Það er dálítið merkilegt að taka eftir því að umræðan um þriðja orkupakkan hefur farið út í sálma sem maður man varla eftir síðan á tíma herstöðvabaráttunnar. Þá var líka mikið um landráðabrigsl, tal um svik við ættjörðina og þjóðina.
Og hellingur af skáldskap.
Bandaríski háðfuglinn Tom Lehrer samdi eitt sinn lag um borgarastríðið á Spáni. Þar sagði eitthvað á þá leið að Franco og sveitir hans hefðu unnið stríðið en lýðveldissinnar, sem töpuðu, hefðu unnið í laga- og ljóðakeppninni.
Svipað má segja um andstöðuna við veru hers í landi. Herinn fór ekki fyrr en Kaninn vildi það sjálfur. En það voru samin mörg ljóð og lög gegn her í landi. En engin ljóð með her.
Í orkupakkaumræðu síðustu daga skýtur þeim nokkrum upp úr djúpinu. Einn þingmaður Miðflokksins vitnaði í Sóleyjarkvæði Jóhannesar úr Kötlum. Það var á sínum tíma nánast eins og helgiljóð hjá herstöðvandstæðingum. Þetta eru línurnar sem þingmaðurinn notaði:
Hermdu mér Þjóðunn Þjóðansdóttir,
vísust af völum:
ætlarðu að lifa alla tíð
ambátt í feigðarsölum
á blóðkrónum einum
og betlidölum?
Nú sýnist manni tæplega að obbinn af þeim sem hafa harðast barist á móti orkupakkanum hafi verið andstæðingar hers og Nató, nei, það er jafnvel þvert á móti. Margir þeirra koma af hægri væng stjórnmálanna – þar var Jóhannes frá Kötlum ekki hafður í hávegum.
Í gær heyrði maður líka vitnað í annað ljóðbrot sem var oft gripið til í herstöðvabaráttunni. Það er eftir skáldkonuna Huldu, úr kvæðinu Hver á sér fegra föðurland?
…svo verði Íslands ástkær byggð
ei öðrum þjóðum háð
Svo aldrei framar Íslands byggð
sé öðrum þjóðum háð.