fbpx
Fimmtudagur 09.júlí 2020
Eyjan

Landsbankinn lokar í Bolungarvík – Bæjarstjórinn með áhyggjur af gamla fólkinu

Trausti Salvar Kristjánsson
Miðvikudaginn 27. maí 2020 12:37

Þjónustumiðstöðin í Bolungarvík. Mynd-bolungarvik.is

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Landsbankinn tilkynnti í gær á heimasíðu sinni að afgreiðsla bankans í Bolungarvík myndi sameinast útibúinu á Ísafirði þann 1. júlí næstkomandi. Hefur bankinn rekið afgreiðslu í ráðhúsi bæjarins frá árinu 2015, eftir að Sparisjóðurinn hætti þar störfum, en Landsbankinn ákvað að reka þjónustumiðstöð í Bolungarvík eftir að bæjaryfirvöld lögðu mikla áherslu á að halda bankaþjónustu gangandi áfram í bænum, ekki síst fyrir eldra fólk sem treysti á slíka þjónustu.

Eftir 1. júlí verður því ekkert bankaútibú í Bolungarvík í fyrsta skipti síðan 1908, eða í 112 ár. Um 950 manns búa í Bolungarvík.

Þarf að passa upp á eldra fólkið

Jón Páll Hreinsson, bæjarstjóri Bolungarvíkurkaupstaðar, segir fréttirnar ekki koma á óvart en leggur áherslu á að Landsbankinn standi við skuldbindingar sínar við eldra fólkið í bænum:

„Starfsmaður bankans í Bolungarvík er að hætta vegna aldurs og við sáum að einhverjar breytingar lágu í loftinu. Bankaþjónusta er að breytast hratt og reynsla samfélagsins í Covid treysti trú okkar allra á rafrænar lausnir. Bankaþjónusta er því ekki að hverfa frá Bolungarvík og hér gilda rafrænar lausnir á sama hátt og hjá öðrum landsmönnum. Hinsvegar er ákveðin hópur samfélagsins sem ekki er búin að tileinka sér þessar rafrænu lausnir og er kannski ólíklegt að það geri það, eins og til dæmis hluti eldri borgara. Þennan hóp þurfa bankarnir að passa vel uppá, líka Landsbankinn. Ég hef átt í samskiptum við Landsbankann um hvernig við tryggjum þjónustu við þá íbúa sem ekki treysta sér til nota rafrænar lausnir. Ég treysti því að Landsbankinn, eins og aðrir bankar muni gera allt sitt til að tryggja þá þjónustu.“

Mikil breyting

Baldur Smári Einarsson, forseti bæjarstjórnar Bolungarvíkur, segir þetta sorglega þróun í bankasögu Bolungarvíkur:

„Í ljósi sögunnar þá voru 14 stöðugildi hjá Sparisjóði Bolungarvíkur fyrir bankahrun, þar af 12 í Bolungarvík. Þannig að þetta er mikil breyting á 12-13 árum. Þegar Sparisjóðurinn sameinaðist Landsbankanum 2015 átti að loka en við börðumst gegn því og fengum þá til að halda opinni afgreiðslu fyrir gamla fólkið. Mér finnst fyrst og fremst mikilvægt að Landsbankinn verði áfram með einhverja þjónustu fyrir eldra fólkið sem hefur ekki tök á því að nýta sér tækni lausnir.“

Í tilkynningu Landsbankans er tekið fram að kenna eigi viðskiptavinum bankans á stafrænar lausnir í útibúinu í Bolungarvík, þriðjudagana 9., og 23. júní klukkan 15. Þá segist bankinn einnig ætla að bjóða upp á þjónustuheimsóknir fyrir eldri borgara.

Snýst ekki um sparnað

Landsbankinn vildi ekki gefa upp kostnaðinn við rekstur útibúsins í Bolungarvík þegar eftir því var leitað:

„Bankinn gefur ekki upp kostnað við rekstur á einstökum starfsstöðvum. Ákvörðunin snerist ekki um sparnað heldur þá staðreynd að  eftirspurn og þörf fyrir þessa þjónustu var orðin lítil. Heimsóknum í afgreiðsluna hefur fækkað mikið undanfarin ár, enda sinna flestir bankaerindum í símanum eða tölvunni. Þá nýta margir viðskiptavinir sér  útibúið á Ísafirði þar sem er opið frá kl. 9-16. Í afgreiðslunni í Bolungarvík sinnti einn starfsmaður bankaþjónustu í hlutastarfi en viðkomandi er að láta af störfum fyrir aldurs sakir,“

segir í svari bankans við fyrirspurn Eyjunnar.

Samkvæmt áreiðanlegum heimildum Eyjunnar greiðir Landsbankinn laust yfir 100 þúsund krónur mánaðarlega í leigu fyrir aðstöðu sína í ráðhúsinu, þar sem einnig er hraðbanki. Sú leiga rennur væntanlega út um mánaðarmótin júní/júlí, en líklega verður gerður nýr leigusamningur vegna hraðbankans.

Starfsmaður Landsbankans sem er að hætta sökum aldurs var í 50% starfi og því má varlega áætla að kostnaður Landsbankans vegna útibúsins í Bolungarvík hafi verið um fimm milljónir á ári, þegar leigan og laun starfsmannsins eru tekin saman.

Hagnaður Landsbankans í fyrra nam um 18,2 milljörðum króna, en starfsfólki viðskiptabankanna hefur fækkað ört undanfarin ár vegna breytinga á eðli bankaviðskipta og nýrra tæknilausna.

Þá minnkaði hagnaður allra viðskiptabankanna þriggja einnig milli ára í fyrra.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Katrín svarar Kára

Ekki missa af

Eyjan
Fyrir 3 dögum

Sigmundur segir að markmiðið sé að neyða fólk í strætó

Sigmundur segir að markmiðið sé að neyða fólk í strætó
Eyjan
Fyrir 3 dögum

Lögreglumenn þurftu að fara í sóttkví eftir atvik í vinnunni – Fá ekki greitt

Lögreglumenn þurftu að fara í sóttkví eftir atvik í vinnunni – Fá ekki greitt
Eyjan
Fyrir 6 dögum

3,6 milljörðum úthlutað til öflunar hagkvæmra leiguíbúða á landinu

3,6 milljörðum úthlutað til öflunar hagkvæmra leiguíbúða á landinu
Eyjan
Fyrir 6 dögum

Björn Leví bendir á alvarlegan galla við klára fullt kjörtímabil

Björn Leví bendir á alvarlegan galla við klára fullt kjörtímabil
Eyjan
Fyrir 1 viku

Segir að ríkisstjórnin hafi sýnt styrk sinn

Segir að ríkisstjórnin hafi sýnt styrk sinn
Eyjan
Fyrir 1 viku

Björn Leví segir Kolbeini að „fokka sér“

Björn Leví segir Kolbeini að „fokka sér“