fbpx
Mánudagur 06.júlí 2020
Eyjan

Harðar ásakanir á aðalfundi Eflingar þegar brottrekinn bókari hélt ræðu

Ágúst Borgþór Sverrisson
Fimmtudaginn 28. maí 2020 15:54

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

„Ég er ekki manneskja sem vill vera í fjölmiðlum en mér er bara svo ofboðið,“ segir Elín Hanna Kjartansdóttir, fyrrverandi bókari Eflingar, en hún hefur afhent DV afrit af harðorðri ræðu sem hún flutti á aðalfundi Eflingar þann 20. maí síðastliðinn. Þar gagnrýndi hún Eflingu harðlega vegna starfsloka sinna en Elín er ein af nokkrum fyrrverandi starfsmönnum Eflingar sem saka formann félagsins, Sólveigu Önnu Jónsdóttur, og framkvæmdastjórann, Viðar Þorsteinsson, um að hafa sýnt sér ólíðandi framkomu og flæmt sig úr starfi.

Morgunblaðið greinir frá þessu í dag.

„Þegar er brotið er svona á manni þá setur það vond fordæmi fyrir atvinnurekendur sem eru viðsemjendur verkalýðsfélaga,“ segir Elín í samtali við DV. „Það sem mér finnst skipta máli í þessu er að þegar verkalýðshreyfingin kemur svona fram við eigið starfsfólk sem hefur ekkert bakland til að leita til þá er verkalýðshreyfingin að bregðast illa,“ segir hún ennfremur og bendir á að starfsfólk verkalýðsfélaga séu meðlimir í þeim sömu verkalýðsfélögum og geti því ekkert leitað annað með mál sín þegar þau telja á sér brotið.

Í ræðu sinni sagði Elín að hún væri 66 ára gömul og kona á hennar aldri eigi enga möguleika á öðru starfi á vinnumarkaðnum. Lífeyrigreiðslur hennar séu nú skertar þar sem henni hafi verið bolað úr starfi áður en hún komst á eftirlaun.

Elín tók 18 mánaða veikindaleyfi samkvæmt læknisráði en er hún var tilbúin til að snúa til starfa aftur var henni sagt upp. Um þetta segir í ræðu Elínar:

„Sendi lögmaður minn tilkynningu þann 9. mars síðastliðinn til Eflingar um endurkomu mína til starfa. Þann 12. mars 2020, sem er afmælisdagur Alþýðusambandsins, fékk ég svarbréf frá Lögmannsstofunni Mandat þar sem lögmaður stofunnar segir mér upp störfum f.h. Eflingar frá og með næstu mánaðamótum með sex mánaða uppsagnarfresti, ekki er óskað eftir vinnuframframlagi frá mér á uppsagnafresti. Allt í boði valdhafa Eflingar og það með upplognum sökum og ætluðum gjörðum,“

Elín sagði enn fremur í ræðu sinni:

„Ég hef verið viðloðandi  verkalýðshreyfinguna  hátt í 40 ár. Ég kom fyrst  inn í hreyfinguna sem trúnaðarmaður  starfsmanna í fiskvinnslu og  hef unnið  mikla sjálboðavinnu sem stjórnarmaður, nefndarmaður og trúnaðarráðsmaður áður en ég fór  að starfa í launaðri vinnu hjá  stéttarfélögum  á Akranesi og síðar Eflingu. Efling-stéttarfélag var góður vinnustaður þar sem við sem þar störfuðum fundum fyrir trausti og velvild forsvarsmanna félagsins í garð okkar starfsmanna.“

Sólveig greip mikið frammi í

Elín segir í samtali við DV að Sólveig Anna, formaður Eflingar, hafi gripið mikið frammi í þegar Elín flutti ræðu sína, og var þá að neita staðhæfingum í ræðunni, sem eru mjög harðorðar. Eftir ræðuna vék Elín hins vegar af fundi.

Sólveig Anna vildi ekki tjá sig um uppákomuna við Morgunblaðið. DV leitaði álits hjá Viðari Þorsteinssyni sem sagðist heldur ekki vilja tjá sig neitt um málið.

Í ræðunni sakar Elín formanninn um að hafa rekið konurnar sem voru að nálgast eftirlaunaaldur eftir margra ára farsælt starf hjá Eflingu. Hún sakar hana um að reka starfsfólk sem sneri til starfa eftir langvarandi veikindi. Ennfremur segir:

„Þín verður minnst sem formannsins  sem lagði blessun sína yfir að það mætti bola fólki úr starfi, leggja það í einelti og skerða tjáningafrelsi þess og hóta því og beita andlegu ofbeldi.

Þín verður minnst sem formanninum  sem lagði blessun sína yfir það að ljúga upp brottrekstarsökum á starfmenn Eflingar og láta fylgja þeim eins og ótýndum glæpamanni út úr húsi.

Þín verður minnst sem formaður  sem samþykkir að það sé í lagi og gott og blessað að loka fyrir öll samskipti við starfsfólk, taka það út af póstlista, loka fyrir aðgang að upplýsingum um dagleg störf þess,  auglýsa störf  án alls samráð við starfsmann í veikindum og alls ekki að hafa samband við starfsfólkið  í veikindum.“

Ræðan í heild

Ræða Elínar Hönnu Kjartansdóttur á aðalfundi Eflingar-stéttarfélags 2020 er eftirfarandi:

„Fyrir hvað verður þín minnst, Sólveig Anna Jónsdóttir

-eftir Elínu Kjartansdóttur, fyrrum starfsmaður  Eflingar

 

Fundarstjóri, góðir fundarmenn

 

Fyrir þá sem ekki þekkja mig þá heiti ég Elín Kjartansdóttir og er ein af  þeim starfsmönnum sem voru reknir eða flæmdir í burtu frá félaginu. Eftir átján mánaða veikindi og erfiðan tíma  taldi læknir minn að ég væri tilbúin að koma  aftur til starfa og var ég honum sammála. Sendi   lögmaður minn  tilkynningu  þann 9.mars síðastliðinn til Eflingar um endurkomu mína til starfa.

Þann  12.mars 2020 sem er afmælisdagur Alþýðusambandsins, fékk ég svarbréf frá  Lögmannstofunni  Mandat  þar sem lögmaður stofunnar segir mér upp störfum f.h. Eflingar frá og með næstu mánaðamótum  með  sex mánaða uppsagnafresti,  ekki er óskað eftir vinnuframframlagi frá mér á uppsagnafresti.

Allt í boði valdhafa Eflingar og það með  upplognum sökum og ætluðum gjörðum.

Mér er ekki ljúft að standa hér í pontu og fara yfir mál mitt en réttlætiskennd minni hefur verið svo gjörsamlega misboðið  að ég tel mig knúna til að vera hér á aðalfundi og segja frá máli mínu. Aðalfundur er jú  æðsta vald félagsins og við höfum sem félagsmenn málfrelsi allavega enn sem komið er og ég er fullgildur félagsmaður. Því miður er ekki hægt að fara náið yfir atburðarásina  í stuttu máli á svona fundi. Ég yrði  hér  í allt kvöld ef ég ætti að gera það  en ég geri ráð fyrir að flestir viti að það hafi gengið ýmislegt á í starfsmannamálum og mikið hefur verið sagt og og komið fram í fjöldmiðlum. Vil ég fullyrða og legg drengskap minn við að það  sem er haft eftir okkur í fjölmiðlum og sent hefur verið til  ASÍ og SGS og stjórnarmönnum Eflingar á sínum tíma er svo sannarlega  rétt eftir haft. Það er ekki hægt að segja það sama  sem haft er eftir formanni og framkvæmdastjóra. Þar er  ýmislegt tekið úr samhegi og hreint og beint logið og trúnaður brotinn.

En hér er ég nú stödd á þessum aðalfundi Eflingar með fullt málfrelsi. Ég er að verða  66 ára og kona á mínum aldri á enga möguleika á nýju starfi á vinnumarkaðnum  og lífeyrissgreiðslur fyrir mína kynslóð sem aldrei hefur verið í vinnu hjá hinu opinbera og á engan rétt í 90 ára reglu eða einhverju álíka á eingöngu réttindi hins almenna vinnumarkaðar. Þar eru réttindi  ekki til að hrópa húrra fyrir og til viðbótar eru lífeyrissréttindi mín  skert  um tæp tvö ár í boði  valdhafa Eflingar.

Ég hef verið viðloðandi  verkalýðshreyfinguna  hátt í 40 ár. Ég kom fyrst  inn í hreyfinguna sem trúnaðarmaður  starfsmanna í fiskvinnslu og  hef unnið  mikla sjálboðavinnu sem stjórnarmaður, nefndarmaður og trúnaðarráðsmaður áður en ég fór  að starfa í launaðri vinnu hjá  stéttarfélögum  á Akranesi og síðar Eflingu. Efling-stéttarfélag var góður vinnustaður þar sem við sem þar störfuðum fundum fyrir trausti og velvild forsvarsmanna félagsins í garð okkar starfsmanna.

En nú er öldin önnur. Mér og mörg hundruð öðrum er lítið þakkað það enda eru undantekningar á því að fólk komi beint af gólfinu til starfa hjá félagi eins og Eflingu.  Ég hef varið meirihluta  starfsævinnar hjá hreyfingunni  þegar mér er kastað út af vinnustaðnum með þeim afleiðingum að starfskjör mín síðustu árin og lífeyriskjör eru skert.  Hver gerir svona?  Jú, þetta er til hjá slæmum atvinnurekendum. Efling er nú orðin fyrirmynd verstu atvinnurekenda.  Þvílík vanvirðing og miskunnarleysi þeirra sem hér ráða. Ekki er þar við covid eða córónuveiruna að sakast.  Að enda vinnuferilinn sinn  á þennan hátt  og geta ekki lokið löngum og farsælum ferli  með reisn, veldur sorg og vanlíðan.

Þetta eru fordómar  gagnvart eldra fólki og ekki síst konum því það eru konurnar í starfshópi félagsins  sem hafa fengið að kenna á því hjá forystu Eflingar.

Fordæmi þessi vinnubrögð

Því fordæmi ég þessi vinnubrögð sem þið forsvarsmenn Eflingar og stjórn hafið  viðhaft hér í  starfsmannamálum síðan þið tókuð við stjórn félagsins vorið 2018.

Sólveig Anna formaður.   Þín verður ekki minnst á spjöldum  sögunnar sem frelsishetju  sem „frelsaði“  (með leyfi fundarstjóra orðalag Sólveigar „ kúgaða láglaunakonur „ eða að   þú hafir náð svo  stórkostlegum kjarasamingi  sem hækkuðu þær lægslaunuðu konur  upp úr öllum hæðum.  Nei þín verður ekki minnst fyrir það.  Það er ekkert nýtt undir sólinni að berjast fyrir að hækka lægstu launin og ná þeim árangri  það hefur verið gert í áranna rás og margir formenn stéttarfélaga hafa gert það undan þér.  Alla tíð undir stjórn Eflingar og eldri félaga, var ætíð samið um að lægstu laun hækkuðu meira en önnur laun. Það er ekkert nýtt.

Fyrir hvað verður þín minnst?

Þín verður ekki minnst fyrir að gera einhverja sérstaklega  góða kjarasamninga sem eru eitthvað betri en fyrirrennar þínir í embætti hjá  hreyfingunni hafa gert. NEI. Sannarlega ekki að mínu mati.

Þín  verður minnst á spjöldum sögunnar sem formanni verkalýðsfélagsins sem  rak skrifstofustjóra Eflingar frammi fyrir öllum starfsmönnum  í beinni útsendingu á starfsmannafundi. Hvílík niðurlæging.

Þín verður minnst sem formanns stéttarfélags sem neitaði að greiða skrifstofustjóranum sem var í ráðningasambandi við Eflingu veikindadaga þegar hann veiktist mjög alvarlega.

Þín  verður minnst sem formanninum  sem  rak starfskonurnar  sem voru að nálgast  eftirlaunaaldur eftir margra ára farsælt starf hjá Eflingu

Þín verður minnst sem formanninum sem rak  starfsfólkið eftir langvarandi veikindi sem voru að snúa aftur til starfa.

Þín verður minnst sem formannsins sem rak  eldri konurnar og skerti lífeyrisréttindi þeirra  svo  um munar.

Þín verður minnst sem formannsins  sem lagði blessun sína yfir að það mætti bola fólki úr starfi, leggja það í einelti og skerða tjáningafrelsi þess og  hóta því og beita andlegu ofbeldi.

Þín verður minnst sem formanninum  sem lagði blessun sína yfir það að ljúga upp brottrekstarsökum á starfmenn Eflingar og láta fylgja þeim eins og ótýndum glæpamanni út úr húsi.

Þín verður minnst sem formaður  sem samþykkir að það sé í lagi og gott og blessað að loka fyrir öll samskipti við starfsfólk, taka það út af póstlista, loka fyrir aðgang að upplýsingum um dagleg störf þess,  auglýsa störf  án alls samráð við starfsmann í veikindum og alls ekki að hafa samband við starfsfólkið  í veikindum.

Þín verður minnst fyrir þá dagskipun til lögmanna að semja alls ekki við starfsfólk eða finna einhverja lausn á málum sem koma upp. Starfsfólk eigi alls ekki að leita réttar síns og réttmætar kvartanir þess skuli flokkast í þínum munni undir klögumál.

Síðan en ekki síst verður þín minnst sem formanninum  sem gaf  atvinnurekendum fordæmi um   hvernig má fara illa með starfsfólk. Held að engum formanni hafi tekist það í  stéttarbaráttu áður að opna þannig skotleyfi á starfsmenn stéttarfélaga með upplognum ávirðingum.

 

Stéttarfélög eiga að vera fyrirmynd

Stéttarfélög eiga vera fyrirmynd í mannauðsmálum og  gefa fordæmi fyrir aðra um góða siði, heiðarleika og virðingu fyrir starfsfólki. Starfólkið er mannauðurinn. Ég hefði nú haldið að formaður Eflingar ætti að að vita það. Hún hefur ekki svo sjaldan skrifað um „vinnuaflið“ eins og hún nefnir okkur launafólkið  og þá vannvirðingu sem hún telur að það verði  fyrir að hálfu  margmiljóna krónu mannanna svo ég vitni í hennar eigin orð.  Hef oft hugsað það í þessum hremmingum og í veikindum mínum að að núverandi valdhafar Eflingar, þá á ég við formann og framkvæmdastjóra, hafi mikla  fordóma gagnvart eldra fólki.

 

Mig langar að að vitna í skrif eftir  þig Sólveig  sem kom nýlega fram í Kjarnanum með leyfi fundarstjóra.

Ég og félagar mínir í Eflingu þekkjum það ömurlega andlega ofbeldi betur en flestir á þessu landi. Í tvö ár höfum við þurft að hlusta á það því sem næst stanslaust að barátta okkur fyrir efnahagslegu réttlæti sé hryllileg ógæfa. Okkur hefur verið stillt upp sem óvinum þjóðarinnar. Láglaunakonan hefur verið gerð ábyrg fyrir því sem næst öllu; viðhald stöðugleikans hefur oftar en ekki verið alfarið á hennar vinnulúnu herðum. Margmilljón-króna mennirnir hafa staðið þétt saman í að reyna að kremja rettlætisbaráttu kven-vinnuaflsins.“ 

 

Ég fann svo sannarlega samsvörun með þessum skrifum þínum. Ég er félagi í Eflingu og ég þekki það andlega obeldi sem þú hefur beitt mig og félaga mína, allt annað brottrekið og burtflæmt  starfsfólk Eflingar síðasliðin 2 ár og baráttu okkar fyrir réttlæti,  sanngirni  og virðingu.  Okkur hefur verið stillt upp sem óvinum Eflingar sem hafa krafist margmiljóna starfslokasamninga. Þetta eru ósannindi.    En við erum bara launafólk og eigum okkar rétt og virðingu skilið.  Í þessu máli  ert þú  í hlutverki margmiljónkróna mannsins.

 

Ég ætla að  enda þetta erindi mitt með kvæði  eftir frænku mína Jakobínu Sigurðardóttir skáldkonu úr Mývatnsveitinni ættuð frá Hælavík á Hornströndum.

 

Kvæðið heitir Svikahrappur.

 

Aumingja íslenski hundur

Sem áttir að reka úr túninu

Illa óboðinn gest

Hvað hefur orðið af þér

Ertu hættur að gelta

Illa ferst þér um flest

 

Hættur að gjamma greyið

Og hvað er nú þetta

Flaðrar þú upp um óþokkann

Afmánin þín

Svei þér  og svei þér aftur

Síst skal þér verða

þægileg þóknun mín.

 

Ef ég þekki háttalag formannsins mun hún ausa yfir mig svíðvirðingum enda  er sannleikurinn hver sárastur.  En ég þarf ekki að  hlusta  þar sem ég mun yfirgefa fundinn.

 

Þakka gott hljóð.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Ekki missa af

Eyjan
Fyrir 4 dögum

Þorgerður Katrín gagnrýnir ummæli fjármálaráðherra og segir þau gamaldags

Þorgerður Katrín gagnrýnir ummæli fjármálaráðherra og segir þau gamaldags
Eyjan
Fyrir 5 dögum

Þingmaður fékk sérstaka sendingu inn um bréfalúguna – „Það er einhvern veginn allt leyfilegt“

Þingmaður fékk sérstaka sendingu inn um bréfalúguna – „Það er einhvern veginn allt leyfilegt“
Eyjan
Fyrir 1 viku

„Líklega eru fáar atvinnugreinar sem fólk hefur meiri skömm á en stjórnmál“

„Líklega eru fáar atvinnugreinar sem fólk hefur meiri skömm á en stjórnmál“
Eyjan
Fyrir 1 viku

Guðni segist afar þakklátur – Skýr vilji þjóðarinnar um að halda áfram á sömu braut

Guðni segist afar þakklátur – Skýr vilji þjóðarinnar um að halda áfram á sömu braut