fbpx
Fimmtudagur 16.september 2021
Eyjan

Malbikunarstöð í eigu Reykjavíkurborgar hefur þegar keypt lóð í Hafnarfirði – Kaupin komu íbúum og stjórnmálamönnum í Hafnarfirði í opna skjöldu

Björn Þorfinnsson
Fimmtudaginn 8. júlí 2021 19:00

Samsett mynd: Malbikunarstöðin, Dagur og Rósa

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Þau áform Malbikunarstöðvarinnar Höfða, sem er í eigu Borgarsjóðs Reykjavíkur og borgarfyrirtækisins Aflvaka,  að flytja starfsemi sína á iðnaðarsvæði við Álfhellu í Hafnarfirði hafa vakið upp reiði hjá íbúum sem og stjórnmálamönnum bæjarfélagsins.

DV greindi frá því þann 25. júní síðastliðinn að vinna við flutning fyrirtækisins væri langt á veg kominn og það  staðfesti Helgi Geirharðsson, stjórnarformaður fyrirtækisins. Sú frétt var sem blaut tuska í andlit embættis- og stjórnmálamanna í Hafnarfirði sem að höfðu ekki heyrt af þessum fyrirætlunum. Þegar farið var að skoða málið nánar kom í ljós að Malbikunarstöðin Höfði hafði þegar gengið frá kaupum á einkalóð við Álfhellu 18 í Hafnarfirði en kaupin gengu í gegn þann 8.júní síðastliðinn.

Málið var tekið fyrir á fundi bæjarráðs Hafnarfjarðar þann 1. júlí. Þar var lögð fram sú bókun að Bæjarráð Hafnarfjarðar lýsti yfir furðu sinni við þau áform að flytja ætti starfsemi Malbikunarstöðvarinnar Höfða til Hafnarfjarðar. „Bæjarstjóra er falið að ræða við borgarstjórann í Reykjavík vegna þessa og afla upplýsinga um fyrirætlanir fyrirtækisins, áhrif á umhverfi- og umferð á svæðinu og fleira sem málinu tengist,“ segir einnig í bókuninni.

Rósa Guðbjartsdóttir, bæjarstjóri Hafnarfjarðar

Rósa Guðbjartsdóttir, bæjarstjóri Hafnarfjarðar, sem sat umræddan fund segir að hljóðið hafi verið þungt í fundarmönnum. „Okkur finnst afar einkennilegt að frétta af þessu með þessum hætti og hefðum kosið að vera upplýst um þessar fyrirætlanir. Við erum ósátt við þetta,“ segir Rósa. Hún staðfestir að hún hafi þegar átt símtal við Dag B. Eggertsson, borgarstjóra Reykjavíkur, þar sem að áhyggjum bæjaryfirvalda í Hafnarfirði var komið á framfæri. Hún segist reikna með að komið verði á formlegum fundi fljótlega þar sem farið verði nánar yfir málið.

Malbikunarstöðin Höfði hefur um árabil verið með rekstur við Sævarhöfða í Reykjavík. Legið hefur fyrir lengi að starfsemina þyrfti að flytja annað vegna uppbyggingar nýs hverfis höfuðborgarinnar við Elliðaárvoga. Ætlunin var að reksturinn myndi flytja á iðnaðarsvæði við Esjumela en vegna tímafrekra leyfisumsókna og íbúamótmæla í Mosfellsbæ var ákveðið að hverfa frá þeim fyrirætlunum.

Góð ráð voru þá dýr og forsvarsmenn fyrirtækisins fóru þá að reyna að finna aðrar lausnir í flýti. „Það hafa allir valkostir verið skoðaðir með það að leiðarljósi að finna bestu mögulegu lausn,“ sagði stjórnarformaðurinn Helgi Geirharðsson í fyrri frétt DV um málið. Taldi hann að vel hefði tekist til við að finna heppilega lausn og þá sérstaklega vegna þess að á svæðinu í Hafnarfirði var þegar starfsleyfi fyrir malbikunarstöð enda rekur Munch malbikunarstöð á svæðinu en sú leyfisveiting olli miklum usla í bæjarfélaginu á sínum tíma.

Þetta fyrirliggjandi starfsleyfi virðast forsvarsmenn Malbikunarstöðvarinnar Höfða vera að nýta sér til þess að komast bakdyramegin með rekstur sinn inn í bæjarfélagið. „Ef okkur hugnast ekki þessar fyrirætlanir þá höfum við þann möguleika að breyta deiliskipulagi,“ segir Rósa.

Ljóst er að það er ekki bara stjórnmála- og embættismannastéttin sem er ósátt við málið heldur eru íbúar einnig fokvondir. Birgir Örn Guðjónsson, betur þekktur sem Biggi lögga, setti af stað umræðu inn í íbúahópi Vallarhverfisins á Facebook í kjölfar fréttar DV. Greinilegt var að íbúar voru afar ósáttir við þessar fyrirætlanir og var boðað að sett yrði af stað undirskrifarsöfnun til þess að krefjast þess að þær yrðu stöðvaðar.

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

EyjanFastir pennar
Fyrir 2 dögum

Björn Jón skrifar: „Skelfilegt kontóristabæli“

Björn Jón skrifar: „Skelfilegt kontóristabæli“
Eyjan
Fyrir 2 dögum

Anna Sigríður sækir um eigin stöðu

Anna Sigríður sækir um eigin stöðu