Föstudagur 05.mars 2021
Eyjan

Bryndís Schram: Sannfærð um að enginn trúi ásökunum um „ógeðslegt ofbeldi“ Jóns Baldvins gegn konum og börnum

Heimir Hannesson
Mánudaginn 25. janúar 2021 17:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Bryndís Schram, eiginkona Jóns Baldvins Hannibalssonar fyrrum ráðherra og skólastjóra, kemur Jóni til varnar af þó nokkrum krafti í aðsendri grein sem bb.is birti í dag. Í greininni „Síðbúinn sannleikur“ segir Bryndís sannfærð um að enginn trúi alvarlegum ásökunum á hendur Jóni Baldvini:

„Innst inni er ég einhvern veginn sannfærð um það, að enginn maður á Íslandi – né kona  – trúi því í alvöru, að maðurinn minn, Jón Baldvin Hannibalsson, sé ofstopafullur kynferðisglæpamaður, sem níðist bæði á konum og börnum. Í öllu okkar stríði á undanförnum sextíu árum í sambúð, bæði í pólitíkinni og á vinnumarkaðnum almennt, var það aldrei inni í myndinni. Við vorum að vísu stöðugt sökuð um alls konar glæpi – svo sem smygl, þjófnað og drykkjuskap – nefndu það – en aldrei um ógeðslegt ofbeldi gagnvart konum eða börnum. Hugarflugið var ekki búið að ná þeim hæðum á þessum árum.“

Jón Baldvin hefur verið ásakaður af fjölda kvenna um kynferðislega áreitni og ofbeldi. Um þarsíðustu helgi stigu þrjár konur fram undir nafni og staðfestu sögur sem þær höfðu árið borið fram undir nafnleynd. Árið 2012 steig Guðrún Harðardóttir fram og sagði Jón hafa sent sér kynferðisleg bréf með berorðum lýsingum af kynlífi hans og Bryndísar eiginkonu sinnar. Fyrstu bréfin fékk Guðrún sent til sín þegar hún var tíu ára gömul. Þau síðustu þegar hún var 16 og 17 ára gömul og skiptinemi í Venesúela. Sóttist Jón eftir því að Guðrún kæmi þá í heimsókn til hans í sendiherrabústaðinn í Washingtonborg, eða hann til hennar. Tókst henni að ljúga því að honum að skiptinemar mættu ekki taka á móti gestum.

Bréfin voru meðal annars skrifuð á bréfsefni sendiráðs Íslands í Washington.

Í meiðyrðamál við dóttur sína vegna ásakana um kynferðislegt ofbeldi

Í viðtali vegna málsins við Nýtt líf sagði Guðrún að hún hefði orðið „brjálæðislega hrædd“ vegna bréfaskrifta Jóns. Sagði hún að Aldís, dóttir Jóns Baldvins, hafi staðið með sér eins og klettur, en sömu sögu væri ekki að segja af öðrum skyldmennum Jóns.

Guðrún kærði bréfaskriftir Jóns til hennar en málið var látið niður falla, meðal annars vegna þess að hún tók við bréfunum í öðru landi en á Íslandi.

Aldís steig sjálf fram nokkru síðar í Morgunútvarpi Rásar 2 og sagði Jón Baldvin hefði misnotað stöðu sína sem sendiherra til að beita lögreglunni gegn sér í sjálfræðissviptingu. Þá hefur hún sakað Jón um að hafa beitt sig kynferðislegu ofbeldi sem barn. Aldís sagði jafnframt sögu sína ásamt fjölmörgum öðrum inn á sérstökum #metoo hópi á Facebook.

Jón Baldvin höfðaði meiðyrðamál gegn sér, RUV og Sigmari Guðmundssyni blaðamanni RUV vegna viðtalsins. Það mál er enn í meðferð dómskerfisins.

Í nýrri ákæru Héraðssaksóknara gegn Jóni Baldvini er hann sagður hafa strokið rassi á konu sem var gestkomandi á heimili hans og Bryndísar á Spáni. Málinu var vísað frá í héraðsdómi en Landsréttur snéri þeirri frávísun við í síðustu viku. Málið er því aftur komið á borð Héraðsdóms Reykjavíkur sem mun fjalla öðru sinni efnislega um frávísunarkröfu Jóns Baldvins.

Segir ásakanirnar „fár“ og „ímyndað hatur“

Bryndís heldur áfram:

Ég held, að þetta fár, þetta skyndilega og ímyndaða hatur, sem um þessar mundir beinist að okkur í samfélagsmiðlum, sé sprottið af því, sem heitir á þýsku “Schadenfreude” – það að gleðjast yfir óförum annarra. Þannig fær fólk útrás fyrir sína eigin gremju, sitt niðurbælda hatur á öllum og öllu. Það hefur nautn af því að rífa niður mannorð náungans og baða sig í eigin illsku. Skaðagleði heitir það á íslensku.

Bryndís segir að aðeins þurfi að horfa í augu Jóns til að sjá að þar sé góður maður á ferð:

Maðurinn minn er ekki vondur maður – hann er góður maður. Þú þarft ekki annað en að horfa í augu hans, hlusta á hann tala og kynnast skoðunum hans, til þess að skynja, að hér fer maður, sem ber virðingu fyrir samferðafólki sínu, hvort sem um konu eða karl er að ræða. Einlægur jafnaðarmaður, sem fer ekki í manngreinarálit, þykir vænt um fólk. Nú er það orðinn glæpur.

Jón sagður hafa áreitt konur sem skólameistari

Bryndís rifjar þá upp kynni sín af Ísafirði og Vestfjörðum, en maðurinn hennar var fyrsti skólameistari Menntaskólans á Ísafirði fyrir rétt rúmum 50 árum síðan. Fjörutíu árum síðar, skrifar Bryndís, er líf þeirra hjóna komið á ruslahaug sögunnar, eins og hver annar mengandi úrgangur. „Fallegar minningar fölnuðu á augabragði, og lítið missti lit.“ Vísar Bryndís þar til skrifa í Stundinni um ásakanir um kynferðislega áreitni og ofbeldi á hendur Jóni.

Bryndís segir að í kjölfar umfjöllunar Stundarinnar hafi fleiri ásakanir opinberast fyrir vestan. Bryndís segir Jón hafa hringt í fyrrum nemendur sína sem könnuðust ekki við sannleiksgildi þeirra ásakana:

En þegar skólameistarinn spurði, hvort þeir væru reiðubúnir  til að andmæla skrumskælingunni og segja söguna eins og hún var, komu vöflur á mannskapinn. Hópur nemenda bar saman bækur sínar. Og niðurstaðan varð sú, að enginn þorði að andmæla. Hvers vegna ekki? Af ótta við að verða sjálfir fyrir barðinu á ofsóknum öfgafeminista? Einn læknir í hópnum sagði, að biðstofan mundi tæmast, ef hann yrði opinberlega sakaður um  að skjóta hlífisskildi [sic] yfir grunaðan kynferðisbrotamann.

Grein Bryndísar má sjá í heild sinni á vef bb.is, þar sem Bryndís meðal annars vísar til nafnlausra skrifa sem sönnun um sakleysi eiginmanns síns, Jóns Baldvins Hannibalssonar.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Eyjan
Fyrir 4 dögum

Gerir upp ævintýralegt kjörtímabil – „Allt sem gerðist lítur út fyrir að hafa ekki getað orðið öðruvísi“

Gerir upp ævintýralegt kjörtímabil – „Allt sem gerðist lítur út fyrir að hafa ekki getað orðið öðruvísi“
Eyjan
Fyrir 4 dögum

Björn Bjarna segir réttarríkið trufla Eflingu í aðför að einkafyrirtækjum – Lýsir einræðistilburðum Sólveigar Önnu

Björn Bjarna segir réttarríkið trufla Eflingu í aðför að einkafyrirtækjum – Lýsir einræðistilburðum Sólveigar Önnu
Eyjan
Fyrir 6 dögum

Mannlíf veldur usla hjá Pírötum – „Flokksbróðir þinn er nauðgari og flóttamaður“

Mannlíf veldur usla hjá Pírötum – „Flokksbróðir þinn er nauðgari og flóttamaður“
Eyjan
Fyrir 6 dögum

Ólga hjá fjölmiðlum í Hafnarfirði og bæjarfulltrúi blandar sér í málið – „Ekki nota Olgu og hennar lífsviðurværi sem svipu!“

Ólga hjá fjölmiðlum í Hafnarfirði og bæjarfulltrúi blandar sér í málið – „Ekki nota Olgu og hennar lífsviðurværi sem svipu!“