Þriðjudagur 02.mars 2021
Eyjan

Bjarni vill leyfa tollvörðum að gramsa leynilega í farangrinum þínum

Heimir Hannesson
Miðvikudaginn 27. janúar 2021 12:54

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Bjarni Benediktsson fjármála- og efnahagsráðherra hefur birt drög að frumvarpi um breytingar á lögum um tollgæsluna í samráðsgátt stjórnvalda. Efni frumvarpsins er margþætt og í fimm hlutum, en í útskýringu með frumvarpinu inni á samráðsgátt segir að meginmarkmið þess sé að skýra heimildir tollyfirvalda til að vinna og safna persónuupplýsingum.

Fyrsti hluti frumvarpsins snýr að því að efla heimildir tollgæslunnar til þess að reka „kerfi og skrár“ þar sem persónuupplýsingum er safnað saman.

Annar hluti þess snýr að heimildum tollgæslunnar til að deila upplýsingum með „lögbærum yfirvöldum.“ Í dag hefur tollgæslan heimild til þess að deila upplýsingum með lögreglu. Það er, samkvæmt frumvarpinu, ekki nóg. Hvaða yfirvöld eru „lögbær“ er óskýrt í frumvarpinu.

Í þriðja lagi er það lagt til að tollgæslan fái sambærilegar heimildir til þess að vinna persónuupplýsingar og lögreglan hefur í dag.

Fjórða tillaga frumvarpsins snýr að auknum heimildum tollgæslu til að leita í innrituðum farangri á alþjóðaflugvöllum. Mun þá engu skipta hvort viðkomandi er á leið til eða frá landinu og er sú nýjung lögð til að viðkomandi ferðamaður þarf ekki lengur að vera viðstaddur leit í farangrinum.

Athygli vekur að tilgangur og markmið þessa atriðis er sérstaklega tiltekið. „Þörfin fyrir ákvæði þetta tekur fyrst og fremst til flutnings á reiðufé úr landi en ábendingar hafa borist tollgæslu og lögreglu að þessi leið hafi verið notuð í flutningu á reiðufé úr landi, m.a. reiðufé sem grunur leikur á að sé afrakstur refsiverðrar brotastarfsemi s.s. fíkniefnasölu og vændis,“ segir í frumvarpinu. Þá segir jafnframt að núgildandi lög veiti tollgæslu aðeins heimild til að skoða innihald farangurs að ferðamanni viðstöddum. Segir þar að það sé slíkum vandkvæðum bundið að slík leit verði í raun óframkvæmanleg vegna skipulags flugvalla. Verði frumvarpið að veruleika, mun tollgæslan aðeins þurfa að láta viðkomandi vita að leitað hafi verið í farangrinum eftir á. Víða erlendis er slíkt gert með því að skilja miða eftir í farangrinum að leit lokinni.

Í fimmta lagi er lagt til að skýrt verði hver ber ábyrgð á skilum á farmskrám til tollyfirvalda og sektarheimildir tollgæslu vegna vanrækslu á þeirri skyldu skýrð.

Ljóst er að starf tollvarða á Keflavíkurflugvelli tæki miklum breytingum við þetta. Í stað þess að eiga það á hættu að vera „pikkaður út“ af tollverði í gangnaendanum alræmda í Leifsstöð gæti ferðamanna þess í stað beðið miði í töskunni um að gramsað hafi verið í henni án vitundar ferðamannsins.

Þá er mikilvægi breytinganna gerð ítarleg skil í frumvarpinu:

Mikilvægt er að tollyfirvöld hafi ríkar heimildir til að miðla upplýsingum í löggæslutilgangi enda hefur það sýnt sig erlendis að skortur á samstarfi milli löggæslustofnana getur hamlað eðlilegu löggæslustarfi og komið í veg fyrir að takist að afstýra afbrotum, t.d. hryðjuverkum.

Ekki er fjallað nánar um hvaða hryðjuverk íslensk tollgæsla hefur, eða ætlar sér að afstýra með aukinni söfnun persónuupplýsinga.

Hver sem vill getur skilað inn umsögn um frumvarpið á samráðsgátt stjórnvalda. Þar má jafnframt finna frumvarpsdrögin. Samráðsgátt stjórnvalda má nálgast hér.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Eyjan
Fyrir 1 viku

Magnús vill leiða Pírata í Norðvesturkjördæmi – Lögmaður Khedr-fjölskyldunnar

Magnús vill leiða Pírata í Norðvesturkjördæmi – Lögmaður Khedr-fjölskyldunnar
Eyjan
Fyrir 1 viku

Brynjar sakar Þorvald um spillingu – „Menn sem ólust upp í aftursæti ráðherrabifreiðar eiga síst allra að mæla og meta spillingu hjá öðrum.“

Brynjar sakar Þorvald um spillingu – „Menn sem ólust upp í aftursæti ráðherrabifreiðar eiga síst allra að mæla og meta spillingu hjá öðrum.“