fbpx
Föstudagur 26.apríl 2024
Eyjan

Stjórnmálaprófessor: Möguleiki á einhvers konar „Reykjavíkurmeirihluta“ á Alþingi

Erla Hlynsdóttir
Sunnudaginn 30. ágúst 2020 18:00

Ríkisstjórnarsamstarf Framsóknarflokks, Vinstri grænna og Sjálfstæðisflokks hefur þótt ganga ágætlega. Mynd/Sigtryggur Ari

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Ólafur Þ. Harðarson stjórnmálafræðiprófessor segir mögulegt að við séum að færa okkur í átt að almennum haustkosningum. Hann veltir upp ólíkum myndum þegar kemur að ríkisstjórnarsamstarfi.

„Það gæti vel verið að við værum að færa okkur frá vorkosningum til Alþingis og inn í haustkosningar almennt,“ segir Ólafur Þ. Harðarson, prófessor í stjórnmálafræði. Samkvæmt tilkynningu frá forsætisráðherra verður kosið til Alþingis þann 25. september á næsta ári en hefðbundið er að þingkosningar fari fram að vori. Sú ríkisstjórn sem nú situr var hins vegar mynduð eftir kosningar í október 2017 sem voru haldnar á óhefðbundnum tíma eftir að Björt framtíð sleit ríkisstjórnarsamstarfi við Viðreisn og Sjálfstæðisflokkinn vegna trúnaðarbrests. Kosningar að ári verða því þegar mánuður er eftir af fjögurra ára kjörtímabili.

Ólafur Þ. Harðarson stjórnmálaprófessor. Mynd/Ernir

„Það er í sjálfu sér ekkert óeðlilegt við að ríkisstjórnin vilji sitja heilt kjörtímabil frekar en að stytta það. Margir hafa talað um að það skipti máli að kjósa að vori þannig að ný ríkisstjórn fái tækifæri til að setja mark sitt á fjárlög fyrsta ársins. Þá má benda á að það er kosið að hausti bæði í Noregi og Svíþjóð, svo dæmi séu tekin. Ef ekki eru miklar sveiflur í fjárlagagerð og embættismenn hafa lagt línurnar að mestu leyti varðandi fjárlög næsta árs skiptir ekki sköpum þó ný ríkisstjórn taki við að hausti,“ segir Ólafur.

Pirringur í gangi

Búast má við að baráttan um atkvæðin hefjist strax á haustmánuðum þó eiginleg kosningabarátta eigi sér stað nær kjördegi. „Þessi síðasti vetur fyrir kosningar mun hafa áhrif á flokkana. Ef við skoðum ríkisstjórnarsamstarfið þá virðist það hafa gengið mjög vel og engin ástæða til að ætla annað en að stjórnin sitji fram á næsta haust. Sannarlega hefur orðið vart við ákveðinn pirring hjá einstaka þingmönnum innan stjórnarflokkanna sem gæti hugsanlega aukist en heilt yfir gengur þetta vel,“ segir hann. Ólafur bendir á að í vetur megi reikna með að fulltrúar allra flokka fari að velta fyrir sér hvaða stjórnarsamstarf sé í spilunum.

„Fyrst ber að nefna að í COVID hefur stuðningur við ríkisstjórnina farið upp og þegar litið er til stuðnings við ríkisstjórnina á þessum tíma kjörtímabils þá er hann alveg prýðilegur. Stuðningur við flokkana í ríkisstjórn hefur hins vegar ekki verið í samræmi við þetta. Í öllum síðustu könnunum hafa ríkisstjórnarflokkarnir samanlagt verið með töluvert minna en helming atkvæða. Miðað við þessar kannanir þá myndi ríkisstjórnin falla. Það sem eykur líkur á að hún falli er að í raun allir flokkar sem hafa setið í ríkisstjórn frá hruni hafa tapað fylgi eftir stjórnarsetu. Líkurnar á að ríkisstjórnarflokkarnir nái að halda meirihluta hljóta því að teljast minni en meiri,“ segir hann.

Miðflokkurinn skapar sér sérstöðu

Ólafur setur upp nokkrar sviðsmyndir af því sem gæti gerst eftir kosningar ef ríkisstjórnarflokkarnir ná ekki að halda meirihluta. „Fyrsti augljósi möguleikinn er að þeir reyni að bæta við sig fjórða flokknum, það er ef þessir þrír flokkar vilja halda áfram að vinna saman. Bæði Samfylking og Píratar hafa lýst því yfir að þeir vilji ekki fara í stjórn með Sjálfstæðisflokknum, hvort sem það heldur eða ekki. Viðreisn væri því einn möguleikinn en ég er ekki sannfærður um að það væri líkleg niðurstaða. Annar möguleiki er Miðflokkurinn. Mér finnst þó ólíklegt að Vinstri græn og Framsókn myndu vilja taka hann með. Reyndar hef ég upplifað að Miðflokkurinn sé að skapa sér sérstöðu í íslenskum stjórnmálum sem gerir að það gæti verið erfitt fyrir aðra flokka að vinna með honum. Við sáum í forsetakosningunum að stór hluti kjósenda Miðflokksins studdi Guðmund Franklín á meðan yfirgnæfandi meirihluti allra annarra flokka, utan Flokks fólksins, studdi Guðna [Th. Jóhannesson]. Ýmislegt er til marks um að Miðflokkurinn sé að verða lýðhyggjuflokkur, eða popúlistaflokkur, sem er líklegt að einangri hann þegar kemur að möguleikum á stjórnarmyndun.“

Hann bendir á að annar möguleiki sé að ríkisstjórnarflokkarnir einfaldlega bæti nýjum flokki inn í samstarfið eftir kosningar. Enn annar möguleiki sé að mynda það sem hann kallar „einhvers konar Reykjavíkurmeirihluta“. Ólafur vísar þar til meirihlutasamstarfs Samfylkingar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna í borgarstjórn. „Það virðist vera töluverð málefnaleg samstaða milli Samfylkingar, Pírata og Viðreisnar á Alþingi þó auðvitað sé líka margt sem greinir þessa flokka að. Ég myndi telja að þessir flokkar væru ekki ólíklegir til að vilja fara saman í ríkisstjórn og taka þá Vinstri græna með. Ég tel ekki útilokað að Vinstri græn myndu hoppa á slíkan vagn. Hér er þó ekki heldur útilokað að Framsókn kæmi inn, hvort sem það væri sem fimmti flokkurinn eða í stað Pírata,“ segir Ólafur.

Vinstri græn í lykilstöðu

„Ég sé engar málefnalegar hindranir á því að Píratar færu inn í slíkt stjórnarsamstarf nema þeir gerðu það að skilyrði að frumvarp stjórnlagaráðs yrði samþykkt óbreytt. Við síðustu stjórnarmyndun töldu margir Pírata ekki stjórntæka, hvort sem það var rétt mat eða ekki. Það sem eykur líkur á að menn séu tilbúnir í samstarf með þeim er að þetta þriggja flokka samstarf í stjórnarandstöðunni virðist ganga mjög vel. Í borgarstjórnarmeirihlutanum er heldur ekki að sjá að hinir flokkarnir telji Pírata hafa verið til nokkurra vandræða. Þetta tvennt gæti skipt máli,“ segir Ólafur. Hann bendir þó á að ýmsir gætu viljað fá Framsókn inn í slíkt samstarf. „Það væri þá stærri stjórn sem gæti haldið velli þó Píratar myndu hlaupa undan merkjum. Slík stjórn væri ávísun á meiri stöðugleika. En ég tek fram að þetta eru allt auðvitað bara vangaveltur,“ segir hann. Hann telur alls óvíst að Flokkur fólksins nái inn manni í næstu kosningum og að flokkurinn skipti litlu máli þegar kemur að stjórnarmyndun.

Ólafur segir að á komandi þingvetri gætu fulltrúar flokkanna reynt að „hafa sæmilega gott veður“ milli þeirra flokka sem viðkomandi teldu hugsanlega geta komið með sér í ríkisstjórn. „Kannski á þetta sérstaklega við Vinstri græn,“ segir hann. Ekki er von á raunverulegum kosningaskjálfta fyrr en á vorþinginu en ýmsir gætu þó farið að brýna tennurnar. „Við sjáum líklega strax í haust að stjórnarandstaðan hvessi sig. Hún hefur þegar verið að hvessa sig varðandi veiðigjöldin en aðallega verður kosningaskjálftinn í vor og síðan má búast við baráttunni upp úr miðjum ágúst á næsta ári,“ segir Ólafur.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Eyjan
Fyrir 3 dögum

Halla Hrund stóreykur fylgi sitt – Mælist með meira fylgi en Jón Gnarr

Halla Hrund stóreykur fylgi sitt – Mælist með meira fylgi en Jón Gnarr
EyjanFastir pennar
Fyrir 4 dögum

Björn Jón skrifar: Ótrúlegur árangur íslenskra tæknifyrirtækja

Björn Jón skrifar: Ótrúlegur árangur íslenskra tæknifyrirtækja
Eyjan
Fyrir 5 dögum

Framsókn baunar á Samfylkinguna sem undirbýr að taka við stjórnartaumunum

Framsókn baunar á Samfylkinguna sem undirbýr að taka við stjórnartaumunum
Eyjan
Fyrir 5 dögum

Segja tillögu Einars fela í sér „afarkjör“ og hafa verið laumað að

Segja tillögu Einars fela í sér „afarkjör“ og hafa verið laumað að
Eyjan
Fyrir 6 dögum

Sigurjón skammar smákóngana í stjórnsýslunni – „Það vita allir í kerfinu af þessari fyrirstöðu en aldrei skal hróflað við Smákónginum“

Sigurjón skammar smákóngana í stjórnsýslunni – „Það vita allir í kerfinu af þessari fyrirstöðu en aldrei skal hróflað við Smákónginum“
Eyjan
Fyrir 6 dögum

Lindarhvoll: Leyndarhyggjan enn við lýði – svör berast seint, illa eða ekki

Lindarhvoll: Leyndarhyggjan enn við lýði – svör berast seint, illa eða ekki