fbpx
Laugardagur 27.apríl 2024
Eyjan

Þáttaröð um hin meinlegu örlög Rússakeisara og fjölskyldu hans

Egill Helgason
Sunnudaginn 21. júlí 2019 14:23

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Á Netflix horfði ég á þáttaröð sem heitir The Last Czars, myndi frekar eiga að heita Síðasti tsarinn því hún fjallar um Nikulás II, keisara Rússlands, þann sem var myrtur ásamt fjölskyldu sinni í Ekaterinburg sumarið 1918.

Þetta eru heimildaþættir, en aðallega leiknir – inn í þá er skotið stuttum viðtölum við sagnfræðinga, sá þekktasti er Simon Sebag Montefiore sem hefur skrifað bæði sagnfræðirit og skáldsögur um Rússland og Sovétríkin.

Örlög Nikulásar og fólks hans eru náttúrlega hörmuleg. Þættirnir eru á sinn hátt nokkuð hliðhollir honum, en það er samt ekki dregið undan að hann var algjörlega vanhæfur stjórnandi, illa upplýstur, kjáni. Og hann átti þýskættaða eiginkonu, Alexöndru, sem hafði ekki góð áhrif á stjórnunarstíl eiginmanns síns og var uppsigað við alla sem vildu koma fyrir hann vitinu.

Nikulás átti möguleika í upphafi valdatíðar sinnar 1894 til að veðja á þingræði. Það hefði kannski getað bjargað honum og ætt hans sem hafði ríkt í þrjú hundruð ár. En í staðinn kaus hann að ríkja sem alráður keisari – trúandi því að hann þægi vald sitt frá guði. Rússland iðnvæddist hratt á þessum tíma, bændur fluttu úr sveitum í borgir, í ríkinu voru ótal tækifæri, en óstjórnin var skelfileg, kúgunin gerði það að verkum að stjórnarandstæðingar urðu miklu róttækari en ella. Stjórnmálabaráttan hafði varla neinn löglegan farveg, sem var frjór jarðvegur fyrir ofstopamenn eins og Lenín og Stalín. Það sem þættirnir koma ágætlega til skila er hversu illa Nikulás skilur samtíðina og straumana í kringum sig.

Nikulás var líka óheillakráka. Við hátíðarhöld eftir krýningu hans tróðust mörg þúsund manns undir, það var á grasflæmi þar sem höfðu verið sett upp tjöld með mat, drykkjum og gjöfum handa almenningi. Þetta var talinn illur fyrirboði. Annar trúnaðarbrestur varð 1905 í Sankti Pétursborg  þegar hermenn skutu á friðsama mótmælendur sem vildu afhenda keisaranum bænaskjal. Þetta leiddi til tímabundins byltingarástands í ríkinu. Nikulás neyddist til að heimila stofnun þings sem kallaðist Duma – en honum var það þvert um geð og vildi sem minnst af þinginu vita. Sama ár beið Rússland afhroð í styrjöld við Japan – það gróf líka undan trúnni á Nikulás.

Nikulás var feikilega auðugur, einn ríkasti maður allra tíma, auðævi hans hafa verið metin á 250 til 300 milljarða dollara að núvirði. Rússneska hirðin lifði í vellystingum praktuglega. Nikulás átti fjórar gjörvilegar og gullfallegar dætur, Olgu, Tatiönu, Marie og Anastasiu, en það það vantaði son, ríkisarfa. Keisarahjónin munu hafa verið innilega ástfangin hvort af öðru og 1904 tókst þeim loks að eignast soninn Alexei.

Hann var hins vegar haldinn skelfilegum sjúkdómi sem gekk í konungsættum Evrópu, fékk hann að erfðum frá móður sinni, Alexei, var með dreyrasýki eða hemophilia – blóð hans storknaði ekki og lítil sár gátu jafnvel verið banvæn fyrir hann. Læknar réðu ekki við þetta, en það virtist farandklerkur frá Síberíu hins vegar gera. Raspútín var nafn hans. Hann varð einn frægasti og verst þokkaði einstaklingur á fyrstu áratugum tuttugustu aldar.

En í þáttunum birtist viss samúð með Raspútín. Það er óútskýrt hvort hann hafði einhvern lækningamátt, en Alexandra keisaraynja trúði á hann og Nikulás að einhverju leyti líka. Fjölskyldan varð mjög háð Raspútín. Hann átti sér einkennilega sögu, hann var bóndi úr þorpi í Síberíu, fékk vitrun árið 1887, lagði af stað fótgangandi um rússneska ríkið. Í þáttunum er því lýst að Raspútín hafi verið í söfnuði khlysty, en trú þeirra gekk út á það að þyrfti að saurga og niðurlægja holdið til að geta síðan fengið fyrirgefningu synda. Þannig stunduðu khlysty sjálfstyftun og stóðlífi sem hlut af trúarathöfnum sínum. En það er óvíst að Raspútín hafi nokkurn tíma verið meðlimur – hins vegar hrifust konur af krafti hans og stingandi augum – hann stundaði svallveislur og sængaði hjá fjölda kvenna.

Sögusagnirnar um Raspútín fóru afar illa með keisarafjölskylduna. Á kreiki var orðrómur um að hann væri ástmaður sjálfrar keisaraynjunnar. Fyrir því er varla flugufótur, en víða um ríkið var farið að dreifa skopmyndum sem sýndu þau við kynlífsathafnir. Þær höfðu mikil áhrif.

Raspútín var eindreginn andstæðingur þingræðisins. Skoðun hans var sú að Nikulás keisari þyrfti ekki að svara gagnvart neinum nema guði. Hann var illa þokkaður meðal ráðherra og embættismanna keisarans. Hins vegar var hann eindreginn andstæðingur þess að Rússland tæki þátt í ófriðnum sem varð að fyrri heimsstyrjöldinni, taldi það myndi marka endalok keisaradæmisins – sem það og gerði.

Í þáttunum er morðinu á Raspútín lýst. Aðaltilræðismaðurinn var moldríkur og gerspilltur frændi keisarans sem nefndist Felix Jusupov. Morðið er frægt, Raspútín drakk og át einhver býsn af eitri, en dó samt ekki. Svo var hann skotinn, en loks var honum troðið niður um vök í ánni Nevu. Líkskoðun á að hafa sýnt að hann var enn með lífsmarki þegar honum var sökkt í fljótið. Á sinn hátt er Raspútín heillandi fyrirbæri – eins og þættirnir sýna – ómenntaður bóndi sem kemst inn í hásali valdsins í stærsta ríki heims. Þetta er allt mjög dularfullt – og lygilegt.

Þáttaröðinni lýkur með morðinu á Nikulási og fjölskyldu hans. Hann hafði neyðst til að segja af sér sem keisari eftir febrúarbyltingunni 1917. Eftir októberbyltinguna lenti hann í höndum bolsévíka. Þeir fluttu fjölskylduna til Síberíu – morðin voru framin í Ipatiev húsinu í Ekaterinburg. Ein af persónum þáttanna er foringi morðsveitarinnar, Yakov Yurovski.

Kannski átti Nikulás ekki betra skilið eftir feril sinn? Hann hafði staðið fyrir mikilli ógnarstjórn og ofsóknum á hendur stjórnarandstæðingum – þótt það væri eins og sýning hjá áhugaleikfélagi miðað við kúgunina sem svo varð undir bolsévíkunum Lenín og Stalin. Hann hafði horn í síðu gyðinga – á tíma Nikulásar voru miklar ofsóknir gegn gyðingum í Rússlandi. Það var ekki furða að gyðingar væri í hópi hörðustu andstæðinga keisaraveldisins – þeir áttu einskis góðs að vænta þaðan. Hann dró Rússland inn í skelfilegt stríð þar sem milljónum mannslífa var fórnað. En börnin, þurfti að drepa þau líka?

Bolsévíkar töldu nauðsynlegt að þurrka út alla fjölskylduna, annars væri hætta á að yrðu til sameiningartákn fyrir andstöðuna gegn þeim. Bolsévíkar þekktu vart aðrar leiðir til að stjórna en með blóðsúthellingum – kenningin gerði beinlínis ráð fyrir því. Ættingjar Nikulásar voru hundeltir – nokkrir sluppu undan til Evrópu. Í þáttaröðinni er gælt við sögnina um Anastasiu – keisaradótturina sem á að hafa komist undan og birtist í Berlín 1920. Konan sem nefndist Anna Anderson hélt því fram allt sitt líf að hún væri Anastasia. Það var örugglega ósatt.

Anastasia var myrt ásamt systkinum sínum, föður og móður í Ipatiev húsinu nóttina 17. júlí 1918. Yfir þessum atburði er sérkennilegur óhugnaður. Fjölskyldan var leidd niður í kjallara hússins og sagt að þau ættu að bíða þar, til stæði að flytja þau á brott. Sveitir hvítliða voru að nálgast borgina. Í staðinn birtist Yurovski ásamt vitorðsmönnum sínum, þeir hófu mikla skothríð. Enginn gat lifað hana af, en það tók þó langan tíma fyrir dæturnar að deyja, inn í lífstykki þeirra voru saumaðir demantar sem fjölskyldan ætlaði að taka með sér í útlegðina sem hún hélt að væri framundan – þau virkuðu eins og skotheld vesti.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Eyjan
Fyrir 5 dögum

Halla Hrund stóreykur fylgi sitt – Mælist með meira fylgi en Jón Gnarr

Halla Hrund stóreykur fylgi sitt – Mælist með meira fylgi en Jón Gnarr
EyjanFastir pennar
Fyrir 5 dögum

Björn Jón skrifar: Ótrúlegur árangur íslenskra tæknifyrirtækja

Björn Jón skrifar: Ótrúlegur árangur íslenskra tæknifyrirtækja
EyjanFastir pennar
Fyrir 1 viku

Sigmundur Ernir skrifar: Flokkurinn sem yfirgaf sjálfan sig

Sigmundur Ernir skrifar: Flokkurinn sem yfirgaf sjálfan sig
Eyjan
Fyrir 1 viku

Ólafur Þ. Harðarson: Sjálfstæðismenn aðeins einu sinni fengið sinn forseta – sá var fyrrverandi formaður Alþýðubandalagsins

Ólafur Þ. Harðarson: Sjálfstæðismenn aðeins einu sinni fengið sinn forseta – sá var fyrrverandi formaður Alþýðubandalagsins
Eyjan
Fyrir 1 viku

Sigurjón skammar smákóngana í stjórnsýslunni – „Það vita allir í kerfinu af þessari fyrirstöðu en aldrei skal hróflað við Smákónginum“

Sigurjón skammar smákóngana í stjórnsýslunni – „Það vita allir í kerfinu af þessari fyrirstöðu en aldrei skal hróflað við Smákónginum“
Eyjan
Fyrir 1 viku

Lindarhvoll: Leyndarhyggjan enn við lýði – svör berast seint, illa eða ekki

Lindarhvoll: Leyndarhyggjan enn við lýði – svör berast seint, illa eða ekki