fbpx
Mánudagur 28.september 2020
Eyjan

6 eftirminnileg hneyksli á Alþingi

Ritstjórn Eyjunnar
Laugardaginn 29. ágúst 2020 22:30

Gunnar Bragi Sveinsson er fyrsti ræðumaður kvöldsins. Reikna má með að fleiri verði í þingsal en á þessari mynd. Mynd/Valli

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Enginn er fullkominn og öllum verður okkur á í messunni. Fæst- ar yfirsjónir vekja þó jafnmikla athygli og þær sem kjörnir full- trúar okkar gerast sekir um.

Þessi samantekt birtist í helgarblaði DV þann 21. ágúst

Í ljósi vinkonuhittings ferðamálaráðherra sem mikið hefur farið fyrir í vikunni rifjast upp nokkur eftirminnileg hneyksli og viðbrögð hlutaðeigandi við þeim, þar sem fæstir báðust afsökunar eða gengust við myrkraverkum sínum.

Vandinn og fegurðin felst í því hversu fljótt snjóar yfir skandala. Er þá gjarnan bent á að þjóðfélagið hér á landi er mjög umburðarlynt eða meðvirkt, sjálfsagt vegna fámennis. Stjórnmálamaður haggast ekki nema viðkomandi missi tiltrú félaga sinna.

1 Samherjamálið

Samherjamálið kom upp síðasta haust eftir umfjöllun Kveiks, Stundarinnar og Al Jazeera um meintar mútugreiðslur Samherja í Namibíu. Athygli vakti þá að Kristján Þór Júlíusson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, er góður vinur forstjóra Samherja, Þorsteins Más Baldvinssonar. Hæfi Kristjáns í málefnum Samherja var því dregið í efa og kröfðust margir þess að ráðherra segði af sér. Kristján fór þá millileið að segja sig frá þeim málum er varða Samherja og fá þau öðrum til úrlausna.

2 Klausturmálið

Sex þingmenn komu saman á barnum Klaustri í nóvember árið 2018 og áttu þar spjall um kollega sína og fleiri þekkta Íslendinga. Samtal þeirra var ekki til fyrirmyndar og voru bæði nafntogaðir einstaklingar og minnihlutahópar teknir fyrir með niðrandi hætti. Þingmennirnir sex ákváðu þó að snúa vörn í sókn. Í stað þess að gangast við ábyrgð á framkomunni reyndu þeir að koma höggi á uppljóstrarann, Báru Halldórsdóttur, með því að stefna henni fyrir dóm en varð ekki kápan úr því klæðinu. Sexmenningarnir töldu sig með engum hætti þurfa að bera pólitíska ábyrgð og sitja enn allir á þingi

3 Akstur Ásmundar

Ásmundur Friðriksson var grunaður um að hafa misfarið með almannafé árið 2018 eftir að í ljós kom að hann innheimti himinháar akstursgreiðslur af Alþingi. Meðal annars fékk hann endurgreiddan útlagðan aksturskostnað vegna þáttagerðar fyrir ÍNN sem tengdist ekki þingstörfum hans. Árið 2017 fékk Ásmundur um 4,6 milljónir króna í akstursgreiðslur sem jafngildir rúmlega 380 þúsund krónum á mánuði. Hefði að líkindum verið töluvert ódýrara fyrir þingmanninn að vera á bílaleigubíl og fá aðeins bensínkostnað endurgreiddan af þinginu.

Frá því að málið kom upp hefur aksturskostnaður Alþingis lækkað töluvert. Hins vegar fór Ásmundur þá leið að sitja sem fastast á þingi og kvartaði til siðanefndar Alþingis, forsætisnefndar og Evrópuráðsþingsins vegna ummæla þingmannsins Þórhildar Sunnu Ævarsdóttur um athæfi hans.

4 Wintris-málið

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson var forsætisráðherra 2016 þegar hann fór í Kastljóssviðtal. Í viðtalið var hann fenginn á fölskum forsendum og var óvænt spurður út í aðkomu sína að aflandsfélaginu Wintris sem hafði verið í eigu hans og eiginkonu hans. Var hann vændur um að fela eignir í skattaskjóli. Sigmundur laug í viðtalinu og kvaðst ekkert kannast við félagið. Sigmundur sagði í kjölfarið af sér sem forsætisráðherra og klauf hann sig úr Framsóknarflokknum og stofnaði sinn eigin flokk, Miðflokkinn, sem hann situr fyrir á þingi í dag.

5 Lekamál Hönnu

Hanna Birna Kristjánsdóttir, þáverandi innanríkisráðherra, sagði af sér í nóvember 2014 í kjölfar hneykslis sem í daglegu tali kallast Lekamálið. Málið kom upphaflega upp ári fyrr þegar ljóst var að minnisblaði með trúnaðarupplýsingum um hælisleitanda hafði verið lekið í fjölmiðla. Málið vakti mikla athygli og reiði meðal almennings. Tvímælalaust komu upplýsingarnar úr innanríkisráðuneytinu en enginn gekkst þó framan af við því að eiga sök á lekanum. Allra augu voru því á Hönnu Birnu sem fyrirsvarsmanni ráðuneytisins.

Hanna sór af sér sakir og taldi málið allt vera pólitískt útspil sem væri ætlað að koma á hana höggi. Reynir Traustason, þáverandi ritstjóri DV, greindi frá því að Hanna Birna hefði haft samband við hann og reynt að beita hann þrýstingi til að hafa áhrif á fréttir af Lekamálinu. Síðar steig aðstoðarmaður Hönnu Birnu fram og gekkst við lekanum. En skaðinn var skeður og Hanna Birna sá sér ekki annað fært en að segja sig frá embætti sínu.

6 Ási að fá sér

Ásmundur Einar Daðason, félags- og barnamálaráðherra, var sakaður um að hafa verið ölvaður í flugi frá Bandaríkjunum árið 2015. Mun hann hafa orðið slappur í maganum og kastað ítrekað upp í fluginu og yfir nokkur sæti við salerni vélarinnar. Vitni að atvikinu voru fjölmörg. DV bárust ítrekaðar ábendingar um að Ásmundur, sem þá var þingmaður, hefði drukkið af miklum metnaði í flugferðinni. Ásmundur tók þó fyrir að hafa verið ölvaður. „Ég fékk einhverja magakveisu þennan dag og hélt engu niðri. Ég ældi út um allt,“ sagði hann í samtali við DV. Sagðist hann enn fremur ætla að leita sér læknisaðstoðar vegna kveisunnar. Uppákoman vakti mikla athygli og varð myllumerkið #ásiaðfásér vinsælt á Twitter.

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Eyjan
Fyrir 4 dögum

Kristján hjólar í atvinnurekendur- „Þetta hefur þú aldrei lesið í fréttum“

Kristján hjólar í atvinnurekendur- „Þetta hefur þú aldrei lesið í fréttum“
Eyjan
Fyrir 4 dögum

Ásmundur Einar leggur til styttingu á tökutímabili fæðingarorlofs – Aðeins einn mánuður til skiptana

Ásmundur Einar leggur til styttingu á tökutímabili fæðingarorlofs – Aðeins einn mánuður til skiptana