fbpx
Fimmtudagur 18.apríl 2024
Eyjan

Ágúst Ólafur hjólar í Samtök atvinnulífsins – „Virðist vanta eitthvað á raunveruleikatilfinninguna hjá sumum“

Jón Þór Stefánsson
Fimmtudaginn 13. ágúst 2020 17:40

Samsett mynd - Ágúst Ólafur og Anna Hrefna

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Í dag sagði forstöðumaður efnahagssviðs Samtaka atvinnulífsins, Anna Hrefna Ingimundardóttir, að hækkun atvinnuleysisbóta valdi meira atvinnuleysi. Þetta kom í fram í viðtali hennar í Bítinu á Bylgjunni í morgun.

Ágúst Ólafur Ágústsson, þingmaður Samfylkingarinnar er ansi ósáttur með þessa skoðun Önnu, og bendir á að atvinnuleysisbætur séu 243 þúsund krónur eftir skatt. Hann segir að stundum vanti „raunveruleikatilfinninguna“ í fólk.

„Alltaf gæskan sem skín frá Samtökum atvinnulífsins. Núna er barátta þeirra að það megi bara alls ekki hækka atvinnuleysisbætur sem eru heilar 243 þús kr. eftir skatt! Rökin hjá SA eru m.a. þau að bætur megi nú ekki vera of háar því þá sé hætta að fólk vilji bara vera á þessum lúxusbótum í stað þess að vinna. Stundum virðist vanta eitthvað á raunveruleikatilfinninguna hjá sumum. Þá hafa þessi samtök miklar áhyggjur að það þurfi nú að fjármagna þessar bætur og það virðist bara vera hrikaleg byrði.“

Ágúst segir að Samtök Atvinnulífsins hljóti því að vilja lækka atvinnuleysisbætur, þar sem að það ætti að draga úr atvinnuleysi samkvæmt þeirra rökum,

„Loks eru þau rök SA talin fram að atvinnuleysisbætur auki í raun atvinnuleysi. Mætti þá ekki telja að „lækkun“ atvinnuleysisbóta væri jafnvel á stefnuskrá SA enda ætti það þá að draga úr atvinnuleysi samkvæmt þeirra eigin rökum.“

Þá spyr Ágúst sig hvort að forsvarsfólk samtakanna myndu treysta sér að lifa á sömu launum og þeir sem eru á atvinnuleysisbótum. Að lokum segir hann að stjórnarflokkarnir séu á sömu skoðun og Samtök atvinnulífsins, þar sem að þau hafi kosið að hækka ekki atvinnuleysisbætur.

„Ég á nú eftir að sjá forsvarsfólk Samtaka atvinnulífsins treysta sér til að lifa á þessum lúsarlaunum. Nú þegar þúsundir samborgara okkar og vinir eru dæmdir til að lifa á 243 þús á mánuði má velta fyrir sér hvort þetta sé slagurinn sem Samtök íslensks atvinnulífs kýs að taka.

Að lokum vil ég rifja upp að þetta virðist ekki bara vera afstaða Samtaka atvinnulífsins heldur einnig allra þingmanna Vinstri grænna og Framsóknar (og auðvitað Sjálfstæðisflokksins). Því þau öll með tölu eru nýbúin að staðfesta vilja sinn að hafa atvinnuleysisbætur svona lágar en það gerðu þau þegar þau beinlínis ýttu öll á nei-hnappinn við tillögu á Alþingi um hækkun þessara lágu bóta.“

https://www.facebook.com/agust.o.agustsson.3/posts/10158765774838035

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt