fbpx
Þriðjudagur 26.september 2023
Eyjan

Ritskoðun á Facebook síðu Samfylkingarinnar veldur ólgu – Hvað varð um kveðju Karenar Kjartans? – „Það gerist á hverjum degi að fólk hætti í vinnunni sinni“

Heimir Hannesson
Miðvikudaginn 28. apríl 2021 21:00

mynd/aðsend samsett

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Mikill titringur hefur verið innan Samfylkingarinnar undanfarin misseri. Herma heimildarmenn DV innan flokksins að „ömurleg“ stemning sé innan flokksins um þessar mundir og þegar blaðamaður spurði heimildarmanninn sinn nánar út í hvernig sú stemning lýsti sér var blaðamanni góðfúslega bent á að skoða Facebook síðu flokksins, sem nú væri reyndar ritstýrt af stjórnendum í flokknum. Blaðamaður tók heimildarmanninn á orðinu.

Margt hefur gengið á innan flokksins undanfarið. Má þar nefna, sem dæmi, varaformannskjörið sem klauf flokkinn í tvær fylkingar, eina sem fylgdi Helgu Völu Helgadóttur og aðra sem studdi Heiðu Björk Hilmisdóttir sem svo bar sigur úr býtum. Þá þótti aðferð við val á framboðslista flokksins í Reykjavík hafa mistekist og hoggið enn dýpra skarð í samheldni flokksmanna. Ákveðið var að halda nokkurs konar óbindandi, eða ráðgefandi, könnun meðal flokksmanna. Þar gafst almennum flokksmönnum tækifæri á að kjósa milli þeirra sem kost á sér gáfu og var hugmyndin að uppstillingarnefnd myndi svo hnoða saman lista með niðurstöður könnunarinnar að leiðarljósi.

Niðurstöðurnar könnunarinnar, sem áttu að vera hernaðarleyndarmál, láku í fjölmiðla og varð þá fjandinn laus. Listinn sem nefndin skilaði svo af sér varð mjög umdeildur, ekki síst fyrir þær sakir að hann innihélt ekki Ágúst Ólaf Ágústsson, sitjandi þingmann flokksins í kjördæminu, þrátt fyrir að hann hafi gefið kost á sér. Í hans stað kom Kristrún Mjöll Frostadóttir sem oddviti annars Reykjavíkurkjördæmisins. Kristrún er hagfræðingur og af flestum talin frambærileg og vel til þingmennsku hæf, en algjörlega óreynd í stjórnmálum. Helga Vala hélt áfram sæti sínu hinum megin í borginni.

Pétur Markan, samskiptastjóri Biskupsstofu og fyrrum sveitarstjóri Súðavíkurhrepps tilkynnti þá nýverið í löngu og ítarlegu bréfi sem hann birti á Facebook að hann hefði sagt sig úr flokknum. Skömmu síðar heyrðist af Pétri í uppstillingarnefnd Viðreisnar. Játti hann því þá að hann hefði fundið sér pólitískt heimili þar.

Ritskoðun olli ritdeilum

Þá hefur ritskoðun á almennri umræðusíðu Samfylkingarinnar á Facebook verið mikið til umræðu. Birgir Dýrfjörð, sem átti sæti í uppstillingarnefndinni en sagði sig frá henni eftir „ódæðisverk gegn óvirkum alkóhólistum,“ er einn þeirra. Í grein sem Birgir skrifaði fyrr í þessum mánuði sagði hann alvarlega ritskoðun tíðkast innan flokksins. „Félagsmaður fær ekki skoðanir sínar birtar fyrr en hugsanalöggur flokksins eru búnar ritskoða þær og samþykkja,“ skrifaði Birgir meðal annars. „Ódæðisverkið“ sem Birgir vísaði til í greininni var ákvörðun flokksins að stilla Ágústi Ólafi ekki upp á framboðslista flokksins.

Nýjasti missir flokksins var svo að Karen Kjartansdóttir hafi sagt starfi sínu sem framkvæmdastjóri Samfylkingarinnar lausu fyrr í þessum mánuði. Var því ekki leynt að samskiptavandi hennar og Kjartans Valgarðssonar, formanns framkvæmdastjórnar Samfylkingarinnar hafi þar verið megin ástæða ákvörðunarinnar. Herma heimildir DV að skoðun margra innan flokksins sé sú að þar hafi Samfylkingin misst drjúgan spón úr sínum aski á versta tíma, rétt fyrir kosningar.

Hvað varð um kveðju Karenar?

Karen kvaddi flokkssystkini sín í langri færslu á umræðusíðu flokksmanna Samfylkingarinnar á Facebook þegar hún og Logi höfðu komist að samkomulagi um starfslok sín. Í færslunni tilkynnti Karen flokksfélögum sínum að hún væri hætt sem framkvæmdastjóri. Óskaði hún flokknum til hamingju með öfluga framboðslista fyrir komandi kosningar og flokkssystkinum sínum velfarnaðar í baráttunni sem fram undan væri.

Nú, nokkrum vikum síðar, er færslan horfin. Eftir standa þó miklar deilur um hvort rétt hafi verið að fjarlægja hana og ljóst er að margir vilja enn svör við því af hvaða meiði áðurnefndur samskiptavandi var. Enn aðrir klóra sér í hausnum og spyrja: „Hvað varð um kveðju Karenar?“

Hundruð brugðust við færslu Karenar og skildu allflestir eftir fallegar kveðjur og hjartnæmar þakkir fyrir hennar störf. Ein þeirra sem þakkaði Karen fyrir samstarfið var Jóhanna Sigurðardóttir, fyrrverandi forsætisráðherra og formaður Samfylkingarinnar: „Það er slæmt að njóta ekki áfram þinna starfskrafta. En gangi þér allt í haginn á nýjum vettvangi,“ skrifaði hún.

Annar flokksmaður skrifar: „Æj andskotans fjandi fjári, fleiri neikvæðar fréttir af okkar Jafnaðarmannaflokki. Gat ekki þessi formaður framkvæmdastjórnar frekar hætt, hver sem það nú er þá er sá einstaklingur ekki betri en Karen, þar hefði getað komið maður í manns stað úr framkvæmdastjórn og neikvæða umfjöllunin verið minni. Það er eiginlega að verða bugun að vera í þessum dæmigerða vinstriflokk.“ „Hvað er eiginlega að gerast í þessum flokki?“ spyr annar.

Einhverjar umræður sköpuðust þá á öðrum þræði um hvort að umræða um starfslok Karenar væri við hæfi. „Það gerist á hverjum degi að fólk hættir í vinnunni sinni og það gerist einnig á hverjum degi að aðrir furði sig á þeim málalyktum,“ skrifaði Hörður J. Oddfríðarson, stjórnarmaður í flokknum. Ekki voru allir á eitt sammála þeirri greiningu. „Það ætti að vera eðlilegasti hlutur í heimi að flokksmenn fái skýringu á samstarfsörðugleikum á flokksskrifstofunni,“ skrifaði enn annar flokksmaðurinn.

Aðrir kröfðust svara við því hvernig samstarfsörðugleikarnir lýstu sér. „Nú finnst mér að við almennir fótgönguliðar eigum rétt á að fá skýringar,“ skrifar flokksmaður í færslu. Fyrsta athugasemdin undir færslunni er kannski lýsandi fyrir stemninguna í hópnum: „Hvernig slapp þetta í gegn?“

DV náði tali af Loga Einarssyni formanni Samfylkingarinnar vegna málsins sem kannaðist ekki við að færslan væri horfin og undraðist raunar mjög þegar honum var sagt að hún væri ekki lengur til staðar. Hann sagðist ætla að skoða málið nánar með aðstoðarfólki sínu á næstunni.

Stjórnendur á síðunni eru þau Þorgerður Jóhannsdóttir, Alexandra Ýr Van Erven, Hörður J. Oddfríðarson, Magnús Skjöld, Freyja Steingrímsdóttir, Tómas Guðjónsson, Sólveig Skaftadóttir, Gunnar Hörður Garðarsson, Sigrún Einarsdóttir, Hildur Þórisdóttir, Ellen Jacqueline Calman.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Eyjan
Fyrir 1 viku

Vilhjálmur vill efla rannsóknir á notkun hugvíkkandi efna í lækningaskyni

Vilhjálmur vill efla rannsóknir á notkun hugvíkkandi efna í lækningaskyni
Eyjan
Fyrir 1 viku

Jakob Frímann: Látum útlenska ferðamenn borga fyrir hraðlest milli Reykjavíkur og Keflavíkur – fjármögnum innviði með því að láta notendur greiða

Jakob Frímann: Látum útlenska ferðamenn borga fyrir hraðlest milli Reykjavíkur og Keflavíkur – fjármögnum innviði með því að láta notendur greiða