og ummæla Inga við fjölmiðla

Erla Dóra Magnúsdóttir
Fimmtudaginn 21. október 2021 17:07

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Fráfarandi yfirkjörstjórn Norðvesturkjördæmis hefur skilað inn greinargerð vegna þeirra kosningakæra sem Alþingi er nú með til rannsóknar. Greinargerðin hefur verið birt á vef Alþingis.

Tveir fulltrúar stjórnarinnar, Bragi R. Axelsson og Katrín Pálsdóttir, koma þó ekki að téðri greinargerð þar sem þau telja ekki rétt að tjá sig um málið á meðan lögreglustjórinn á Vesturlandi er með sakamál vegna framkvæmda kosninganna til meðferðar. Undir greinargerðina ritar Ingi Tryggvason, fráfarandi formaður.

Í greinargerðinni er öllum ásökunum sem lagðar eru fram í kærum vísað á bug. Því er haldið fram að yfirkjörstjórn hafi farið í einu og öllu að lögum og að í kærum sumra kærenda megi finna refsiverð ummæli sem feli í sér rangar sakargiftir. Yfirkjörstjórn eyðir þó ekki mörgum orðum í að færa rök fyrir máli sínu og vísar ítrekað til þess að hinu og þessu úr kærunum sé ekki vert að svara, vísa ásökunum á bug án nánari rökstuðnings og í nokkrum tilvikum með rökstuðning sem við nánari skoðun er ekki alfarið sannfærandi.

Útgáfa kjörbréfa feli í sér samþykki

Í greinargerðinni er því hafnað að óheimilt hafi verið að endurtelja atkvæði í Norðvesturkjördæmi, sem og að eitthvað hafi verið athugavert við skýrslugjöf stjórnarinnar til Landskjörstjórnar. Því er jafnframt haldið fram í greinargerð að þar sem landskjörstjórn hafi nú gefið út kjörbréf til þingmanna samkvæmt niðurstöðu endurtalninganna þá felist í því viðurkenning að skýrslugerð yfirkjörstjórnar í Norðvesturkjördæmi hafi verið fullnægjandi.

Rétt er að minnast þess að Landskjörstjórn gaf út yfirlýsingu eftir fund þar sem ákveðið var að gefa út kjörbréf samkvæmt endurtalningu þar sem tekið var fram að það væri ekki innan valdsssvið Landskjörstjórnar að taka afstöðu til hugsanlegra ágalla á framkvæmd kosninga í einstökum kjördæmum.

Engin ástæða til að elta ólar við rangfærslur í fjölmiðlum

Yfirkjörstjórn fullyrðið að það hafi enginn átt við kjörgögn í talningarsal á meðan þau lágu þar eftirlitslaus og er því haldið fram að í umfjöllun fjölmiðla um endurtalninguna sé mikið af rangfærslum.

„Ekki þykir ástæða til að elta ólar við rangfærslur í fjölmiðlum sem kærandi vitnar til varðandi varðveislu kjörgagna meðan á fundarfrestun stóð. Enda hafa þær tilvitnanir enga þýðingu í málinu“ 

Þarna vísar greinargerðin meðal annars til kæru Guðmundar Gunnarssonar, frambjóðanda Viðreisnar, en í kæru hans er meðal annars vísað til viðtals Inga Tryggvasonar við Vísi þann 26. september þar sem hann hélt því fram að það væri vinnulag að innsigla ekki kjörgögn heldur bara skilja þau eftir og læsa salnum.  Það væri betra að leggja áherslu á að læsa heldur en að innsigla.

Þetta er í nokkru ósamræmi við nýlegar fregnir en mbl.is greindi frá því í gær að samkvæmt þeirra heimildum hefði salurinn ekki verið læstur.

Eins vísaði Guðmundur í kæru sinni til fréttar Stundarinnar frá 28. september þar sem Ingi sagðist ekki hafa tölu á því hversu margir lyklar væru að talningarsal en að starfsmenn hefðu ekki átt að hafa aðgang að salnum. Fréttir bárust í gær upp úr lögregluskýrslum í. málinu en þar kom fram að eftirlitsmyndavélar sýni að starfsmenn höfðu greiðan aðgang að talningarsal þegar kjörgögn voru þar eftirlitslaus og gengu um salinn í ýmsum tilgangi – oft úr mynd eftirlitsmyndavéla.

Ingi sagði í samtali við RÚV 27. september: „Ég hef engar áhyggjur af geymslunni á þessum gögnum. Það er algjörlega 100% og meira en það að það fór enginn inn svæðið þennan stutta tíma sem að enginn úr yfirkjörstjórn var þarna staddur.“

Því er ekki ljóst hvaða meintu rangfærslur yfirkjörstjórn heldur fram að fjölmiðlar hafi farið með samkvæmt greinargerðinni.

Karli Gauta tamara að fara með rangt mál frekar en staðreyndir

Karl Gauti Hjaltason, frambjóðandi Miðflokks sem missti sæti sitt við endurtalningu, vísar í kæru sinni til í frétt DV þar sem haft var eftir ónafngreindum heimildarmanni að meðhöndlun atkvæða hafi verið hafin áður en fundur var settur og að ekki hafi verið einhugur meðal kjörstjórnar um endurtalningu. Um þetta segir yfirkjörstjórn:

„Það er greinilega ekki gott að byggja á upplýsingum frá þessum ónafngreinda heimildarmanni því þetta er rangt. Það ætti kærandi raunar að hafa getað séð hafi hann lesið fundargerð YK. En kæranda virðist tamara að fara með rangt mál frekar en staðreyndir málsins.“ 

Rétt er að taka fram að DV hafði það eftir áreiðanlegum heimildum sínum í frétt sem bitist 30. september að meðhöndlun atkvæða hafi hafist áður en allir meðlimir kjörstjórnar voru mættir og áður en umboðsmenn listanna mættu og hafi lögreglu verið greint frá þessu. DV hafði jafnframt heimildir fyrir því að ekki hafi verið eining meðal fulltrúa kjörstjórnar um endurtalninguna. Þessu hafnar yfirkjörstjórn, en rétt er að minnast þess að tveir meðlimir stjórnarinnar komu ekki að gerð greinargerðarinnar.

Í lögregluskýrslu kemur fram að fundargerð hafi gengið á milli stjórnarmeðlima í tölvupósti og „sumt yfirkjörstjórnarfólk gert athugasemdir en ekki liggur fyrir að hvaða leyti eða hvernig brugðist var við þeim eða hvað af athugasemdunum rataði inn í endanlega fundargerð.“

Ljóst er að tveir stjórnarmenn sögðu í yfirheyrslu hjá lögreglu að þeir átti sig ekki á því hvort hreyft hefði verið við kjörgögnum á þeim tíma sem yfirkjörstjórn var fjarverandi á meðan tveir stjórnarmenn segjast ekki hafa séð neitt sem bendir til þess en Ingi einn lýsti því yfir að hann „hefði þá bjargföstu trú“ að ekki hafi verið átt við seðlanna.

Innsiglað eða ekki innsiglað?

Því er neitað í greinargerð að Ingi Tryggvason hafi lýst því yfir að hann hafi frekar fylgt hefðum en kosningalögum og lítur kjörstjórn svo á að í einu og öllu hafi stjórnin farið að lögum við störf  sín. En Ingi sagði sjálfur í áðurnefndri frétt Vísis kjörgögn hafi ekki verið innsigluð á grundvelli vinnulags sem hafi viðhaft lengi. „Þetta hefur bara tíðkast og er bara venjubundið.“  Samkvæmt 104. gr. kosningalaga kemur skýrt fram að allir notaðir kjörseðlar skuli settir undir innsigli.

Í greinargerðinni er því jafnframt haldið fram að Ingi Tryggvason hafi aldrei staðfest að ekki hafi verið gengið frá gögnum í samræmi við 104.gr. laga, þrátt fyrir að Ingi sjálfur hafi ítrekað í samtali við fjölmiðla tekið fram að kjörgögn hafi verið innsigluð líkt og umrætt ákvæði kveði á um.

Í greinargerð er því þó haldið fram að ekki hafi verið skylt að innsigla gögn á meðan fundarfrestun stóð á sunnudeginum eftir kosninga þar sem þá hafi yfirkjörstjórn mögulega þurft að meðhöndla gögnin og mögulega endurtelja, nokkuð sem Ingi hefur í engu minnst á í viðtölum við fjölmiðla fram að þessu.

104. gr. segir að innsigla eigi kjörgögn „að talningu lokinni“ og kemur skýrt fram í skýrslu yfirkjörstjórnar til Landskjörstjórnar að klukkan 07:15 sunnudaginn 26. september hafi talningu verið lokið og talningarfólk yfirgaf staðinn. Auk þess kemur fram í lögregluskýrslu að kjörgögn voru ekki geymd í lokuðum kössum þegar yfirkjörstjórn ar fjarverandi.

Rangar sakargiftir

Varðandi ásakanir Lenyu Rúnar Taha Karim, frambjóðanda Pírata sem missti sæti sitt við endurtalningu, er því haldið fram að í þeim felist refsivert brot.

„Aðdróttanir um að oddviti hafi spillt kjörgögnum er harðlega mótmælt enda engin rök færð fyrir þeirri fullyrðingu. Raunar er um rangar sakargiftir að ræða sem eru refsiverðar.“ 

Magnús Davíð Norðdahl, oddviti Pírata í Norðvesturkjördæmi og einn kærenda lýsir því yfir á Facebook, að þessi ásökun yfirkjörstjórnar sé algjörlega fráleit og ómakleg. Lögregla hafi ekki treyst sér til að fullyrða að enginn hafi átt við kjörgögn er þau voru eftirlitslaus í talningarsal á Hótel Borgarnesi og myndbandsupptökur hafi staðfest að óviðkomandi hafi farið inn í salinn.

„Eru það rangar sakargiftir að benda á atriði sem fyrir liggur og fram kemur í gögnum málsins og er í eðli sínu grunsamlegt?“ 

Greinargerðin í heild sinni

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Eyjan
Fyrir 3 dögum

Biden íhugar að senda mörg þúsund hermenn til Evrópu

Biden íhugar að senda mörg þúsund hermenn til Evrópu
Eyjan
Fyrir 3 dögum

Flytja bandaríska sendiráðsstarfsmenn frá Úkraínu vegna ótta við innrás Rússa

Flytja bandaríska sendiráðsstarfsmenn frá Úkraínu vegna ótta við innrás Rússa
Eyjan
Fyrir 3 dögum

SÞ segja að Íranar smygli vopnum til uppreisnarmanna í Jemen

SÞ segja að Íranar smygli vopnum til uppreisnarmanna í Jemen
Eyjan
Fyrir 3 dögum

Björn Ingi harðorður í Silfrinu – „Guð forði okkur svo frá því að það komi ný afbrigði um páskana“

Björn Ingi harðorður í Silfrinu – „Guð forði okkur svo frá því að það komi ný afbrigði um páskana“
Eyjan
Fyrir 6 dögum

Ólöf segir börnin fært mestu fórnirnar í Covid faraldrinum þó sjúkdómurinn bíti minnst á þeim

Ólöf segir börnin fært mestu fórnirnar í Covid faraldrinum þó sjúkdómurinn bíti minnst á þeim
Eyjan
Fyrir 1 viku

Skortur á orku yfirvofandi hér á landi

Skortur á orku yfirvofandi hér á landi