fbpx
Mánudagur 07.júlí 2025
Eyjan

Kallað eftir ofursköttum vegna „sumargjafar“ Samherja

Trausti Salvar Kristjánsson
Þriðjudaginn 19. maí 2020 15:55

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Andrés Ingi Jónsson, óháður þingmaður áður í röðum Vinstri grænna, kallaði eftir ofursköttum á ofurarf á þinginu í dag, í kjölfar umfjöllunar um framsal eignarhluta Samherjaeigenda til barna sinna í síðustu viku. Hann greinir einnig frá þessu á Facebook:

„Þetta minnir okkur á að þrátt fyrir allt eru sumir einstaklingar og fyrirtæki vel aflögufær og þeim ætti að leyfa að leggja meira til samfélagsins. Það er m.a. hægt með því að endurvekja auðlegðarskatt, þrepaskipta fjármagnstekjuskatti og umbylta erfðafjárskatti þannig að ofurskattur leggist á ofurarf. Þannig mætti styrkja tekjur ríkissjóðs í viðspyrnunni eftir Covid, en jafnframt auka jöfnuð innan samfélagsins og á milli kynslóða.“

Stærsta eignatilfærslan

Andrés nefndi að líklega væri um stærstu eignartilfærslu Íslandssögunnar og spurði hvernig hún væri skattlögð:

„Stærstu eigendur Samherja framseldu síðan í síðustu viku hlutabréf til barna sinna. Þetta er væntanlega stærsta persónulega eignatilfærslu Íslandssögunnar þar sem a.m.k. 60–70 milljarðar kr. færðust á milli kynslóða. Til samanburðar erfðu árið 2018 einstaklingar samtals 47 milljarða kr., lægri upphæð en hin fengu. Grunnurinn að Samherjaveldinu er nýting á sameiginlegri auðlind þjóðarinnar. Hvernig safnast svona stjarnfræðilegur auður? Hvernig er hann skattlagður?“

spurði Andrés Ingi.

Þörf á umbyltingu

Andrés Ingi talaði því næst fyrir algerri breytingu á skattkerfinu:

„Hér þarf að innleiða aftur auðlegðarskatt þannig að fólk sem á hundruð milljóna og milljarða í hreina eign fái að leggja meira til samfélagsins. Við þurfum að styrkja fjármagnstekjuskatt, þrepaskipta honum og tengja við arðgreiðslur.

Erfðafjárskatti ættum við að umbylta. Honum þarf að þrepaskipta rækilega og setja ofurþrep á ofurarf frekar en flatan skatt í lágri prósentu. Risavaxnar eignatilfærslur á milli kynslóða viðhalda ójöfnuði og stéttaskiptingu.“

Ótal tækifæri fyrir Bjarna

Andrés minnti síðan fjármálaráðherra á að ótal tækifæri væru fyrir ríkið til að afla tekna af sanngirni, áður en hafist væri handa við að skera niður:

„Fjármálaráðherra vill stefna í átt að Íslandi 2,0. Hann þarf að muna þegar hann vinnur næsta fjárlagafrumvarp að í samfélaginu eru ótal tækifæri til að afla meiri tekna fyrir ríkissjóð af sanngirni áður en hann leggur til að skera niður í opinberu þjónustunni sem við stólum öll á. Misskipting er ekki náttúrulögmál heldur mannanna verk og afrakstur ákvarðana sem margar hverjar eru teknar hér á þingi.“

Sumargjöf í stærri kantinum

Lilja Rafney Magnúsdóttir, þingmaður VG og formaður atvinnuveganefndar, sagði af sama tækifæri að kvótakerfið væri stórgallað:

„En sumargjafir Samherja til barnanna sinna er kannski í stærri kantinum. Þær nema tugum milljarða króna í tilfærslu frá eigendum Samherja til afkomenda sinna. Þetta endurspeglar stórgallað kvótakerfið með óheftu framsali og samþjöppun til stórra fjármagnseigenda.“

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

EyjanFastir pennar
Fyrir 1 viku

Óttar Guðmundsson skrifar: Heillandi fól

Óttar Guðmundsson skrifar: Heillandi fól
Eyjan
Fyrir 1 viku

Safna undirskriftum til að skora á Alþingsmenn að stöðva málþófið

Safna undirskriftum til að skora á Alþingsmenn að stöðva málþófið