fbpx
Miðvikudagur 29.maí 2024
Eyjan

Áslaug Arna : „Viðhorf vinstri manna að lágir skattar séu opinber styrkur til atvinnulífsins“

Ritstjórn Eyjunnar
Fimmtudaginn 6. júní 2019 10:22

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir..

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, lemur á vinstri mönnum í grein í Morgunblaðinu í dag, vegna viðhorfa þeirra til skattamála. Hún segir verkefnið sem felst í nýrri fjármálastefnu vera tæknilegs eðlis, en óneitanlega sé dregin mjó lína á milli tæknilegra og hugmyndafræðilegra úrlausna:

„Umræða um skatta fer iðulega yfir þessa línu. Sjálfstæðisflokkurinn, sem stýrir fjármálaráðuneytinu, hefur lagt áherslu á að lækka skatta. Sumir gagnrýna forystu Sjálfstæðisflokksins fyrir að lækka skatta ekki nógu mikið og sú gagnrýni á að mörgu leyti rétt á sér. Á hinn bóginn eru vinstri menn sem telja aldrei réttan tíma til að lækka skatta, hvort sem vel árar í hagkerfinu eða illa,“

segir Áslaug og tekur Samfylkinguna fyrir sérstaklega:

„Þetta kristallaðist meðal annars í orðum þingmanns Samfylkingarinnar á Alþingi í vikunni sem gagnrýndi fjármálaráðherra, ekki bara fyrir að lækka skatta heldur fyrir að hækka ekki skatta. Þingmaðurinn talaði um „vannýtt tekjuúrræði“ í þessu samhengi. Sami þingmaður gagnrýndi fjármálaráðherra einnig fyrir að lækka skatta þegar fjármálastefnan var upphaflega lögð fram, þegar útlitið í hagkerfinu var betra en það er nú. Í hugarheimi Samfylkingar fela lægri skattar – að skilja meira eftir í vasa launafólks – í sér „afsal“ á tekjum ríkissjóðs.“

Þá segir Áslaug einnig:

„Þingmaðurinn spurði fjármálaráðherra hvort ekki væri rétt að taka upp auðlegðarskatt og hvort að við vildum í raun hafa 27 milljarða króna „skattastyrk“ til ferðaþjónustunnar – sem endurspeglar viðhorf vinstri manna að lágir skattar séu opinber styrkur til atvinnulífsins. Samfylkingin vill í raun að allir, bæði einstaklingar og fyrirtæki, borgi meira af erfiði sínu til ríkisins alveg óháð stöðu ríkissjóðs. Ekki hentar að lækka skatta þegar vel gengur og því síður þegar staða hagkerfisins er verri. Það er nöturlegt að verða vitni að því þegar stjórnmálamenn líta á skattgreiðendur sem endalausa uppsprettu fjármagns.“

Skýr stefna – En lítið um efndir

Þá lofar Áslaug skattalækkunum fyrir hönd Sjálfstæðisflokksins:

 „Það á við um alla skattstofna, tekjuskatt, útsvar, tryggingargjald, erfðafjárskatt, stimpilgjöld og svo má lengi telja. Við höfum aldrei litið á dugnað og útsjónarsemi sem uppsprettu fyrir ríkissjóð.“

Þess má geta að á tímabilinu 2007 til 2018 voru gerðar 267 skattabreytingar á Íslandi. Alls 200 af þeim voru hækkanir á sköttum, en aðeins 67 voru lækkanir. Þetta kom fram í yfirliti Viðskiptaráðs í febrúar 2018.

Þá gerðu stjórnvöld 22 breytingar á skattkerfinu um áramótin þar-síðustu, þar sem 19 voru til hækkunar, en þrjár til lækkunar.

Á tímabilinu 2007 -2018 hafa því skattar verið hækkaðir þrisvar sinnum fyrir hverja lækkun.

Hefur Sjálfstæðisflokkurinn verið í ríkisstjórn öll þessi ár, utan fjögurra, þegar vinstri stjórnin tók við í kjölfar hrunsins, frá 2009-2013.

Sjálfur skattaflokkurinn

Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra, sem mært hefur samstarf sitt við Bjarna Benediktsson fjármálaráðherra og formann Sjálfstæðisflokksins, sagði þetta í ræðu sinni á landsfundi VG í október árið 2017, rétt áður en hún myndaði ríkisstjórn með Bjarna:

„Og reyndar eru þeir þegar byrj­aðir með hræðslu­á­róður um skatta­hækk­anir vinstri­manna. Sjálfur skatta­flokk­ur­inn. Því hvað hefur Sjálf­stæð­is­flokk­ur­inn gert annað en að hækka skatta á almenn­ing? Eða var það ekki Sjálf­stæð­is­flokk­ur­inn í félagi við Fram­sókn sem hækk­aði virð­is­auka­skatt á mat­væli á síð­asta kjör­tíma­bili? Er það ekki Sjálf­stæð­is­flokk­ur­inn og fylgitungl hans sem boða nú veggjöld í massa­vís? Er það ekki Sjálf­stæð­is­flokk­ur­inn sem ætl­aði að hækka virð­is­auka­skatt á ferða­þjón­ustu? Sjálf­stæð­is­flokk­ur­inn getur lítið sagt um aðra. Hann er skatta­flokk­ur. En við munum ekki hækka skatta á almenn­ing í land­inu heldur munum við reka sann­gjarna skatta­stefnu.“

Sjá nánar: Katrín Jakobsdóttir:„Hvað hefur Sjálf­stæð­is­flokk­ur­inn gert annað en að hækka skatta á almenn­ing?“

Sjá einnig: Viðskiptaráð:200 skattahækkanir síðan 2007

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Fimm fara frá Newcastle