fbpx
Sunnudagur 29.nóvember 2020
Eyjan

Dóra Björt stendur keik – „Samherjamálið gerðist, gögn voru birt og Eyþór kemur við sögu. Það er einfaldlega þannig“

Erla Dóra Magnúsdóttir
Þriðjudaginn 22. september 2020 15:43

Dóra Björt Mynd/aðsend

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Dóra Björt Guðjónsdóttir, oddviti Pírata í borgarstjórn Reykjavíkur, hefur undanfarna daga verið kölluð lygari og samsæringarsmiður vegna fyrirspurna hennar í borgarstjórn og í fjölmiðlum um tengsl Eyþórs Arnalds, oddvita Sjálfstæðismanna í Reykjavík, við útgerðarfélagið Samherja. Dóra telur það hluta af varnarleik Sjálfstæðismanna, að hjóla í hana og hennar persónu, til að afvegaleiða umræðuna og komast hjá því að svara óþægilegum spurningum. 

Undanfarna viku hafa þó nokkur spjót beinst að Dóru Björt vegna spurninga hennar um hvort Eyþór Arnalds hafi þegið mútur frá Samherja til að tryggja aðkomu útgerðarfélagsins að uppbyggingu á Selfossi. Dóra bendir í samtali við DV á að gert hafi verið meira úr þeirri spurningu heldur en markmið hennar var. Hún hafi aðeins velt upp möguleikanum að Samherji hafi mútað Eyþóri vegna uppbyggingarinnar.

„Ég hef náttúrulega aldrei talað niður Selfoss, talað niður þetta skipulag eða uppbygginguna sem á sér stað á Selfossi en því hefur Eyþórsherinn vissulega haldið ítrekað fram. Þvert á móti óskaði ég Selfyssingum til hamingju með uppbyggingu hins nýja miðbæjar í viðtali um daginn. 

Ekki hef ég heldur fullyrt að Eyþór hafi greitt götu fyrir Samherja á Selfossi en það var vissulega það sem ég spurði um hvort væri ástæða þess að hann hefur fengið 257 milljónir frá Samherja í gegnum félag sem hefur verið notað til að bera fé á stjórnmálamenn.“

Hjólað í konuna en ekki málefnið

Síðustu daga hafi umræðan hins vegar snúist frá því að fjalla málefnalega um fyrirspurnir Dóru og farið að snúast um persónu hennar og meinta bresti.

„Á föstudag fjölluðu að minnsta kosti þrjú viðtöl í Bítinu á Bylgjunni um hve óalandi og óferjandi ég er og var þar talað um að ég hafi sagt og gert hitt og þetta sem ég hef aldrei sagt og gert til þess eins að geta kallað mig lygara og óþverra.

En ekkert pláss fær það sem ég hef raunverulega talað um sem er þessi gjöf Samherja til Eyþórs og hvers vegna hún sé komin til. Það er eins og þau séu öll haldin minnisleysi og skilja bara ekkert í því hvað ég er að tala þó það hafi verið fjallað um þetta risavaxna Samherjamál í Kveik og Stundinni.“

Gjöf en ekki kaup

Eyþór hefur haldið því fram að hann hafi fengið svonefnt seljendalán fyrir kaupum sínum á hlut Samherja í Morgunblaðinu. Hins vegar hefur komið fram að það lán sé nú búið að afskrifa. Í ljósi þessa telur Dóra það alveg ljóst að um gjafagerning hafi verið að ræða og því beri að skattleggja hann sem slíkan. Eins hafi umfjöllun Stundarinnar og Kveiks um Samherjamálið leitt í ljós að kaup Eyþórs voru fjármögnum með óbeinum hætti af félagi sem er skráð á Kýpur, en það er sama félag og Samherji eru sakaðir um að hafa nýtt til að greiða mútur til stjórnmálamanna í Namibíu.

„Hann svarar engu um hvers vegna hann fékk þessa gjöf frá Samherja og mér finnst íbúar eiga skilið að fá svör því hann er kjörinn fulltrúi og fer með vald og það er mjög alvarlegt ef hann er í vasanum á stórum hagsmunaaðila.

Það liggur fyrir að peningar sem fjármögnuðu kaup Eyþórs á Morgunblaðinu eiga uppruna sinn í Kýpurfélagi í miðju Samherjamálsins. Um þetta hefur verið fjallað oft og ítarlega. Það er harkaleg pólitísk afstaða ef fjölmiðlar stroka bara út fyrri umfjöllun um þessi mál til að láta svo líta út fyrir að ég hafi fundið upp á því hvaðan fjármagnið bakvið þessa gjöf kemur.“

Engin svör

Umræðan um fyrirspurnir Dóru Bjartar og afstaða Eyþórs hafi fengið mikið rými í fjölmiðlum undanfarið. Hins vegar hafi spurningum hennar enn ekki verið svarað og öllu að því virðist kappkostað til að afvegaleiða umræðuna gagngert til að komast hjá svörum.

„Eyþór hefur ekki svarað hvers vegna hann hefur fengið svona stóra gjöf frá Samherja, stórum hagsmunaaðila í okkar samfélagi, í gegnum félag sem hefur borið fé á stjórnmálamenn víða um heim. Hann fer í staðinn alltaf að tala um eitthvað annað út og suður. Það er greinilega óþægilegt að svara þessari spurningu fyrst þetta flækist svona mikið fyrir honum.“

Ég væri til í að það væri eytt jafn miklu fútti í að krefja Eyþór svara eins og það er eytt í að reyna að gera mig að ótrúverðugum ómerkingi. Hvernig getur túlkun Eyþórs á minni meiningu og karakter ásamt afskræmdri endursögn á ummælum í viðtali og borgarstjórnarfundi haft meira vægi en ummælin sjálf og umfjöllun síðustu mánaða? Mín ummæli og umfjöllun liggja fyrir á vefnum.“

Dóra nennir

En hvers vegna er Dóra Björt að taka þennan slag einmitt núna?

„Ég held að almenningur sé kominn með leið á því að sjá svona mál sem liggja í augum uppi sem snerta óeðlileg hagsmunatengsl stjórnmálamanna sem aldrei þarf að svara almennilega fyrir.

Ég vil bara sýna að það er einhver þarna sem nennir að rölta þessa auka metra sem þarf fyrir almenning til þess að spyrja mikilvægra spurninga og krefjast svara. Ég er á launum hjá almenningi við að gera það sem fólk vill að sé gert. Og ég held að það skipti fólk máli að það sé veitt aðhald gegn því að stjórnmálafólk komist alltaf upp með að misbeita valdi sínu í eigin hag eða í hag vina og vandamanna.“

Staðreyndir eru staðreyndir

Staðreyndirnar tali sínu máli. Nafn Eyþórs sé viðriðið Samherjamálið og vegna stöðu hans sem kjörinn fulltrúi í borgarstjórn sé eðlilegt að hann svari fyrir þá aðkomu.

„Samherjamálið gerðist, gögn voru birt og Eyþór kemur við sögu. Það er einfaldlega þannig og það er fjarstæðukennt villuljós að stroka út margra mánaða rannsóknarvinnu sem er öllum aðgengileg bara vegna þess að það myndi henta Eyþóri betur ef hún hefði aldrei birst. Það er dónaskapurinn í þessu öllu ef menn ætla að setja sig á háan hest í stað þess að taka ábyrgð á eigin makki.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Eyjan
Fyrir 1 viku

Heitt í hamsi á Alþingi vegna vaxtahækkanna – „Ég er algjörlega ORÐLAUS!“

Heitt í hamsi á Alþingi vegna vaxtahækkanna – „Ég er algjörlega ORÐLAUS!“
Eyjan
Fyrir 1 viku

„Mikilvægt skref í jafnræðisátt“ – Ása og Björg í Hæstarétt

„Mikilvægt skref í jafnræðisátt“ – Ása og Björg í Hæstarétt