fbpx
Fimmtudagur 29.október 2020
Eyjan

Álfheiður sakar forsetahjónin um dómgreindarleysi: „Er þetta ekki óeðlilegt? Hagsmunaárekstur?“

Ritstjórn Eyjunnar
Miðvikudaginn 30. október 2019 12:54

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Ráðning Elizu Reid til Íslandsstofu hefur vakið nokkra athygli, en hún verður talsmaður Íslandsstofu á völdum viðburðum erlendis á næstu árum. Um launað starf er að ræða.

Varaþingmaður Pírata, Álfheiður Eymarsdóttir, segir í færslu á samfélagsmiðlum að um dómgreindarleysi forsetahjónanna sé að ræða og deilir frétt DV um málið:

„Er þetta ekki óeðlilegt? Hagsmunaárekstur? Er þetta rugl í DV? Ég á svo bágt með að trúa þessu dómgreindarleysi annars stórfínna forsetahjóna.“

Sjá nánar: Eliza Reid ráðin til Íslandsstofu: Fær 576 þúsund krónur á mánuði

Meintur hagsmunaárekstur

Miklar umræður hafa skapast um málið í athugasemdarkerfi Álfheiðar.

„Embætti forsetans og skyldur forsetafrúar eru með allt öðrum hætti en ráðherra. Ég myndi samt sem áður setja spurningamerki við það ef maki utanríkisráðherra réði sig í lobbýisma á alþjóðavettvangi. Hrein og klár skörun og hagsmunaárekstur,“

segir Álfheiður sjálf og undrast að opinber staða Elizu sé notuð í „lobbýisma.“ Hún segir það „eðlilegra“ ef Eliza réði sig til starfa við háskólakennslu eða þroskaþjálfun til dæmis, sem væri óskylt embættinu.

Álfheiður telur það starfi Elizu til vansa að það skarist við opinberar skyldur hennar, en líklegt má telja að Íslandsstofa telji þá skörun einmitt heppilega, enda gangi starfið að miklu leyti út á þá skörun. Viðburðirnir sem Eliza sæki fyrir þeirra hönd séu viðburðir sem hún myndi líklega vilja sinna hvort sem er í „starfi“ sínu sem forsetafrú, til kynningar á Íslandi. Hinsvegar greiði Íslandsstofa henni fyrir ómakið, ólíkt íslenska ríkinu, en staða maka forseta er ekki launuð.

Leitað er svara við því hvort óeðlilega hafi verið staðið að ráðningu Elizu, en Þór Saari, fyrrverandi þingmaður, nefnir að Íslandsstofa sé:

„stórskrýtið batterí og undanþegin upplýsingalögum. Hmmm . . . ?“

Því má bæta við að sjálfstæðismaðurinn Friðjón Friðjónsson, kosningastjóri forsetans, situr einmitt í stjórn Íslandsstofu.

Fárvirði í fingurbjörg

Aðrir benda á að staða maka forseta sé ekki launað starf, þó í því felist ýmsar skyldur sem mótist af hefðum, en ekki lögum né reglum. Því sé ekkert óeðlilegt að maki forseta, óháð kyni, sjái fyrir sér sjálfur og að sinna ímyndunarvinnu fyrir hönd Íslands, sem maki geri venjulega hvort sem er.

Þá er einnig vikið að því að þessi umræðu ætti ekki að persónugera, heldur ræða út frá stöðu maka forseta óháð kyni og hvort starfið ætti ekki að vera launað miðað við það vinnuframlag sem staðan krefðist.

Þá er bent á að forsætisráðherra, sem er í raun mun valdameiri embætti en forseta, hafi í gegnum árin átt maka sem hafi sinnt sinni vinnu án þess að það sé gert tortryggilegt.

Þá er einnig bent á að Dorrit Moussaieff, eiginkona Ólafs Ragnars Grímssonar, fyrrverandi forseta Íslands, hafi áfram sinnt fjölskyldufyrirtækinu eftir að hún giftist Ólafi.

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir, varaformaður þingflokks Pírata og formaður stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar Alþingis, deilir ekki áhyggjum Álfheiðar. Hún segir á Facebook-síðu sinni: „Bara svo það sé sagt held ég að Eliza Reid verði frábær hjá Íslandsstofu og sé engan hagsmunaárekstur við það að hún sæki um vinnu og fái hana.“

 

 

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Eyjan
Fyrir 4 dögum

Kappræður varaformannsefna – Heiða Björg og Helga Vala

Kappræður varaformannsefna – Heiða Björg og Helga Vala
Eyjan
Fyrir 4 dögum

Sigmundur kemur lögreglunni til varnar – Norrænir krossfánar „langflottustu fánarnir“

Sigmundur kemur lögreglunni til varnar – Norrænir krossfánar „langflottustu fánarnir“