Föstudagur 05.mars 2021
Eyjan

Þórarinn gagnrýnir talnaleikfimi Eflingar og segir hana villandi og eitraða

Kristján Kristjánsson
Fimmtudaginn 28. janúar 2021 08:00

Þórarinn Ævarsson. Mynd/Ernir

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Þórarinn Ævarsson, stofnandi og eigandi pitsastaðarins Spaðans, birtir grein í Morgunblaðinu í dag þar sem hann gagnrýnir það sem hann segir vera villandi og eitraða talnaleikfimi Eflingar. Skrif hans snúa að nýrri ársfjórðungsskýrslu kjaramálasviðs Eflingar þar sem fram kemur að á síðasta ársfjórðungi 2020 hefðu orðið til 56 launakröfur á rúmlega 40 fyrirtæki, samtals að upphæð 46 milljónir, vegna vangoldinna launa.

„Efling kýs að kalla þessar kröfur launaþjófnað og hafa forsvarsmenn stéttarfélagsins farið mikinn í fjölmiðlum. Niðurstöðurnar eru túlkaðar í þá veru að þetta sé stórt, mikið og vaxandi vandamál. Þá er þess krafist að löggjafinn grípi til harðra sektarákvæða, því hér sé um að ræða mein sem breiði stöðugt úr sér og hér sé að alast upp heil kynslóð atvinnurekenda sem einfaldlega sé með viðskiptamódel sem geri ráð fyrir þessu,“ segir Þórarinn og bætir við að Efling gangi í raun enn lengra því forsvarsmenn félagsins vilji taka málaflokkinn frá hinu opinbera. Ef það raungerist myndi það að hans  sögn þýða að Efling væri kærandi, rannsakandi og dómari í málum sem þessum sem sé fyrirkomulag sem stríði meira og minna gegn öllum viðmiðum sem sæmilega þenkjandi fólk telur eðlileg.

„Við fyrstu sýn virðist upphæðin sem um ræðir há, sem og fjöldi tilfella, en þegar betur er að gáð, þá er þetta ekki svona einfalt. Við skulum gefa okkur að allar þessar kröfur séu í raun á rökum reistar, sem er alls ekki gefið, því það eru jú iðulega tvær hliðar á öllum málum. Það eru um 25.000 manns í Eflingu og ef við gefum okkur það að meðalheildarlaun séu 400.000 krónur á mánuði, þá eru heildarmánaðarlaun Eflingarfólks um 10 milljarðar en 30 milljarðar á ársfjórðungnum sem um ræðir. Þá kemur í ljós að hlutfall títtnefnds launaþjófnaðar af launum er 0,15%, sem ég held að flestir geti verið sammála um að sé ekki hátt hlutfall,“ segir Þórarinn og bætir við að þá sé um að ræða 56 tilvik í hópi 25.000 félagsmanna.

Sólveig Anna Jónsdóttir er formaður Eflingar.

„Það má umreikna þetta í að líkurnar á að verða fyrir þessu eru einn á móti tæplega 500 og þykja það heldur ekki miklar líkur. Ef við horfum síðan á þetta og miðum við tíðni meðal fyrirtækja, þá skipta þau þúsundum og ljóst að nánast öll fyrirtæki eru með þessi mál í lagi. Þá er mjög lítið gert úr þeirri staðreynd að ársfjórðungsskýrslan sýnir að tilvikum á milli ára fækkaði um 29%. Það er hlutfall sem hægt er að stæra sig af,“ segir hann og bendir á að samkvæmt fréttatilkynningu Eflingar hafi launaþjófnaður síðustu fimm ára verið um einn milljarður. Það þýði árlega sé hann um 200 milljónir að meðaltali og að ársfjórðungslega nemi hann um 50 milljónum að meðaltali. „Maður þarf ekki að vera neitt sérstaklega góður í reikningi til að sjá að þessi mál virðast ekki vera í vexti, heldur virðast þau standa í stað, með að meðaltali 200 milljónir á ári, þrátt fyrir að laun hafi á sama tímabili, samkvæmt launavísitölu, hækkað um tæp 33%. Við erum því, að mér sýnist, að tala um verulegan samdrátt – í það minnsta hvað upphæðir varðar,“ segir hann síðan.

Hann segir síðan að það megi í raun teljast stórmerkilegt að miðað við það ástand sem ríkt hefur síðasta árið vegna COVID hafi málum er varða vangoldnum launum ekki fjölgað. „Það er því ekki annað að sjá en að forsvarsmenn þeirra hundraða fyrirtækja sem hafa þurft að lúta í gras vegna samdráttar hafi sýnt mikla ábyrgð og fyrirhyggju þegar kemur að skilnaði við fyrrverandi starfsmenn.“

Hann spyr síðan hvort ekki væri nær að Efling birti stóra fréttatilkynningu um að í raun sé ástandið býsna got, sérstaklega miðað við erfiðar aðstæður á vinnumarkaði. „Að frábær árangur hefði náðst síðustu fimm ár, sérstaklega þá á síðasta ársfjórðungi 2020, og að tilfelli vangoldinna launa væru í raun sárafá, sama við hvaða viðmið væri stuðst?“

Hann veltir síðan upp spurningunni um hvað vaki fyrir forystufólki Eflingar með að senda svona villandi upplýsingar frá sér, það sé engu líkara en verið sé að reyna að efna til ófriðar. „Er ekki hægt að gera þá lágmarkskröfu á forsvarsmenn eins stærsta verkalýðsfélags Íslands að þeir reyni í það minnsta að námunda sig við sannleikann í stað þess að fabúlera út í loftið og draga ályktanir sem ganga þvert gegn þeim gögnum sem þeir eru að kynna? Hér tala tölurnar sínu máli og það stendur ekki steinn yfir steini, en menn fara vísvitandi með með fleipur og ásakanir. Maður hlýtur því að spyrja sig hvort þetta fólk sé í verkalýðsbaráttu, eða hvort það sé í pólitík. Við sem fylgjumst með á hliðarlínunni vitum að það veldur byltingarþenkjandi forystu Eflingar sárum vonbrigðum að geta ekki sýnt fram á það stórkostlega arðrán sem henni er svo gjarnt að tala um, en það vill sem betur fer svo til að við búum í landi þar sem hlutirnir eru almennt betri en gengur og gerist, sem og traust á milli aðila,“ segir hann og bætir við að hér séu réttindi fólks ekki fótum troðin og tölurnar tali sínu máli því til staðfestingar.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Eyjan
Fyrir 3 dögum

Hatrammar deilur ritstjóranna í Hafnarfirði – „Lengst af hélt ég að aðferðir hans dæmdu sig sjálfar, en nú er mælirinn fullur“

Hatrammar deilur ritstjóranna í Hafnarfirði – „Lengst af hélt ég að aðferðir hans dæmdu sig sjálfar, en nú er mælirinn fullur“
Eyjan
Fyrir 4 dögum

Hannes hjólar í lögreglustjóra – „Eitthvað að embættismönnum, sem er ekki hægt að hringja í án þess að þeir hlaupi með það í fjölmiðla“

Hannes hjólar í lögreglustjóra – „Eitthvað að embættismönnum, sem er ekki hægt að hringja í án þess að þeir hlaupi með það í fjölmiðla“
Eyjan
Fyrir 5 dögum

Björn Bjarna segir réttarríkið trufla Eflingu í aðför að einkafyrirtækjum – Lýsir einræðistilburðum Sólveigar Önnu

Björn Bjarna segir réttarríkið trufla Eflingu í aðför að einkafyrirtækjum – Lýsir einræðistilburðum Sólveigar Önnu
Eyjan
Fyrir 5 dögum

Jón Þóris blæs von í brjóst þjóðarinnar og segir jákvæð teikn á lofti – „Guð láti gott á vita“

Jón Þóris blæs von í brjóst þjóðarinnar og segir jákvæð teikn á lofti – „Guð láti gott á vita“
Fyrir 1 viku

Fjölmiðlafræðibekkurinn settur á hliðina – „Djöfulsins viðbjóður“

Fjölmiðlafræðibekkurinn settur á hliðina – „Djöfulsins viðbjóður“
Eyjan
Fyrir 1 viku

Segir nikótínpúða ræna ungmenni heilsunni – „Álíka mikið nikótín og í þremur sígarettum“

Segir nikótínpúða ræna ungmenni heilsunni – „Álíka mikið nikótín og í þremur sígarettum“
Eyjan
Fyrir 1 viku

Starfsfólk utanríkisþjónustunnar flutt yfir hálfan hnöttinn í bólusetningu

Starfsfólk utanríkisþjónustunnar flutt yfir hálfan hnöttinn í bólusetningu
Eyjan
Fyrir 1 viku

Telur ríkisstjórnina þurfa að grípa til aðgerða strax – Annars gæti vanda­mál af áður óþekktri stærð blasað við

Telur ríkisstjórnina þurfa að grípa til aðgerða strax – Annars gæti vanda­mál af áður óþekktri stærð blasað við