fbpx
Miðvikudagur 16.október 2019  |
Eyjan

Halldór Blöndal tekur Davíð á beinið: „Morgunblaðið er ekki það sama og það var“

Máni Snær Þorláksson
Laugardaginn 10. ágúst 2019 10:01

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Halldór Blöndal, fyrrverandi ráðherra Sjálfstæðisflokksins skrifaði beittan pistil í Morgunblaðið í dag. Í pistlinum talar Halldór um ritstjórastörf Davíðs Oddssonar og veltir því fyrir sér hvar Morgunblaðið fór út af sporinu.

„Ég hef verið að velta skrifum Davíðs Oddssonar fyrir mér, hvað fyrir honum vaki. Engum dylst að honum er mikið niðri fyrir og á erfitt með að hemja skap sitt þegar svo ber undir. Þá er eins og hann fái útrás með því að hreyta fúkyrðum í þjóðir Evrópusambandsins en mærir Trump, forseta Bandaríkjanna. Og þá rifjast upp undir eins að stærsti stjórnmálasigur Davíðs Oddssonar og Jóns Baldvins Hannibalssonar var samningurinn um hið Evrópska efnahagssvæði og gekk ekki hnífurinn á milli þeirra. Það verður þess vegna fróðlegt að sjá hvernig Davíð Oddsson bregst við þeirri fullyrðingu Arnars Þórs Jónssonar hér- aðsdómara á miðopnu Morgunblaðsins laugardaginn 27. júlí að með þeim samningi og framkvæmd hans sé komin upp staða sem er „ekki í neinu samræmi við þann lagalega grunn sem lagður var að stofnun Alþingis árið 930 og mótað hefur lagahefð Íslend- inga alla tíð, þrátt fyrir löng tímabil niðurlægingar, undirokunar og kúgunar.“

Halldór segir það liggja fyrir að Davíð Oddsson hafi mótað starfshætti okkar innan Evrópska efnahagssvæðisins. Auk þess segir Halldór að enginn einn maður hafi haft meiri áhrif í þeim efnum en Davíð. Hann segir að það sé rétt að meta orð héraðsdómarans í því ljósi.

Hann segir ávinninginn af Evrópska efnahagssvæðinu vera ótvíræðan fyrir íslensku þjóðina.

„Mesta hagræðið er vafalaust fólgið í því að hvorki tollar né gjöld eru lögð á útflutningsvörur okkar til Evrópusambandsins sem er okkar stærsti og mikilvægasti markaður. Öll samskipti milli þjóðanna eru frjáls, vinnumarkaðurinn er okkur opinn og sömuleiðis háskólar í löndum Evrópusambandsins. Ég dreg ekki úr því að til mikils sé að vinna með bættri framkvæmd EES- samningsins, sem geti falist í öflugri hagsmunagæslu og að innleiðing EES-regluverks sé ekki meira íþyngjandi en nauðsyn krefur.“

Halldór segist hafa orðið mjög undrandi á forsíðufrétt Morgunblaðsins 18. júlí síðastliðinn. 

„Héraðsdómarinn Arnar Þór Jónsson fullyrti í grein í blaðinu að þriðji orkupakkinn þýddi takmörkun á fullveldi þjóðarinnar. Þetta er að sjálfsögðu rangt eins og Hilmar Gunnlaugsson, hæstaréttarlögmaður og LLM í orkurétti, ásamt ýmsum öðrum hefur sýnt fram á. Og Hilmar segir á öðrum stað: „Við lögfestum reglur innri markaðarins í orkumálum árið 2003. Þriðji orkupakkinn er ekki að breyta neinu þar um. Þriðji orkupakkinn mun ekki breyta orkuverði á Íslandi. Þriðji orkupakkinn mun ekki leiða til lagningar sæstrengs, það væri auðveldlega hægt í dag, væri vilji til þess. Þriðji orkupakk- inn felur ekki í sér meira valdaframsal en leiddi af samningnum um Evrópska efnahagssvæðið.“

Halldór segir þessi orð Hilmars Gunnlaugssonar vera kjarna málsins.

„Hann er sérfræðingur í þessum efnum en héraðsdómarinn ekki. Þriðji orkupakkinn er eðlilegt framhald markaðsvæðingar á framleiðslu og sölu á raforku, sem innleidd var hér á landi með fyrsta og öðrum orkupakkanum í gegnum raforkulög árin 2003 og 2008. Vegna þeirra breytinga ríkir nú frjáls samkeppni í framleiðslu og sölu á rafmagni og neytendur geta valið af hverjum þeir kaupa rafmagn. Ég þekki dæmi þess að á þetta hafi reynt og lækkað rafmagnsreikninginn umtalsvert. Á hinn bóginn hefur það setið eftir að jafna flutningskostnað raforku sem hefur bitnað á landsbyggðarfólki og verður að taka á með jöfnunargjöldum. Það er heimilt og kemur orkupökkunum ekki við.“

Halldór botnar pistilinn með því að rifja upp tímana þegar hann var sjálfur blaðamaður á Morgunblaðinu og ber það saman við Morgunblaðið eins og það er í dag.

„Þegar ég var blaðamaður á Morgunblaðinu var það borgaralegt blað, þar sem skýr mörk voru sett milli almennra frétta og pólitískra frétta. Reykjavíkurbréf voru þannig skrifuð að farið var rétt með efnisatriði máls, þannig að lesandi þeirra vissi um hvað var að ræða og gætilega talað um einstakar persónur. Mér er mjög í minni ádrepa sem ég ungur blaðamaður fékk frá Matthíasi Johannessen og hef ekki gleymt þótt áttræður sé. Nú hefur breyting orðið á. Morgunblaðið talar eingöngu um það í þriðja orkupakkanum sem ekki er í honum, nefnilega sæstreng til Íslands. Á hinn bóginn lætur Morgunblaðið sig engu skipta frjálsræði í viðskiptum með rafmagn, rétt neytenda og neytendavernd. Morgunblaðið er ekki svipur hjá sjón. Það er ekki það sama og það var. En það er ekki öll von úti. Við höfðum gaman af að gantast hér fyrr meir meðan Eykon var ritstjóri og segja: „Hver veit nema Eyjólfur hressist!““

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Ekki missa af

Stefán er fundinn
Eyjan
Í gær

Neytendasamtökin telja frumvarp Þórdísar gagnslaust – Smálánastarfsemi lýst sem villta vestrinu -„Í rauninni alveg galið“

Neytendasamtökin telja frumvarp Þórdísar gagnslaust – Smálánastarfsemi lýst sem villta vestrinu -„Í rauninni alveg galið“
Eyjan
Í gær

Tyrkneska landsliðið heilsar aftur að hermannasið – nú í París

Tyrkneska landsliðið heilsar aftur að hermannasið – nú í París