fbpx
Þriðjudagur 11.ágúst 2020
Eyjan

Ásmundur segir Björn Leví veikan: „Hann sem grét nú í púlti yfir eineltinu, það er hann sem er með mig í einelti“

Ritstjórn Eyjunnar
Þriðjudaginn 27. nóvember 2018 09:47

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Ásmundur Friðriksson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins sem hreinsaður var af ásökunum Pírata í gær af forsætisnefnd Alþingis, var til viðtals í Bítinu á Bylgjunni í morgun. Þar sagðist Ásmundur vera feginn þessari niðurstöðu, en tók fram að hann væri lagður í einelti af Birni Leví Gunnarssyni og Pírötum:

„Þetta fólk, Píratarnir, Björn Leví Gunnarson, hann sem grét nú í púlti yfir eineltinu, það er hann sem er með mig í einelti,“ sagði Ásmundur. „Það er mjög viðkvæmt að vera ásakaður um að hafa stolið. Sérstaklega í þessu starfi.“

Og einnig:

„Það er ferlega furðulegt að vera á sjötugsaldri og upplifa það í fyrsta skipti á ævinni að vera eineltur.“

Aðspurður hvað hann hefði gert í sínum málum varðandi eineltið svaraði Ásmundur:

„Ég hef bara þurft að bera harm minn í hljóði.“

Einkenni veikinda

Björn Leví segir í Fréttablaðinu í dag að hann sé hvergi nærri hættur með málið:

„Það getur ekki verið miðað við að það á að kalla saman siðanefndina en var ekki gert. Það var undarlegt að forseti slaufi fram hjá þeirri skyldu sinni. Forsætisnefnd er bara milligönguaðili í þessu. Erindi mitt snýr mikið að endurgreiðslu í kringum kosningabaráttu. Þar undir eru ansi margir þingmenn og þeir þingmenn sem voru í forsætisnefnd og hafa kannski fengið endurgreiðslur vegna aksturskostnaðar sem frambjóðendur en ekki sem þingmenn í kosningabaráttu hefðu átt að segja sig frá málinu.“

Um þetta sagði Ásmundur:

„Ég er algerlega klár á því að hann muni aldrei hætta. Þegar niðurstaðan er honum ekki að skapi, þá munu þeir aldrei hætta, það eru einkenni einhverja veikinda.“

Þá virtist Ásmundur komast við er hann sagði:

„Hvernig haldið þið að mér líði og fjölskyldu minni?“

Aðspurður hvort hann hygðist leita réttar síns, þar sem hann hefði verið þjófkenndur á Alþingi, sagðist Ásmundur ætla að beita fyrirgefningunni:

„Ég setti á Facebook að ég ætlaði að fyrirgefa þeim. Það er það eina sem ég get gert. Með fyrirgefningunni þá líður mér sjálfum betur.“

Mannorðsmorð í pólitískum tilgangi

Þá fór Ásmundur mikinn um óskilgreindan hóp sem hann nefndi „þau“, en helst mátti ráða af máli hans að um væri að ræða Pírata og Helgu Völu Helgadóttur, þingmann Samfylkingarinnar. Sagði hann hópinn hafa beitt sér gegn Braga Guðbrandssyni, fyrrverandi forstjóra Barnaverndarstofu og reynt að eyðileggja framboð hans til Barnaréttarnefndar Sameinuðu þjóðanna:

„Þau taka svona menn fyrir og taka þá hreinlega af lífi. Það var gert í pólitískum tilgangi.“

Um tilgang slíkra aðfara gegn sér, sagði Ásmundur að það hljóti að helgast til af skoðunum sínum:

„Ég held að þetta snúist um einhverjar skoðanir mínar sem þau hafa andstyggð á. Til dæmis á hælisleitendum. Ég hef fengið að heyra það frá þessu fólki, og Helga Vala og jafnvel eiginmaður hennar hafa ráðist á mig árum saman.“

Þegar Ásmundi var bent á að Helga Vala væri ekki í Pírötum, svaraði hann: „Nei en hún var sú eina sem tók sig út úr og stóð með þeim í gær.“

Hvar byrjar siðleysið á kílómetrakvarðanum?

Ásmundur, sem þykir þingmanna duglegastur við að heimsækja kjördæmi sitt, var spurður hvort það væri ávallt eftirspurn eftir þingmönnum í kjördæmunum, hvort hann þyrfti að vera keyra svona mikið:

„Ég er oftar með móral yfir því að komast ekki,“ sagði Ásmundur og þuldi upp ýmsa fundi sem hann hefði ekki komist á.

Ásmundur spurði einnig hvar á kílómetrakvarðanum meint siðleysi byrjaði og nefndi Helgu Völu Helgadóttur, þingmann Samfylkingarinnar og Oddnýju Harðardóttur, þingmann VG, í því sambandi:

„Dettur engum í hug að velta fyrir sér hvar á kílómetrakvarðanum siðleysið byrjar?  Metur Helga Vala það svo að það sé kílómetrinn fyrir ofan það sem Oddný Harðardóttir keyrði? Hún er líka landsbyggðarþingmaður. Hvar á kílómetrakvarðanum byrjar siðleysið?“

Þegar Ásmundur var krafinn skýrra svara um hvað hann hygðist til bragðs taka gagnvart meintu einelti Pírata, sagðist Ásmundur ekki vera viss:

„Vitiði strákar, ég get ekki sagt hvað ég geri. Ég hef áður verið ráðþrota agnvart þessu og þetta er bara, jafnvel þó mér finnist þetta mjög skrítið fólk, þá er mjög þrúgandi að fá svona hóp af svona fólki sem hefur aðgang að fjölmiðlum og ræðupúlti Alþingis, til að rakka mann niður og bera á mann ósannindi, ljúga upp á mann þjófnað, það bara heldur áfram, skiptir engu máli hvað ég geri, þau ætla sér að halda áfram, og bara, hvar endar það ?“

Ásmundur setti eftirfarandi færslu inn á Facebook í gærkvöldi:

„Það er mikill léttir að ásakanir Björns Leví Gunnarssonar alþingismanns um þjófnað er vísað frá. Málið hefur reynt á en nú er því lokið og mun ég og fjölskylda mín horfa fram á veginn og fyrirgefa þeim sem hafa brigslað mér um slíka óhæfu sem þjófnaður er. Vonandi að það verði til þess að það fólk sjá birtu lífsins.
Niðurstaða forsætisnefndar er, (úrdráttur)
„Þá er það niðurstaða forsætisnefndar að sú athugun sem frem hefur farið á endurgreiddum aksturskostnaði ÁsF ásamt skýringum hans leiði til þess að ekkert hafi komið fram sem gefi til kynna að hátterni hans hafi verið andstætt siðareglna fyrir þingmenn.“

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Í vikunni

Eyjan
Fyrir 5 dögum

Þungar ásakanir á Vegagerðina eftir ógilta samkeppni um brú yfir Fossvog – „Endanleg staðfesting á því hversu rotið þetta er“

Þungar ásakanir á Vegagerðina eftir ógilta samkeppni um brú yfir Fossvog – „Endanleg staðfesting á því hversu rotið þetta er“
Eyjan
Fyrir 5 dögum

Óli Björn mun ekki greiða atkvæði með skattahækkunum

Óli Björn mun ekki greiða atkvæði með skattahækkunum
Eyjan
Fyrir 1 viku

Staðan á vinstri vængnum: Vænlegir nýliðar og beðið eftir ákvörðun Rósu Bjarkar

Staðan á vinstri vængnum: Vænlegir nýliðar og beðið eftir ákvörðun Rósu Bjarkar
Eyjan
Fyrir 1 viku

Yngstu þingmenn 21. aldarinnar á Íslandi – Tvö jafn gömul upp á dag þegar þau urðu þingmenn

Yngstu þingmenn 21. aldarinnar á Íslandi – Tvö jafn gömul upp á dag þegar þau urðu þingmenn